Úrslit Alþingiskosninga á landinu öllu breyttust í Borgarnesi.

[Þessi færsla birtist fyrst á bloggsíðu minni á Stundinni síðdegis miðvikudaginn 13. október 2021. Sjá má upprunalegu útgáfu færslunnnar hér:]

Enginn veit hvernig þeirri atburðarás sem hófst með uppákomunni í Borgarnesi þann 26. september sl. muni ljúka. Óformleg þingnefnd er önnum kafin við að finna út úr því hvernig unnt sé að leysa hnútinn sem þar varð til.

            Í stuttu máli má segja að það sem almennt er vitað um atburðarásina og hnútinn sem þar myndaðist sé eitthvað á þessa leið: Talning atkvæða fór fyrst fram með hefðbundnum hætti, það er að segja með þeim hætti sem tíðkast hefur í Norðvesturkjördæmi, en að vísu ekki alveg í samræmi við lög. Að morgni sunnudagsins 26. september lágu fyrir lokatölur og þær voru kynntar með hefðbundnum hætti í sjónvarpinu. Þar með lá allt fyrir. Hverjir yrðu þingmenn kjördæmisins og hverjir yrðu jöfnunarþingmenn í öllum sex kjördæmum landsins.

            En svo gerðist eitthvað. Og úrslitin breyttust á landsvísu.

            Um sumt af því sem gerðist er allt vitað á þessari stundu, en um annað ekki. Það er til dæmis vitað að formaður landskjörstjórnar í Reykjavík hringdi í formann kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi skömmu fyrir hádegi. En formaður kjörstjórnarinnar var þá staddur einsamall í veitingasalnum í Hótel Borgarnesi þar sem talningin hafði farið fram um nóttina og þar lágu ófrágengnir atkvæðabunkar á borðum. Á meðal þessara bunka var bunki með auðum seðlum sem talin höfðu verið um morguninn og höfðu reynst alls 394 talsins (Fundargerð).     

            Ekki er ljóst hvers vegna formaður kjörstjórnar var staddur þarna svo snemma, einsamall og löngu á undan öðrum. En þarna var hann staddur og síminn hringdi og það var þá formaður landskjörstjórnar fyrir sunnan. Formaðurinn að sunnan hafði það erindi að segja formanni kjörstjórnar í Borgarnesi að „lítill munur væri á atkvæðafjölda að baki jöfnunarsætum í Norðvestur- og Suðurkjördæmi“ og að ef til vill væri ráð að kjörstjórn í Norðvesturkjördæmi íhugaði hvort „tilefni væri til nánari skoðunar vegna þessa“ (Fundargerð).

            Formaður kjörstjórnar var ekki einn í talningarsalnum nema í svona hálftíma því að svo fór fleira kjörstjórnarfólk að safnast í veitingasalinn. Eftir athugun á einum atkvæðabunka Viðreisnar, þar sem reyndust vera 8 atkvæði sem tilheyrðu D lista og eitt atkvæði sem tilheyrði B lista, ákvað kjörstjórnin að rétt væri að telja allt aftur. Sú talning hófst kl. þrjú um daginn. Um kl. sex síðdegis lágu nýjar niðurstöður fyrir. Þá höfðu allar tölur breyst. Þannig voru ekki lengur 394 atkvæðaseðlar í bunkanum með auðum atkvæðum eins og þeir höfðu verið um morguninn. Nú voru aðeins 382 atkvæðaseðlar í auðu seðla bunkanum. Mismiklar breytingar höfðu átt sér stað á öllum öðrum bunkum. Um leið og kjörstjórnin gaf út nýjar tölur eftir seinni talninguna, breyttust niðurstöður kosninganna í fimm kjördæmum landsins, en í einu kjördæmi breyttust úrslitin ekki. Breytingin verður að teljast umtalsverð, enda varð hún tilefni frétta um víða veröld. Úr hinum upphaflega níu manna hópi jöfnunarþingmanna á landsvísu hafði kvarnast og þar voru aðeins fjögur hinna upphaflegu þingmannsefna eftir. Fimm voru farin af listanum og fimm ný komin í þeirra stað. 

            Þetta voru ekki einu breytingarnar. Um morguninn hafði litið svo út að á hinu nýja Alþingi yrði meirihluti þingmanna konur, alls þrjátíu og þrír þingmenn en karlþingmenn þrjátíu. En eftir atburðina í Borgarnesi hafði þetta snúist við. Karlar héldu meirihluta sínum á þingi.

            Breytingarnar voru meiri en þetta, því að það skiptir auðvitað miklu máli hvaða stjórnmálamenn gegna löggjafarstörfum á Alþingi. Af þeim þingmönnum sem virtust fá þingsæti við fyrri talningu á landsvísu, sem eru alls 63 þingmenn eins og allir vita, hurfu fimm af þingi við seinni talninguna í Borgarnesi, eða um einn af hverjum tólf til þrettán þingmannsefnum sem kölluð voru á þing með talningunni um morguninn. Seinni talningin í Borgarnesi fjarlægði því einn af hverjum tólf til þrettán þingmannsefnum á landsvísu, og kallaði í staðinn jafn marga menn inn á þing í fimm af sex kjördæmum á landinu.

            Þessar breytingar höfðu í för með sér að Viðreisn missti af því að fá einn þingmann í Norðvesturkjördæmi, en þar með slapp Miðflokkurinn við að missa sinn eina þingmann þar. Engar breytingar urðu í Norðausturkjördæmi. En Vg missti eina þingmanninn sinn í Suðurkjördæmi. Þingsætið fór til Viðreisnar sem þannig fékk einn þingmann í kjördæminu. Í Suðvesturkjördæmi stefndi í að Píratar og Miðflokkur héldu hvorir tveggja einum manni inni, en í seinni talningu breyttist það og Miðflokkurinn missti sinn mann en Píratar bættu við sig einum. Í Reykjavík suður leit í fyrri tölum út fyrir að Vg myndi missa annan þingmanna sinna þar en Samfylkingin bæta við sig manni. Í seinni tölum varð svo niðurstaðan að Vg fékk jöfnunarmann og hélt þar með sínum tveimur mönnum, en Samfylkingin var áfram með einn mann í kjördæminu og bætti ekki við sig. Í Reykjavík norður hafði litið út fyrir að Píratar fengju þrjá menn inn í fyrri tölum og bættu þar með við sig einum manni frá síðustu kosningum. Í seinni talningu varð niðurstaðan sú að Píratar fengju aðeins tvo menn í því kjördæmi, sama og þeir höfðu haft áður, en Samfylking bætti við sig manni þar.

            Hér hafa verið raktar miklar breytingar sem urðu á þingmannaliði í fimm kjördæmum af sex í landinu frá því að úrslit á landsvísu voru tilkynnt að morgni sunnudagsins eftir kosningadag og þangað til niðurstöður úr seinni talningu í Borgarnesi voru tilkynntar síðdegis sama dag. Einnig hefur verið bent á að róttæk breyting sem varð á kynjaskiptingu á Alþingi, nefnilega sú breyting að konur yrðu í meirihluta á Alþingi, gekk til baka við seinni talningu. Sú breyting hlýtur að teljast umtalsverð, að minnsta kosti frá sjónarmiði áhugafólks um jafna stöðu kynjanna.

            Þá vaknar spurningin: Eru þessar breytingar þess eðlis að þær varði við 120. grein kosningalaga? Þar segir:

„Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellunum, enda séu þær verulegar. Fer um alla þingmenn, kosna af listanum, eins og annars um einstakan þingmann ef misfellurnar varða listann í heild.“

Svarið við þessari spurningu veltur á málsatvikum. Rannsókn stendur yfir. Verði unnt að sýna fram á að varsla kjörgagna hafi verið nægilega trygg, að ekkert hafi verið átt við atkvæðaseðlana, og fáist skýring á hinum afdrifaríku breytingum á niðurstöðutölum úr kosningunni í Norðvesturkjördæmi, má ætla að seinni talningin gildi eða jafnvel að talið verði í þriðja sinn.

            En verði ekki unnt að sýna fram á að varsla kjörgagna hafi þrátt fyrir allt verið viðunandi (þó að hún hafi ekki verið í samræmi við lög), vaknar spurningin um hvernig bregðast eigi við.

            Þá blasir við að kjörstjórn í Borgarnesi taldi fyrri talningu sína vera ranga. Því verður ekki byggt á henni fremur en seinni talningunni. Og þá kemur þriðja talningin ekki til greina vegna þess að kjörgögnin hafa, samkvæmt þessari niðurstöðu, spillst. (Og hér er rétt að hafa í huga, að til að kjörgögn teljist hafa spillst er ekki nauðsynlegt að gefa sér að svindl hafi átt sér stað. Það eitt, að ekki sé hægt að útiloka svindl, spillir áreiðanleika kjörgagna.) Þar með þarf að kjósa upp á nýtt.

            En hvort á þá að kjósa í Norðvesturkjördæmi einu, eða á landinu öllu?

            Ef aðeins verður kosið í Norðvesturkjördæmi, verður kosið þar um 7 kjördæmakjörna þingmenn Norðvesturkjördæmis og níu jöfnunarþingmenn í öllum kjördæmum landsins. Þessi kosning mun fara fram við þær aðstæður að kjósendur í Norðvesturkjördæmi, sem er fámennasta kjördæmi landsins, hafa nákvæmar upplýsingar um hvernig niðurstöður kosninga voru í öllum öðrum kjördæmum, og geta hagað atkvæðum sínum í samræmi við það. Slíkt hlýtur bersýnilega að teljast vafasamt frá lýðræðislegu sjónarmiði. Fari svo illa að eftir að öll málsatvik hafa verið rannsökuð verði ekki hægt að treysta seinni talningunni í Borgarnesi né meðferð kjörgagna þar, virðist lýðræðislegasta lausnin vera sú að blása til kosninga á landinu öllu. Ætla má að þessar seinni kosningar gætu farið fram með minni fyrirhöfn en kosningarnar nú á dögunum enda hafa framboðin þegar kynnt sjónarmið sín fyrir kjósendum.

                                                ~         ~         ~

Heimild: Fundargerð yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis (ódagsett). Sótt á: https://skessuhorn.is/wp-content/uploads/2021/09/Skyrsla-yfirkjorstjornar-NV-kjordaemis.pdf

[Þessi færsla birtist upphaflega á Stundinni. Hún birtist hér viku síðar, að kvöldi 20. október 2021.]