Ég fór og sá japanska kvikmynd í Bíó Paradís nú um síðustu helgi. Hún var sýnd í góðri sýningarröð bíósins sem heitir Bíótekið. Kvikmyndin er eftir Masahiro Shinoda (1931 –) og er frá árinu 1964 og heitir Sölnað blóm, á frummáli Kawaita hana (乾いた花) en á ensku ýmist Pale Flower eða Withered Flower. Ég gleymdi mér yfir þeirri mynd. En svo mundi ég að ég hafði skrifað svolítinn póst um ívið eldri japanska kvikmynd sem ég sá í sama bíói og einmitt í sömu sýningarröð fyrir um mánuði síðan.
Sú góða kvikmynd heitir Búrma-harpan eða Búrmíska harpan og er eftir japanska leikstjórann Kon Ichikawa. Strax eftir þá bíóferð skrifaði ég lítinn póst um myndina og í gærkvöldi áttaði ég mig á að það hafði misfarist hjá mér að birta póstinn hér á heimasíðunni, svo að ég ákvað að birta hann bara núna.
Auglýsingaplakat frá kvikmyndastúdíóinu fyrir Búrmísku hörpuna.
Kvikmyndin Búrmíska harpan var sýnd í Bíó Paradís nú í lok septembermánuðar. Hún var aðeins sýnd einu sinni. Búrmíska harpan heitir á frummálinu Biruma no Tategoto, ビルマの竪琴, en The Burmese Harp á ensku. Hún er eftir japanska leikstjórann Kon Ichikawa (1915 – 2007). Kon Ichikawa er einn af þekktustu kvikmyndaleikstjórum Japans, en ég hafði samt ekki séð neina mynd eftir hann áður. Búrmíska harpan er ein þekktasta kvikmynd hans. Hún var frumsýnd árið 1956, fyrir tæpum sjötíu árum, en þá var kvikmyndaleikstjórinn ekki nema rétt rúmlega fertugur.
Mynd af Kon Ichikawa. Myndin er fengin frá Wikimedia Commons, en þar er sagt að ljósmyndari sé óþekktur.
Ég rakst á Ágúst Guðmundsson kvikmyndaleikstjóra í anddyri bíósins, en hann var að fara á sömu mynd, glaður og kátur. Ágúst sagði mér að hann hefði lengi dáðst að kvikmyndum Kons Ichikawa. Þegar ég var svo að setjast í stól minn í bíósalnum sá ég annan góðan kunningja minn, Sigurð Emil Pálsson eðlisfræðing, en hann stýrði einu sinni kvikmyndaklúbbi og hefur líka lengi dáðst að verkum Kons Ichikawa. Hann settist hjá mér.
Kvikmyndin reyndist stórkostleg. Hún segir sögu hermannsins Mizushima, sem er einn af liðsmönnum herdeildar undir stjórn liðsforingjans Inouye. Herdeildin er í leiðangri sem er hluti af mikilli herferð Japana í Búrma (sem nú heitir Myanmar) í seinni heimsstyrjöldinni. Myndin segir frá atburðum sem gerðust um það leyti sem Japanir gáfust upp fyrir Bandamönnum í ágústmánuði 1945. Aðalsöguhetjur myndarinnar eru fyrrnefndur liðsforingi og svo óbreytti hermaðurinn Mizushima, sem hafði tekið að sér að leika á búrmíska hörpu til að efla liðsandann í herflokkinum. Bæði hlutverkin eru leikin af mjög fínum leikurum, þeim Shôji Yasui (1928 – 2014) sem lék Mizushima og Rentarô Mikuni (1923 – 2013) sem lék liðsforingjann. En öll önnur hlutverk voru líka prýðilega vel leikin.
Í myndinni er mikið um söng hermannanna í herflokkinum og hljóðfæraleikur Mizushima er þýðingarmikill. Meðan ég horfði á myndina undraðist ég oft hve mér fannst tónlistin vera kunnugleg, þó að hún væri japönsk.
Búrmísk harpa. Mynd fengin frá wikipediu.
Kvikmyndin er einskonar helgisaga, því hún segir frá manni sem verður fyrir mikilli andlegri vakningu og manni finnst hann vera heilagur, að minnsta kosti þegar líða tekur á myndina. Í upphafi myndarinnar er Mizushima glaðvær og duglegur hermaður með mikla tónlistarhæfileika og mikla félagsfærni. Hann heldur uppi stuðinu í herflokkinum, en herflokkurinn þarf að ryðja sér leið í gegnum frumskóg þar sem alls staðar má eiga von á óvinum. En svo eiga sér stað atburðir í þessari herferð sem valda umbreytingu á þessum glaða og frísklega manni. Hann var valinn til að fara í mikla hættuför og varð í framhaldinu viðskila við félaga sína. Eftir það reikaði hann lengi um í leit að þeim, en rakst hvarvetna á rotnandi lík annarra japanskra hermanna. Mizushima ofbauð að sjá þessi rotnandi lík umkringd hræfuglum sem nörtuðu í þau. Hann reyndi því að grafa þau eða brenna eftir því sem hann hafði tök á. Trúarbrögð, einkum búddismi, eru mikið þema í myndinni.
Aðalleikari Búrma hörpunnar, Shoji Yasui (1928–2014) í hlutverki Mizushima. Ljósmynd frá kvikmyndagerðinni (stúdíómynd). Ljósmyndin sýnir Mizushima eftir að hann hefur aflagt hermennskuna og gerst munkur. Hann er með hörpuna sína í annarrri hendi en páfagauk á öxlinni. Páfagaukurinn ekki síður en harpan gegnir þýðingarmiklu hlutverki í sögunni. Mynd fengin frá Wikimedia Commons.
Auk þess að segja frá hljóðfæraleikaranum góða segir myndin líka heillandi sögu af liðsforingjanum sem grunaði að Mizushima væri lifandi, þó að ekkert benti í sjálfu sér til annars en að hann hefði fallið í bardaga.
Ekki er ástæða til að rekja frekar söguþráð myndarinnar. Þessi stórkostlega kvikmynd er svarthvít, en sagt er að hún hafi verið tekin í svarthvítu vegna þess að of erfitt og of dýrt hafi verið að kvikmynda í lit á vettvangi, en myndin var tekin bæði í Búrma og Japan.
Þessi ljósmynd af Kon Ichikawa var tekin 1955 og mér sýnist að hún sé tekin á tökustað Búrma hörpunnar. Myndin er fengin frá Wikimedia Commons.
Þegar ég fór að lesa mér til eftir að ég kom heim eftir bíósýninguna fékk ég skýringu á því hve kunnugleg mér fannst tónlistin í myndinni vera. Tónlistin reyndist þá vera að talsverðu leyti vestræn tónlist í japanskri útsetningu. Þar má m.a. nefna verkið Home Sweet Home eftir Henry Bishop, en fleiri vestræn tónverk voru útsett af japönskum tónsmiðum og flutt í myndinni.
Ekki voru nú margir í bíósalnum að horfa á þetta mikla listaverk með okkur. Eftir að sýningunni lauk rakst ég aftur á Ágúst sem var alveg stórhrifinn eins og við sessunautarnir. Eftir þessa reynslu mun ég leggja mig fram um að sjá myndir eftir Kon Ichikawa þegar þess er kostur og hann er í mínum huga eiginlega kominn í flokk með meistara Akiro Kurosawa. Reyndar skilst mér að Kon Ichikawa hafi einhverju sinni fengið hin virtu Kurosawa verðlaun sem veitt eru fyrir lífsstarf helgað kvikmyndalist, en Kon Ichikawa fékk auðvitað ótal önnur verðlaun á sínum glæsta ferli.