Ég fæddist í Reykjavík árið 1961. Foreldrar mínir eru Arnfríður Margrét Hallvarðsdóttir og Þór Þorbergsson. Ég er elstur af sex systkinum. Á barnsaldri átti heima á Hvolsvelli, á Selfossi, í vesturbæ Reykjavíkur og á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Menntaskólanám stundaði ég á Ísafirði og í MS í Reykjavík.
Ég vann ýmis störf á sumrin samhliða námi allt frá 14 ára aldri. Fyrstu sumrin var ég svo lánsamur að fá að vinna á Fljótsdalsheiði sem verkamaður við undirbúning rannsókna og mælingar vegna Fljótsdalsvirkjunar sem svo var kölluð. Ég greip líka stundum í íhlaupastörf og afleysingar á tilraunabúinu á Skriðuklaustri þar sem foreldrar mínir bjuggu. Á menntaskólaárunum vann ég einnig meðal annars í saltfiskverkun og var háseti á netabát. Þegar ég var svo kominn í háskóla var ég meðal annars háseti á togara og komst meira að segja einu sinni svo langt að verða kokkur.
Eftir menntaskóla lærði ég heimspeki til BA prófs og síðar hagfræði til MSc prófs í Háskóla Íslands. Áhugi minn á heimspeki hafði fylgt mér frá unglingsárum. Ég skrifaði BA ritgerð seint. Mikael Karlsson prófessor var leiðbeinandi minn (sjá hér). Ritgerðin fjallaði um frelsi og ekki síst um doktorsritgerð Kristjáns Kristjánssonar um félagslegt frelsi sem svo er kallað.
Áhuga á hagfræði fékk ég þegar ég áttaði mig á því að til að unnt væri að stunda sjálfbæra náttúruvernd yrði að beisla hagræn öfl í þágu hennar. Meistararitgerðina skrifaði ég um náttúruvernd. Ég fékk styrk frá Rannís til að skrifa hana (sjá hér). Gylfi Magnússon prófessor var aðalleiðbeinandi minn. Í framhaldi af þessum pælingum varð ríkisvaldið mér mikið umhugsunarefni.
Samhliða námi starfaði ég m.a. við þýðingar og ritstörf og við umönnun fatlaðra. Ég kenndi um hríð á háskólastigi, einkum við viðskiptaskólann á Bifröst en einnig annars staðar í stundakennslu. Þá vann ég um árabil í stjórnsýslunni, hjá fjármálaráðuneytinu og Samkeppniseftirlitinu.
Ég á tvö börn. Þau heita Þór og Sigríður Margrét. Þau á ég með Nönnu Þórarinsdóttur, fyrrum eiginkonu minni. Þór lærði hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og starfar við hugbúnaðargerð. Sigríður Margrét er læknanemi.
Ég hef haft áhuga á bókmenntum og ýmsum listum frá því ég man eftir mér. Því miður lærði ég ekki á hljóðfæri í æsku. Einu sinni reyndi ég að bæta úr því og fékk vin minn Þorgeir Rúnar Kjartansson (1955 – 1998) til að leiðbeina mér við saxófónleik. En kennslan hafði ekki staðið yfir nema í svo sem korter, hálftíma, þegar hann lagði frá sér saxófóninn og sagði: Nú stofnum við hljómsveit. Þar með var þeirri kennslustund lokið. Viku síðar var stór hópur hljóðfæraleikara kominn saman á fyrstu æfingu hljómsveitarinnar og þremur vikum síðar hélt hún sína fyrstu tónleika. Hljómsveitin var nafnlaus allra fyrst. Við grínuðumst með að kalla hana AA bandið, en svo fannst viðunandi nafn, Júpíters, með essi. Ég fékk að vera með og spilaði bakraddir á saxófón í þessari skemmtilegu hljómsveit fyrstu mánuðina sem hún starfaði. Um þessa hljómsveit má fræðast nánar t.d. hér og hér.
Seinni árin hef ég sinnt bókmenntum og listum meira en lengst af. Ég er félagi í tveimur listamannafélögum, Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur og Rithöfundasambandi Íslands.
Myndlistarferill minn verður að teljast stuttur. En ég bauð þó Reykjavíkurborg að setja upp útilistaverk í Tjörninni. Lesa má tillöguna um verkið á bls. 204 og 205 í afmælisriti Myndhöggvarafélagsins, sjá hér, en frétt af viðbrögðum borgarinnar til dæmis hér. Þá hef ég tekið þátt í einni samkeppni um listskreytingu opinberrar byggingar (sjá hér) en tillaga mín var sýnd með öðrum tillögum sem til greina komu á sýningu á Háskólatorgi vorið 2013.
Ég hef sinnt bókmenntum og þýðingum meira en öðrum listum. Fyrsta þýðing mín kom út árið 1989. Það var skáldsagan Litla systir eftir Raymond Chandler (1888 – 1959, sjá hér) sem kom út hjá Ugluklúbbi Máls og menningar. Í sögunni kemur fyrir ísnál sem er notuð sem morðvopn. Allmörgum árum eftir að þessi bók kom út var stofnað til þýðingarverðlauna fyrir best þýddu glæpasöguna. Þessi verðlaun eru veitt á hverju ári. Þegar nafn var valið á verðlaunin var ákveðið að kenna þau við ísnálina hans Chandlers (sjá hér).
Meðal annarra þýðinga minna má nefna bækur eftir hagfræðinginn og heimspekinginn Adam Smith (1723 – 1790) (sjá hér og hér). Hann er talinn einn fremsti hagfræðingur sögunnar og gjarna einfaldlega sá fremsti. Ég þýddi fyrstu þrjár bækur Auðlegðar þjóðanna eftir hann. Bók með þeirri þýðingu kom út hjá Bókafélaginu árið 1997. Þá þýddi ég Bláu bókina eftir Ludwig Wittgenstein (1889 – 1951) (sjá hér). Ludwig Wittgenstein er gjarna talinn einn fremsti heimspekingur tuttugustu aldar. Vinur minn og gamall kennari, Þorsteinn Gylfason (1942 – 2005), skrifaði inngang að ritinu. Þessi bók kom út sem Lærdómsrit hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1998. Þessir tveir höfundar, Smith og Wittgenstein, eru ákaflega ólíkir. Það reyndist mér ákaflega lærdómsríkt að þýða þessa höfunda.
Ég hef einnig þýtt ýmsar aðrar bækur og einnig vísindaritgerðir, en tvær þeirra öfluðu höfundum sínum Nóbelsverðlauna. Önnur þeirra, Um eðli fyrirtækja eftir Ronald Coase, kom út árið 1937, en hann fékk Nóbelsverðlaunin fyrir hana rúmum fimmtíu árum síðar, árið 1991. Sú ritgerð er hreint snilldarverk. Hún birtist í Fjármálatíðindum Seðlabankans (sjá hér). Hin ritgerðin á sér ekki jafn óvenjulega sögu en er auðvitað líka frábær. Hún heitir Bílamarkaðurinn og óvissa um gæði og er eftir George Akerlof. Hún birtist í ritgerðasafninu Hættumörk í ritstjórn Guðmundar Magnússonar, en sú bók kom út árið 2004 á vegum Viðskiptafræðistofnunar Háskólans. Lesa má aðeins meira um þessar ritgerðir hér.
Ritaskrá mína eins og hún kemur fram í landskerfi bókasafna má sjá hér.
Fyrsta frumsamda prósaverk mitt, nóvellan Kvöldverðarboðið, kom nýlega út hjá Bókaútgáfunni Vesturgötu, en þetta bókaforlag á ég sjálfur. Bókina má kaupa hjá Pennanum, hér, en einnig hjá forlaginu, með því að hafa samband hér. Tveir ritdómar voru birtir um bókina þegar hún kom út. Ritdómur var birtur í Morgunblaðinu þann 13. desember 2019 („Spyr ástin ekki um aldur?“) og í DV fjórum dögum síðar, 17. desember (Ágúst Borgþór Sverrisson, „Hæverskur vonbiðill“, 3 stjörnur, sjá hér). Margir lesendur hafa lýst yfir ánægju sinni með bókina á facebook og í skilaboðum til höfundar, sem þeir hafa gefið höfundi leyfi til að birta (sjá hér)