Vilji kjósenda náði ekki fram að ganga í kosningunum

[Þessi færsla birtist fyrst á bloggsíðu minni á Stundinni síðdegis miðvikudaginn 20. október 2021. Sjá má upprunalegu útgáfu færslunnar hér:]

           Því heyrist oft fleygt þessa dagana, að aðalatriðið um kosningar sé að vilji kjósenda nái fram að ganga. Oft er því svo bætt við að einmitt það hafi nú gerst í kosningunum nú á dögunum. Það er alveg rétt, að það er aðalatriði að vilji kjósenda nái fram að ganga. En hin staðhæfingin, sem svo oft fylgir, að þetta hafi nú einmitt gerst núna, er yfirleitt alveg eða næstum alveg órökstudd. Því er samt oft bætt við að fylgi flokkanna hafi ekki breyst á landsvísu með endurtalningunni. Það er út af fyrir sig alveg rétt en bara ekki nóg.

            Þá gleymist nefnilega að landið er ekki eitt kjördæmi heldur skiptist það í sex kjördæmi. Auk þess eru þingmenn óbundnir af vilja kjósenda samkvæmt stjórnarskrá. Þeir eiga að vera sjálfstæðir í störfum sínum. Þess vegna er það rangt sem margir halda, að það skipti litlu hverjir skipi jöfnunarþingsæti í þeim fimm kjördæmum, þar sem sætaskipti urðu á jöfnunarþingmönnum.  

            Það skiptir máli hverjir verða þingmenn.

            Fólk sem segir að vilji kjósenda hafi náð fram að ganga í síðustu Alþingiskosningum hefur oft ekki heldur ígrundaða skoðun á því hvort hin meinta rétta niðurstaða hafi fengist í fyrri talningunni í Borgarnesi eða hinni síðari.

                                                ~         ~         ~

            Alþingiskosningar eru kosningar um það hvernig skipa eigi löggjafarþingið sem setur þjóðinni lög. Nákvæm lög (lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000, hér eftir kosningalög) gilda um það hvernig slíkar kosningar eigi að fara fram. Það má líka segja að þessi lög kveði á um það hvernig vilji þjóðarinnar (kjósenda) er samsettur og hvernig hann nái fram að ganga.

            Vilji kjósenda nær fram að ganga ef allt kosningaferlið fer fram lögum samkvæmt. Með öðrum orðum: allir sem vilja kjósa og hafa kosningarétt fá sanngjarnt tækifæri til að kjósa á kosningadag eða utankjörfundar fyrir kosningadag. Kosningarnar fara fram lögum samkvæmt og engir kjósa aðrir en þeir sem hafa kosningarétt. Í kjölfarið eru öll atkvæði talin og rétt úrskurðað um vafaatkvæði. Þingsætum er svo úthlutað í samræmi við hina réttu talningu og í samræmi við lög.

            Rökin fyrir því að allt þurfi að hafa gengið rétt fyrir sig til að vilji kjósenda teljist hafa náð fram að ganga eru þau að kosningalögin fjalla, ásamt stjórnarskránni, um það hvað teljist vera vilji almennings eða kjósenda. Það sem gerist í kosningum í trássi við þessi lög getur því ekki talist vera vilji kjósenda og vilji kjósenda nær ekki fram að ganga með slíkum aðferðum.

            Skilgreiningin á þjóðarviljanum, vilja kjósenda, hefur breyst í tímans rás. Til dæmis má nefna að fólk fær núna kosningarétt þegar það er orðið átján ára gamalt samkvæmt 33. gr. stjórnarskrárinnar og það gildir um hvers kyns fólk, konur, karla og kvár (ókyngreint fólk, „hán“). En í upphafi tuttugustu aldar höfðu aðeins karlar kosningarétt, svo dæmi sé tekið. Konur höfðu ekki þennan rétt. Hefðu einhverjar konur tekið sig til á þessum tíma og tekist með einhverjum brellum að kjósa þrátt fyrir það, hefði það verið kosningasvindl samkvæmt gildandi lögum á þeim tíma.

            Öll frávik frá reglubundinni kosningu, til dæmis þau frávik að fólk með atkvæðisrétt laumi fleiri en einu atkvæði í kjörkassann, eða með því að atkvæðatölur séu falsaðar og aðrir menn komist á þing en hefðu komist þangað að réttu lagi og þess háttar, öll slík frávik teljast kosningasvindl og eru ólögleg. Þau koma í veg fyrir að sú mæling þjóðarviljans sem kosningar eru, verði rétt. Ef þingsætum væri úthlutað eftir að slík inngrip hefðu breytt réttri niðurstöðu í kosningum væri sú úthlutun ógild í raun og veru. Slíkar kosningar fara ekki fram í samræmi við kosningalög og kosningarnar mæla því ekki þjóðarviljann og niðurstaðan verður ógild.

            Það er ekki nóg að niðurstaða kosninganna sé rétt út frá raunverulegum fjölda atkvæða sem greidd voru í kosningunum. Eitt þarf að koma til í viðbót, nefnilega það, að öllum megi vera ljóst, að niðurstaðan sé rétt. Enginn vafi má leika á því að rétt hafi verið talið. Annars hefur vilji kjósenda ekki komið fram. Vilji kjósenda hefur bókstaflega ekki framkallast, nema öruggt sé, að allt sé rétt.

            Þetta má rökstyðja nánar með einfaldri dæmisögu.

            Hugsum okkur einkennilegt samsæri, sem væri þannig að kjörnefndarmenn og talningarfólk í landinu nennti ekki að vinna vinnuna sína, og tæki bara fram teninga og kastaði upp til að fá niðurstöðu. Nú mætti hugsa sér að fyrir ótrúlega tilviljun gæfi slíkt teningakast nákvæmlega rétta niðurstöðu, þannig að útkoman úr hlutkestinu væri nákvæmlega sú sama og kæmi, hefðu atkvæðin verið talin nákvæmlega rétt. Þrátt fyrir þessa undarlegu tilviljun í teningakastinu, þrátt fyrir að „réttir þingmenn“ hefðu verið valdir, hefði vilji kjósendanna ekki fyllilega náð fram að ganga með þessu.

            Skoðum þetta aðeins nánar.

            Vegna þess að talningarfólkið og kjörstjórnarfólkið í þessari sögu nennti ekki að telja atkvæðin, gat auðvitað hvorki það né nokkur annar vitað hvort niðurstaðan úr hlutkestinu væri rétt. Þetta gat enginn vitað. Þetta pakk hafði vanrækt trúnaðarstarfið sem því hafði verið falið. Það taldi ekki atkvæðin. Þar með geymir þetta fólk hryllilegt leyndarmál. Leyndarmálið er hryllilegt vegna þess að um leið og upp kæmist um þetta illa samsæri, myndi öll þjóðin auðvitað vantreysta þinginu og öllu því góða starfi sem við skulum gefa okkur að saklaust þingið hafi unnið. Þetta kynni að valda því að lög yrðu ógild. Og kjörstjórnarfólkið og talningarfólkið færi ef að líkum lætur beinustu leið í fangelsi.

            Þessi saga sýnir, að það er ekki nóg að talning atkvæða sé hárrétt, heldur þarf það að vera vitað, svo að enginn efi geti leikið þar á um, að talningin sé rétt og að rétt hafi verið farið með öll atkvæði og öll kjörgögn. Enginn efi má komast að, eigi vilji þjóðarinnar og kjósenda að koma fram með réttum hætti. Sú sjálfsagða krafa er gerð til lýðræðislegra kosninga, að allt fari rétt fram og að það sé vitað með öruggri vissu að þær hafi farið rétt fram. Þjóðin vill ráða og vita að hún hafi ráðið, ef svo má segja. Þetta má með vissum hætti lesa úr kosningalögum.

                                                ~         ~         ~

            Talningin í Borgarnesi fór illa. Ekki eru öll kurl komin til grafar um allt það sem fór úrskeiðis þar. Atkvæðin voru talin þar tvisvar og í besta falli tókst að telja rétt í annað skiptið (ef ekki er gert ráð fyrir beinu kosningasvindli). Ekkert sem liggur fyrir á almannavitorði um þessar aðgerðir gefur tilefni til að treysta tölunum sem komu frá kjörstjórninni á nokkurn hátt. Hér má sjá niðurstöður talninganna (sjá töflu hér eða efst):

Niðurstöður í talningum í Borgarnesi eftir nýliðnar Alþingiskosningar.

Eins og sjá má fækkar auðum atkvæðum um tólf í seinni talningu. Sjálfstæðisflokkurinn fær þá 10 fleiri atkvæði en í talningunni á undan og Framsókn fimm atkvæði til viðbótar og Sósíalistaflokkurinn sjö. Erfitt er að átta sig á þessum breytingum að öðru leyti en þessu: Allar tölur breyttust. Vitað er að varsla kjörgagnanna var ófullnægjandi. En ekki virðist hægt að útiloka þann möguleika að talningarfólkið og kjörstjórnarfólkið hafi einfaldlega gert mistök í bæði skiptin eða hugsanlega aðeins í fyrra skiptið eða það síðara. Þess vegna eru nokkrir möguleikar hugsanlegir um talningarnar: 1) Í fyrri talningu voru atkvæðin rétt talin. 2) Í síðari talningu voru atkvæðin rétt talin. 3) Báðar talningar voru réttar (atkvæðaseðlum breytt milli talninga). 4) Hvorug talningin var rétt.

            Einfaldast og öruggast er að reikna með að hvorug talningin sé rétt enda fátt sem getur vakið tiltrú eða traust á þessum ósköpum. Hvers vegna skyldum við treysta annarri hvorri talnaröðinni, þegar einhver klaufabárður tilkynnir okkur að hann hafi talið eitthvað, og komist að tveimur ólíkum niðurstöðum?

                                                ~         ~         ~        

            Víkur nú sögunni að þeirri staðhæfingu, að vilji almennings hafi komið fram í Alþingiskosningunum og atkvæðatalningunni í kjölfarið. Þá horfa margir til þess að flokkarnir hafi fengið óbreyttan þingmannafjölda á landsvísu. Það sé aukaatriði hvaða þingmenn hafi verið kosnir fyrir flokkana, hitt sé aðalatriði, hversu margir þeir hafi verið. Þessi skoðun er óskynsamleg. Það er samt satt, að smávægilegar misfellur í kosningum eiga ekki sjálfkrafa að ógilda kosninguna. Misfellurnar verða að hafa raunverulegar afleiðingar, að skipta máli, til að þær geti verið ástæða til að ógilda kosningar. Í tilviki Alþingiskosninga í september síðastliðnum, blasir hins vegar við að misfellurnar höfðu veruleg áhrif.

            Í fimm kjördæmum af sex í landinu breyttist samsetning þingmanna í þessum talningum og í sumum tilvikum varð breytingin þannig, að eini þingmaður tiltekins stjórnmálaflokks hvarf af þingi fyrir viðkomandi kjördæmi og í öðrum tilvikum kom eini þingmaður tiltekins stjórnmálaflokks inn á þing fyrir viðkomandi kjördæmi. Það er augljóst mál, að það skiptir stjórnmálastarf í heilu landshlutunum verulegu máli hvort stjórnmálaflokkarnir í viðkomandi kjördæmum eigi þingmann á Alþingi eða ekki.

            Eins og blasir við, höfðu misfellurnar veruleg áhrif á landsvísu. Hér má sjá eitt sjónarhorn á þessi áhrif á einfaldri töflu:

 Fyrri talning í NV  Síðari talning í NV 
Reykjavík SRósa Björk BrynjólfsdóttirSamfylking>Orri Páll JóhannssonVg
Reykjavík NLenya Rut KarimPírati>Jóhann Páll JóhannssonSamfylking
SuðurHólmfríður ÁrnadóttirVg>Guðbrandur EinarssonViðreisn
SuðvesturKarl Gauti HjaltasonMiðflokkur>Gísli Rafn ÓlafssonPírati
NorðvesturGuðmundur GunnarssonViðreisn>Bergþór ÓlasonMiðflokkur

            Það má líka skoða töfluna og horfa á það, hve oft konur, sem virtust stefna á þing í fyrri talningu, breytast í karl í seinni talningu. Það virðist sannarlega erfitt að halda því fram að það skipti ekki máli, hvor þessara niðurstaðna er niðurstaða Alþingiskosninga árið 2021:

                        A:                                                                    B:

                        Konur í meirihluta                                  Karlar í meirihluta

                        (í fyrsta sinn).                                            (eins og alltaf hingað til).

            Öll sú áhersla sem lögð er á jafna stöðu kynjanna samkvæmt lögum sem sett eru á Alþingi benda til þess að Alþingi geti ekki horft fram hjá þessari veigamiklu breytingu, og sagt hana engu skipta. Frá sjónarmiðum um jafnrétti kynjanna einum og sér verður að telja breytinguna veigamikla, enda ógildir seinni talningin að segja má fyrsta stóra kosningasigur kvenna í landinu og kemur í veg fyrir að þær fái meirihluta á Alþingi í fyrsta sinn í sögunni.

                                                ~         ~         ~

            Niðurstöður: Talning atkvæða í Borgarnesi fór ekki fram í samræmi við lög. Kjörstjórnin þar taldi tvisvar. Þessar tvær talningar eru auk þess bersýnilega verulega ótrúverðugar og varpar hvor þeirra skugga á hina. Misfellurnar höfðu veigamikil áhrif á úrslit kosninganna á landsvísu. Sú eðlilega krafa er gerð, að í framhaldi verði haldnar uppkosningar. Eðlilegast er að kjósa upp á nýtt á landsvísu, enda mun uppkosning í Norðvesturkjördæmi hafa áhrif á kjörfylgi allra níu jöfnunarþingmanna í landinu, en þeir koma frá öllum kjördæmum landsins. Að algeru lágmarki virðist þurfa að halda uppkosningar í Norðvesturkjördæmi einu og sér.

                                                ~         ~         ~

[Þessi færsla birtist upphaflega á Stundinni. Hún birtist hér þriðjudaginn 23. nóvember 2021.]