Þór Þorbergsson, 1936 – 2022

[Þegar pabbi minn dó þurfti ég að taka saman stutt æviágrip til að láta fylgja með minningargreinum í Morgunblaðinu. Ég þurfti svo að stytta æviágripið mjög. Mér datt í hug að birta æviágripið hér óstytt. Þegar ég fór að ganga frá því hér til birtingar stóðst ég ekki mátið að bæta svolitlu efni við hér og þar.]

            Þór Þorbergsson fæddist þann 1. desember 1936. Foreldrar hans voru þau Þorbergur Friðriksson (1899–1941) stýrimaður og Guðrún Símonardóttir Bech (1904–1991) húsfreyja. Þorbergur var ættaður úr Mýrdalnum en Guðrún Bech úr Kjósinni og af Snæfellsnesi.

Þór Þorbergsson á heimili sínu í Sólheimum 27. Myndin var tekin um mitt sumar árið 2020. Mynd: ÞÞ.

            Þau Þorbergur og Guðrún áttu heima á Bræðraborgarstíg 52 í einu af hinum svokölluðu Samvinnuhúsum sem Þórir Baldvinsson arkitekt teiknaði. Þór var þriðja barn foreldra sinna, eldri voru Auður (1933–), síðar héraðsdómari og Guðrún Katrín (1934–1998) síðar forsetafrú og húsfreyja á Bessastöðum, en yngri Þorbergur (1939–2014) síðar verkfræðingur. Þorbergur pabbi þeirra drukknaði rúmlega fertugur 2. desember þegar togarinn Sviði fórst, en Þorbergur var stýrimaður á honum (Sjá nánar hér). Skipið fórst daginn eftir fimm ára afmælisdag Þórs, en áður hafði Þorbergur sent afmælisskeyti frá skipi sínu til afmælisbarnsins. Guðrún giftist ekki aftur og bjó alla tíð í einbýlishúsi þeirra hjóna á Bræðraborgarstíg 52, en leigði húsið að stórum hluta út frá sér til að afla tekna fyrir heimilið.

            Þór bar út blöð í æsku og fór einnig mjög snemma að vinna í Reykjavíkurhöfn sem daglaunamaður í skólafríum. Í æsku var hann einnig í sveit í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi hjá föðursystur sinni Árþóru Friðriksdóttur (1904–1990) og eiginmanni hennar Bæring Elíssyni (1899–1991) bónda. Þar fékk Þór brennandi áhuga á landbúnaði. Hann fór eftir það í Bændaskólann á Hvanneyri og lauk búfræðiprófi þaðan 19 ára árið 1955 og framhaldsprófi árið 1960.

            Þór gekk í hjónaband með Arnfríði Margréti Hallvarðsdóttur (f. 5. nóvember 1942) haustið 1960. Foreldrar hennar voru þau Hallvarður Einar Árnason (1895–1969) stýrimaður og Guðrún Kristjánsdóttir (1903–1986) húsfreyja, en þau eignuðust sex börn. Eldri voru þau Haukur Þórarinn (1931–2010) síðar skipstjóri og stýrimaður, Kristín (1934–2021) síðar sjúkraþjálfari, Agnes Kristín (1937–) og Ragna Kristrún (1940–) en yngri Árný Þóra (1945–). Þau Þór og Arnfríður eignuðust sex börn:

            Þorberg, f. 13. janúar 1961, hagfræðing, rithöfund og þýðanda. Hann á tvö börn með Nönnu Þórarinsdóttur (f. 7. maí 1958), þau Þór (f. 7. júlí 1990) forritara og Sigríði Margréti (f. 26. maí 1994) læknanema. Þór á eitt barn, Freyju Sóleyju (f. 9. ágúst 2022), með sambýliskonu sinni Þórunni Lilju Arnórsdóttur (f. 7. des. 1991).

            Hallvarð, f. 26. maí 1962, d. 30. ágúst 2009, sölumann og tónleikahaldara. Hann eignaðist tvö börn. Með Telmu Lucindu Tómasson (f. 19. ágúst 1962) eignaðist hann Tönju Berglindi (f. 20. okt. 1985) framleiðanda, en Telma á einnig soninn Mikael Karlsson (f. 10. okt. 1995). Með Sigríði Hjaltdal Pálsdóttur (f. 1969) eignaðist hann Hauk Pál (f. 1992) forritara, en Sigríður á einnig soninn  Hjálmar Karlsson (f. 25. mars 2000). Tanja Berglind er gift Ólafi Pálssyni (f. 31. okt. 1981) sölu- og markaðsstjóra og eiga þau þrjár dætur, Hrafnhildi Míu (f. 6. jan. 2013), Helenu (f. 4. sept. 2014) og Önnu Maren (f. 3. mars 2021). Haukur Páll er kvæntur Luízu Pereira Calumby (f. 14. mars 1992). Hallvarður kvæntist Hope Elísabetu Millington (f. 15. feb. 1957) sem lifði mann sinn. Hope átti tvö börn af fyrra hjónabandi, Stefán Braga Guðnason (f. 3. feb. 1988) og Anthony Millington Guðnason (f. 9. júlí 1990).

            Ingibjörgu Svölu, f. 14. júlí 1966, myndlistarkonu. Eiginmaður hennar er Wu Shanzhuan (f. 25. okt. 1960) myndlistarmaður.

            Valgerði, f. 22. júlí 1968, leikkonu, leikskáld og rithöfund. Hún á eitt barn með sambýlismanni sínum Heimi Garðarssyni (f. 21. feb. 1964) skrifstofumanni, Högna Huldar Völu-Heimisson (f. 19. feb. 2012). Börn Heimis af fyrra hjónabandi eru Hrafnhildur Heimisdóttir (f. 1. feb. 1993) og Kjartan Heimisson (f. 13. ágúst 1997). Áður átti Vala eiginmanninn Eduardo Eðvarð Perez Baca (f. 3. des. 1965) matreiðslumann en sonur hans og stjúpsonur hennar er Daníel Perez Eðvarðsson (f. 13. apríl 1992).

            Guðrúnu, f. 29. mars 1972, tónleikahaldara og viðburðastjórnanda. Hún á tvö börn með Jóhanni Ásmundssyni (f. 1968) sérfræðingi á Fiskistofu, Arnfríði Kríu (f. 2005) og Margréti Vörðu (f. 2013). Þær Arnfríður Kría og Margrét Varða eiga eldri hálfsystur, Valentínu Jóhannsdóttur Roff (f. 22. júlí 1997).

            Þóru Kristínu, f. 1. des. 1980, aðferðafræðing. Hún á tvö börn með sambýlismanni sínum Kolbeini Hólmari Stefánssyni (f. 3. okt. 1975) dósent í félagsfræði, Auði Freyju (f. 22. ágúst 2011) og Urði Magneu (f. 8. apríl 2015).

            Eftir að Þór lauk námi á Hvanneyri fluttu þau Arnfríður til Hvolsvallar, og þar komu þau sér upp heimili í húsi sem kallaðist Hamilton, sem tveir bændur í nágrenninu höfðu byggt. Þetta hús hefur nú verið rifið. Þór varð ráðsmaður við graskögglaverksmiðju SÍS á Stórólfshvoli, en bústjóri þar var Jean Jóhann le Sage de Fontenay (1929–1987), skólabróðir og félagi Þórs frá Hvanneyri.

Þór Þorbergsson með mælistiku og mælistangir á Stórólfsvöllum upp úr 1960. Ljósmynd: Jean Jóhann le Sage de Fontaney, bústjóri á Stórólfsvöllum.

Seinna fluttu Þór og Arnfríður til Selfoss, þar sem Þór varð framkvæmdastjóri vörubílafélagsins Mjölnis og Raflagna hf. og þau hjón stofnuðu og ráku verslunina Þórsbúð. Fjölbreytt vöruúrval var í þessari verslun, en á þessum tíma voru strangar reglur um leyfilega verðlagningu í verslunum. Í Þórsbúð var m.a. hægt að kaupa snyrtivörur, barnaleikföng og byssur og skotfæri.

Auglýsing frá Þórsbúð í Morgunblaðinu í ágústmánuði 1967.

            Í framhaldi vann Þór hjá ÍSAL en á þeim tíma bjuggu þau hjón á Vesturgötu 40 í Reykjavík, í húsi sem reist var á miðri nítjándu öld og er eitt fyrsta svonefnda katalóghúsið. Katalóghúsin voru flutt inn ósamsett frá Noregi. Þetta hús hafði verið í eigu fjölskyldu Þórs, afa hans og ömmu í móðurætt, frá því upp úr aldamótunum 1900. Þess má geta að húsið á Vesturgötu 40 var selt úr fjölskyldunni fáeinum árum eftir að þau Þór og Arnfríður fluttu úr því. Nýjir eigendur létu svo rífa þetta gamla hús í trássi við lög árið 1978. Þetta þótti hneyksli og spruttu af því blaðaskrif í Þjóðviljanum. Nýju eigendurnir byggðu nútímalegt hús sem enn stendur á lóðinni.

            Í ársbyrjun 1972 fluttu þau hjón austur á Skriðuklaustur í Fljótsdal en Þór tók við bústjórn þar. Þór vann þar í ríflega áratug og stýrði mikilli uppbyggingu á tilraunabúinu, og stundaði umfangsmikla tilraunastarfsemi á starfssvæði búsins, en á vegum þess voru tilraunareitir víðsvegar um héraðið og raunar líka uppi á Fljótsdalsheiði. Jafnframt þessu stóð hann fyrir því að lokið var við byggingu Gunnarshúss með því að reisa svalir við húsið (sjá hér).

Gunnarshús á Skriðuklaustri í Fljótsdal sumarið 1975. Ljósmynd: Hjörleifur Guttormsson.

            Upp úr 1980 tók hann að sér landbúnaðarráðgjöf fyrir bændasamtökin á Grænlandi og sinnti báðum störfum um skeið. Um 1984 sagði Þór starfi sínu á Skriðuklaustri lausu. Þau hjón fluttu þá alfarið til Reykjavíkur en Þór vann áfram á Grænlandi fram til 1990. Árið 1990 hóf Þór störf hjá verkfræði- og framkvæmdasviði Landsvirkjunar og hafði umsjón með uppgræðslu og ræktun á virkjunarsvæðum, og sinnti einnig m.a. rannsóknarstörfum fyrir Landsvirkjun. Þar vann Þór uns hann fór á eftirlaun í árslok 2006.

            Eftir að Guðrún Bech, móðir Þórs, dó árið 1991 keyptu þau Þór og Arnfríður hlut systkina hans í húsi hennar á Bræðraborgarstíg 52 og bjuggu þar í um tvo áratugi, en fluttu svo í Sólheima 27 þar sem þau bjuggu eftir það, en Þór flutti svo á hjúkrunarheimilið Skjól fáeinum vikum áður en hann dó.

            Þór dó á lungnadeild Landspítalans laugardaginn 22. október 2022. Útför hans fór fram frá Dómkirkjunni fimmtudaginn 3. nóvember. Prestur var séra Sveinn Valgeirsson. Í framhaldi var haldin erfidrykkja í næsta húsi, á Hótel Borg.