Vesturbæjarlaug

Ég fór í sund í Vesturbæjarlaug annað kvöldið í röð. Þegar ég var að fara út úr byggingunni að afloknu sundinu, heyrðist mér afgreiðslukonan segja við kunningja mína sem stóðu við afgreiðsluborðið, að laugin væri 57 ára gömul í dag. Þetta vakti forvitni mína. Ég lærði að synda í Selfosslaug og seinna í Vesturbæjarlaug og hef því þekkt laugina frá því ég var smástrákur. En ég vissi ekki að hún væri nákvæmlega jafn gömul mér í árum talið. Ég blandaði mér í umræðuna. Ég hafði heyrt rétt, hún var 57 ára. En afgreiðslukonan vissi ekki hvenær byrjað var á framkvæmdum við laugina. Ég vissi það ekki heldur, en ég veit hver byrjaði. Pabbi minn er kominn á þann aldur að rifja upp ævi sína og hann hefur sagt mér frá því þegar hann var sendur til að grafa holu á lóð Vesturbæjarlaugar í gamla daga. Þá vildu menn kanna hvort djúpt væri á fast þar, og sendu ungan og frískan mann á staðinn með skóflu. Pabbi gróf djúpa holu, amk. þriggja metra djúpa og það kom í ljós að þarna var tilvalinn staður fyrir sundlaug. Þegar ég sagði kunningjum mínum og afgreiðslukonunni frá þessu þarna við afgreiðsluborðið, sagði annar kunninginn, að það að grafa holu væri ein „heiðarlegasta vinna“ sem hægt væri að hugsa sér, „jafnvel þótt mokað væri í holuna aftur.“ En ég benti kunningja mínum á, að það væri ekki enn búið að moka ofan í holuna, sem pabbi minn gróf ofan í jörðina fyrir um það bil sextíu árum; við höfðum báðir synt í henni, talsvert stækkaðri, fyrir smástund.

[Stöðufærsla á facebook 25. nóvember 2018. Færð hingað þann 25. nóvember 2021.]