[Þessi grein birtist í Morgunblaðinu þann 13. október 1996. Hún birtist þar svona og svona.]
ANDSTÆÐINGAR veiðileyfagjalds hafa borið fram margvíslegar röksemdir gegn því. Þeir hafa til dæmis mótmælt þeirri útfærslu veiðileyfagjaldanna, að þau verði látin renna beint til ríkissjóðs. Sumir þeirra segja að þjóðareign sé óskilgreint fyrirbæri sem ekki sé hægt að leggja að jöfnu við ríkiseign. Samt virðast flestir ganga út frá því að ef arðurinn af fiskveiðiréttindunum verður færður til þjóðarinnar, eins og réttmætt er, muni hann renna beint í ríkissjóð. Á þeirri hugmynd sjá svo margir ýmsa galla.
Nú er hægt að fara öðruvísi með ákvæðið um “sameign þjóðarinnar”. Hugsum okkur að þjóðin skipti fiskveiðiarðinum jafnt á milli sín. Það verði túlkað þannig að sérhver núlifandi (þálifandi) skattskyldur þegn landsins fái á hverju ári úthlutað einum hlut kvótans af hverri fisktegund. Svo er það í verkahring hans að ávaxta þessa eign sína, sem gæti numið allt að einum venjulegum mánaðarlaunum á ári á mann, þegar fiskveiðiarðurinn hefur vaxið upp í það hámark sem reiknað hefur verið með vegna aukinnar hagkvæmni veiðanna.
Framkvæmdin er einföld því um leið og allir skattskyldir þegnar landsins fá þennan hlut spretta upp fyrirtæki sem bjóðast til að ráðstafa þessum eignum fyrir einstaklingana. Vel má hugsa sér að viðskiptabankarnir geti til dæmis boðið upp á þægilega lausn á því máli og séð um að senda kvótana á uppboð; og boðið einstaklingunum að selja kvótana á hentugum tíma til að greiða upp Visa-skuldir þeirra og yfirdrátt.
Margir kostir eru við að láta veiðileyfagjöldin renna fremur til einstaklinganna í landinu en beint til ríkisins. Ef þau rynnu beint til ríkissjóðs er til dæmis hætt við að ekki yrði eins vel með þau farið og ef ef þau yrðu í höndum einstaklinganna sjálfra, og með þessu myndast lítilsháttar viðnám við þeirri útþenslu ríkisins sem annars mætti kannski búast við.
ÞORBERGUR ÞÓRSSON,
Seilugranda 4, Reykjavík.