Umsagnir um Kvöldverðarboðið

Hér eru ýmsar umsagnir um nóvelluna Kvöldverðarboðið. Þau sem umsagnirnar gerðu gáfu leyfi til að birta þær.

Fara til baka.

Eyjólfur Kjalar Emilsson prófessor í heimspeki og þýðandi verka Platons á íslensku. Stöðufærsla á facebook 18. janúar 2020: „Eg hef lesið þrjár íslenskar bækur þessi jól: HKL Péturs Gunnarssonar, Tilfinningabyltingu Auðar Jónsdóttur og Kvöldverðarboð Þorbergs Þórssonar. Yfir engri þeirra leiddist mér, enda vel stílaðar allar og raunar svo að eg las hverja þeirra í einum rykk svo að nætursvefn mátti líða fyrir. Þetta hljóta að vera meðmæli með bókum, a.m.k. ef aðrir eru eitthvað líkir sjálfum mér, sem virðist, svona fyrirfram, afar sennilegt. Ekki skal eg fara í neinn meting um hverja þessar bóka eg tel besta. Og þó: verð að segja viss atriði við þær tvær fyrrnefndu fóru svolítið í taugarnar á mér, þótt ekki yrðu þau til þess að eg hætti lestrinum. Kvöldverðarboðið fór hins vegar aldrei í taugarnar á mér. Eg hef séð eina tvo ritdóma um þá bók, sem mér virðist vera augljós fljótaskrift á og benda til að rýnendurnir hafi ekki skilið verkið. Draga svona úr og í, eins og þeir séu að reyna að segja höfundinum til í algeru skilningsleysi á hvað hann er að fara og vilja. Vissulega gerist ekki mjög margt í bókinni sem ætti erindi í sögubækur, en má ekki sama segja um mörg skáldverk sem talin eru til heimsbókmennta: Leit að glötuðum tíma Prousts, svo að eitthvað sé nefnt? Mér virðist að í látleysi sínu og þaulöguðum stíl lýsi Kvöldverðarboðið trúverðuglega einsemd, þrá eftir fegurð og, sem er eftirminnilegast, vekur spurningu um hvenær og í hverju slíkri þrá sé fullnægt. Hefur söguhetjan Úlfur skynjað eitthvað djúpt og satt í sínum að því er virðist ófullnægða „gráa fiðringi“ sem kallaður er? Lífið er dálítið flókið, Kvöldverðarboðið gerir því eftirminnileg skil.“

Sigurjón Baldur Hafsteinsson  prófessor í safnafræði. Umsögn á facebook 6. desember 2019:  „Kvöldverðarboðið tekst á við tilvistarlegan vanda fólks í nútímanum, eins og takmörkuðum möguleikum fólks til að hrífast og tengjast vegna aldurs og tækni. Um leið er sagan heimspekilegt ferðalag um ýmsar hliðar mannlífsins eins og einmanaleika, vináttu, þrár og dauðans óvissa tíma. Kvöldverðarboðið er áleitin og vel skrifuð saga sem á mikið erindi við samtímann.“

Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur gerði þessar athugasemdir um bókina á höfundarsíðu ÞÞ, við póst sem dagsettur var 31. október 2019: „svakalega vel skrifuð bók, fyndin og yndisleg.“ Og neðar á sama þræði: „Rödd höfundar mjög sterk, stíll og persónusköpun.“ Fáeinum dögum síðar bætti hún svo þessu við á facebookvegg höfundar: „Endirinn er snilld!“

Þórunn Valdimarsdóttir rithöfundur sagði í stöðufærslu þann 29. október 2019: „Miðaldra karl verður skotinn í ungri konu. Hvernig fer um sjóferð þá? Afar vel skrifað um pínlega viðkvæmt efni.“

Skúli Pálsson heimspekingur sagði, í athugasemd um færslu um bókina og ritdóm um hana frá 17. nóvember 2019 (ritdómur í DV): „Ég var mjög hrifinn af [sögunni]. Skil ekki hvað hann meinar með stirðan stíl „framan af“. Þvert á móti, stíllinn hæfir efninu, öll smáatriði hafa einhvern tilgang. Þótt sagan sé í bland dapurleg er laumulegur húmor út í gegn.“

Gylfi Magnússon dósent í hagfræði og fyrrv. ráðherra sagði þetta í færslu á fb-síðu höfundar, í færslu 21. nóvember 2019: „Búinn að lesa Kvöldverðarboðið. Virkilega notaleg lesning. Angurvær andi og flott persónusköpun. Til hamingju með bókina!“

Kolbeinn Bjarnason flautuleikari sagði, í athugasemd á facebook þann 14. júlí 2020: „Takk og kærar þakkir fyrir bókina. Ég gleypti hana í mig . Mjög athyglisverð og frumleg í alla staði. Hugsaði um Proust þegar ég las hana, öll þessi dásamlegu smáatriði. Brá þegar henni lauk skyndilega – var orðinn spenntur að vita hvernig þetta færi.“

Jónas Knútsson rithöfundur og þýðandi, í persónulegum skilaboðum til höfundar 28. ágúst 2020: „Heillandi og falleg saga um vandmeðfarið efni. Höfundur segir frá af djúpstæðu innsæi og fullkomnu öryggi, gæðir hverja einustu setningu sjálfstæðu lífi og slær ekki einustu feilnótu.“

Erla Dóris Halldórsdóttir sagnfræðingur, í persónulegum skilaboðum til höfundar 19. ágúst 2021: „Það var ótrúlega gaman að lesa bókina þína, Kvöldverðarboðið. Hún er sérlega vel skrifuð og svo úthugsuð, að það hálfa er nóg. Takk fyrir mig. Þú getur tekið þessu sem miklu hrósi því ég gefst mjög oft upp á skáldsögum en ekki í þetta sinn. Las hana frá upphafi til enda.

Helgi Ingólfsson sagnfræðingur og rithöfundur, í færslu á facebooksíðu sinni, 3. febrúar 2022: Bókarýni: KVÖLDVERÐARBOÐIÐ (2019) e. Þorberg Þórsson. „Kvöldverðarboðið“ er nóvella, um 140 blaðsíður að lengd, tveggja kvölda lesning. Sagan er hrein raunsæisleg hversdagssaga, gerist á ríflega mánuði, frá nóvember fram að áramótum 2010-2011. Fráskilinn maður um fimmtugt, Vesturbæingurinn Úlfur, verður hrifinn af mun yngri konu, Steinu, djasssöngkonu um þrítugt. Heilmikið er um kráarrölt í miðbænum með tilheyrandi kunningjaspjalli og heimgöngur þaðan vestur í bæ í myrkri og hálku þar sem Úlfur rekst á ketti hér og þar, og heldur um síðir afar einmanaleg jól í veikindum. Stíllinn er blátt áfram; einfaldur, jarðbundinn og auðlesinn. Heilmiklar vangaveltur eru í sögunni um hvers eðlis hrifningin er; er Úlfur hrifinn, gagntekinn, ástfanginn? Söguhetjan finnur hjá sér ríka þörf fyrir að skilgreina ástand sitt út frá rökrænni hugsun og þar er einmitt að finna bitastæðustu kaflana – í tveimur bréfum sem Úlfur skrifar nærri sögulokum. Sagan einskorðast við sjónarhorn Úlfs. Það er í senn styrkur bókarinnar og veikleiki að aldrei berast nein viðbrögð frá Steinu djasssöngkonu; við vitum minnst um hvað henni finnst (ef hún áttar sig nokkuð á því sem er á seyði, fyrr en ef/þegar henni berast umrædd bréf sem skrifuð eru í bókarlok – og þá liggja þau viðbrögð utan ramma sögunnar). Eins og samskipti kynjanna hafa þróast á fáum árum kynni einhver harðlínufeministinn í dag að gera sér mat úr aldursmuninum á þeim Úlfi og Steinu – en það er bara allt önnur Ella. Niðurstaða: Forvitnileg bók og fljótlesin. Fallegt bókverk; retró-sixtís-kápa.

Viðar Víkingsson kvikmyndagerðarmaður, í persónulegum skilaboðum til höfundar, 19. maí 2022: Las Kvöldverðarboðið og hafði gaman af. Vel skrifuð. Ýmsar merkilegar heimspekilegar pælingar. Stundum er maður ekki viss um að sögumaður hafi virkilega upplifað það sem hann lýsir, en þá kemur einhver köttur í spilið og kippir honum niður á jörðina. Þá hló ég, lendi sjálfur í óvæntum köttum. Ef ég ætti að setja út á eitthvað, þá væri það frásagnir af því þegar Úlfur hittir fólk á bar og ræðir við það um eitthvað sem samt er ekki nógu bitastætt til að gera þau að karakterum. En í heild, skemmtileg lesning! Takk!