Í gærkvöldi fór ég og sá kvikmyndina/leikritið Skylight eftir David Hare, en myndin er sýnd í Bíó Paradís. Orðið skylight merkir ýmist þakgluggi, ljóri, eða lýsing af himni ofan, himinskin, birta að ofan. Höfundur leikritsins, David Hare, f. 1947, er eitt frægasta leikskáld Breta, en einnig kvikmyndahandritshöfundur og leikstjóri bæði kvikmynda og í leikhúsi. Leikritið var fyrst sýnt árið 1995 og þá léku þau Michael Gambon og Lia Williams aðalhlutverkin. Leikritið var svo sýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1998 undir nafninu Ofanljós. Leikendur voru þau Þorsteinn Gunnarsson, Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir og Friðrik Friðriksson. Kristín Jóhannesdóttir var leikstjóri en Árni Ibsen þýddi verkið.
Í gærkvöldi sá ég kvikmyndaða uppfærslu National Theatre Live á leikritinu. Aðalhlutverk voru í höndum Carey Mulligan og Bill Nighy, en þriðja hlutverkið var í höndum Matthew Beard. Leikstjórar voru Stephen Daldry og Robin Lough, en ég reikna með að sá síðarnefndi hafi stýrt kvikmyndalegri hlið málsins, þar sem Daldry var sá leikstjóri sem setti verkið upp í leikhúsinu sjálfu.
[Skjáskot af plakati leikhúsuppfærslunnar 2014.]
Þessi kvikmyndaða uppfærsla var búin til árið 2023 en kvikmyndaða efnið sem hún var búin til úr var kvikmyndað og leikið árið 2014.
Leikritið er stofudrama af bestu gerð. Carey Mulligan leikur kennara sem kennir unglngum í erfiðum skóla, líklega í fátækrahverfi. Kennarinn heitir Kira Hollis og hún býr ein og býr í hættulegu hverfi, fátækrahverfi, sem er þó alls ekki í grennd við skólann þar sem hún kennir. Kira þarf því að ferðast á milli með almenningssamgöngum. Hún segist njóta þeirra daglegu ferðalaga og nota tímann til lesturs. Hún býr í frekar fátæklegri íbúð í þessu hverfi, en eitt kvöldið, þegar hún er nýkomin heim úr vinnunni, er hringt á dyrabjöllunni. Þar er þá kominn átján ára piltur sem hún þekkti vel, sonur fyrrum ástmanns hennar. Þennan pilt lék Matthew Beard. Og með þessu hefst atburðarásin í leikritinu, en leikritið hefur til að bera einingu í tíma og rúmi. Tími leikritsins er frá því snemma kvölds og fram á morgun. Í leikritinu kemur fram að það er kalt úti, og það gerist um miðjan vetur, skömmu fyrir jól og í miðri viku. Persónur leikritsins vita, að þær þurfa að fara í vinnuna morguninn eftir.
Tengsl fólksins í leikritinu eru þau að unga konan var áður elskhugi fullorðna mannsins, sem þá var giftur. Hún passaði unglinginn sem kemur í heimsókn til hennar í upphafi og var í miklum metum á heimilinu. En síðan eru liðin nokkur ár. Unglingurinn kom í heimsókn og talaði við gömlu barnfóstruna sína um andlát móður sinnar og sorg föðurins. Hann kvaddi svo og fór út í kvöldið og kuldann. En eftir það leið ekki á löngu þar til pabbi hans var kominn, líka alls óvænt, í heimsókn. Og samskipti þessara fyrrum elskenda eru svo efni leikritsins eftir það. Átökin í verkinu snúast ekki síst um ólíka lífssýn ungu konunnar sem nú er orðinn kennari af hugsjón, og hins ákafa kaupsýslumanns og auðkýfings, sem kann vel að meta lífsins lystisemdir en er ekki upptekinn af neinum hugsjónum.
Ég hef lengi verið hrifinn af aðalleikurunum tveimur, þeim Carey Mulligan og Bill Nighy. Leikritið var tekið upp fyrir um tíu árum, og þá hafa þau verið 29 ára og 65 ára, og það er svona ívið ótrúverðugur aldursmunur á þessum elskendum í uppfærslunni. Þriðja hlutverkið var í höndum Matthews Beard, leikara sem var 25 ára gamall árið 2014, en lék þá átján ára pilt. Hann lék hlutverk sitt vel og ekki síður en hinir frábæru leikarar sem voru í aðalhlutverkunum. Ég mæli með þessari uppfærslu og það er sagt að ein sýning sé eftir á verkinu í Bíó Paradís.