Tvö hundruð vikur án víns og vínanda

            Íslendingar geta búist við að lifa í 82 til 83 ár samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Það gera rúmlega 30 þúsund daga, eða um 30.100 daga. Þeir tímamælikvarðar sem við miðum líf okkar hvað mest við eru mínúta, klukkustund, dagur, vika, mánuður, ár. Þar er vikan, sjö dagar, sunnudagur, mánudagur, þriðjudagur og svo framvegis, mjög algengur mælikvarði. Vikan er nærtækur mælikvarði á þann tíma sem við eigum í vændum, svona alveg á næstunni, í bráð, ef svo má segja.

            Fólk sem lifir í áttatíu og tvö og hálft ár upplifir um 4300 sunnudaga, 4300 vikur. Mér telst svo til að ég hafi nú lifað 3216 vikur. Eftir kunna að vera um 1000 vikur ef ég er heppinn, kannski meira, kannski minna. Aðalmálið er að lifa vel, lifa eins vel og kostur er. Enginn veit hvernig lífsævintýrinu lýkur, kannski lýkur því bara með umferðaróhappi á morgun, kannski með krabba sem kemur skyndilega í ljós eftir eitt ár eða fimm ár og svo framvegis.

            Eitt af því besta sem ég hef gert til að bæta líf mitt var að hætta að drekka áfengi, en það gerði ég fyrir nokkru síðan, raunar fyrir nákvæmlega tvö hundruð vikum, 1400 dögum, síðan. Þessi ákvörðun fól ekki í sér neitt stórkostlegt átak. Ég hef reynslu af því að hætta að reykja tóbak, sem var allt öðru vísi og miklu erfiðara mál. Vandinn við að sleppa því alfarið að drekka áfengi fólst aðallega í félagslegum samskiptum, sem á ýmsan hátt voru orðin samofin vínneyslu hjá mér eins og mörgum öðrum vinum mínum og kunningjum. Þessi samskipti breyttust óhjákvæmilega og það tók tíma að venjast því.

            En ég er býsna ánægður með þessar síðustu 200 vikur sem hafa verið alveg án víns og vínanda. Mæli með þessu.