[Ég setti þessa færslu á facebook sunnudaginn 10. september 2017.]
Ég fór nú á föstudaginn og hlustaði á stórmerkan Jóns Sigurðssonar fyrirlestur Timothy Snyders. Ég var mjög hrifinn.
Málflutningur hans minnti mig á það þegar ég las George Orwell sem bráðungur maður, en þarna var komið merkt framhald og viðbót við hugsanir Orwells, t.d. umfjöllun hans um Nýmál. Ég fór svo aftur að hlusta á samtal Snyders og Halldórs okkar Guðmundssonar bókmenntafræðings með meiru í Norræna húsinu nú í morgun. Aftur fannst mér málflutningurinn framúrskarandi. Í kvöld vildi svo til, að ég fór að sjá kvikmyndina Kongens Nej eftir Erik Poppe. Sú kvikmynd fjallar um mjög afdrifaríka atburðarás þegar Hákon konungur VII neitaði að gerast samstarfsmaður nasista í seinni heimstyrjöldinni. Myndin er frábær. Og það var magnað hve hin skýri málflutningur Snyders féll saman við þessa góðu kvikmynd.
[Timothy Snyder, þekktur sagnfræðingur, skrifaði bókina On Tyranny í tilefni af því að Donald Trump komst til valda í Bandaríkjunum. Snyder var boðið hingað til lands að halda hér erindi haustið 2017. Ég keypti bókina og las og varð mjög hrifinn. Fáeinum mánuðum eftir þetta kom hún út hjá Máli og menningu í þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar og hét þá Um harðstjórn.]