[Í fréttum RÚV 17. febrúar 2023 kom fram að borgarstjóri hefði lagt fyrir borgarráð tillögu um að leggja borgarskjalasafn niður. Ég skrifaði þá eftirfarandi færslu á facebook. Tillaga borgarstjórans var merkt sem trúnaðarmál í fundargerð borgarráðs, sjá: https://reykjavik.is/fundargerdir/borgarrad-fundur-nr-5696 ]
Ég tjáði mig eitthvað aðeins um borgarstjórn hér í gær, og kunni ekki við að vera of neikvæður. Svo ég skrifaði í lok færslunnar: “Margt er samt vel gert í Reykjavík, þó að skipulagsslysin stingi í augu.” En kannski er færra vel gert en maður vill halda. Það voru fréttir af því í gær að borgarstjóri vildi nú leggja niður skjalasafn borgarinnar og fela gögnin í umsjón ríkisskjalasafnsins okkar, Þjóðskjalasafns. Síðan komu fréttir sem berast aðeins af tiltækjum allra aulalegustu stjórnenda: Borgarskjalavörður hafði aldrei heyrt af þessum áformum! Þvílík borgarstjórn! Þvílíkir stjórnendur! Ég man að borgarstjóri hafði oft skemmtilegt orðatiltæki á vörunum, sem hann gæti verið sjálfur höfundur að, um að að sjálfsögðu væru allir verkferlar “faglegir, nútímalegir og lýðræðislegir”. Ég hef ekki heyrt hann taka svona til orða lengi, en ég hlusta svo sem ekki mikið eftir ræðuhöldum úr borgarstjórn. En á hinn bóginn hef ég tiltölulega nýlega lært að meta góð skjalasöfn, einkum Þjóðskjalasafnið. Allar hugmyndir um að flytja svona söfn eru mjög háskalegar. Það er gríðarlega dýrt að flytja skjalasöfn og fjármögnun til slíkra verka verður að vera alveg klár fyrirfram. Það er hreint ábyrgðarleysi af borgarstjórn að ætla að fleygja borgarskjalasafninu í fangið á Þjóðskjalasafni, sem á nóg með sitt.
~ ~ ~