Stjórnun á líkamsþyngd

            Margt fólk á við ofþyngdarvanda að etja. Til viðbótar við það líkamlega erfiði sem fylgir ofþyngd hefur feitt fólk oft þungar áhyggjur af holdafarinu og þeim áhrifum sem spikið hefur á heilsufarið. Feitt fólk ber því ekki aðeins þungar byrðir af spiki með sér alla daga heldur einnig blýþungar sálrænar byrðar, nefnilega alla óánægjuna og skömmina sem getur fylgt hinum bersýnilega líkamsþunga. Þar til viðbótar býr feitlagið fólk í mörgum tilvikum við fordóma samferðafólks síns, svo mikla fordóma til dæmis að vinnuframlag feitlagins fólks er gjarna minna metið en vinnuframlag grannvaxins fólks.[1] Þá má ekki gleyma því að lífslíkur feitlagins fólks og ævilengd er áreiðanlega töluvert minni en þeirra sem grennri eru, til dæmis vegna sykursýki, hjartasjúkdóma og tengdra sjúkdóma. Ég ákvað að skrifa þessa grein handa vinum mínum og kunningjum sem eiga við þennan vanda að etja og ég vona að hún geti komið þeim að einhverju gagni.

            Baðvogin sem ég keypti í lok janúar 2021.

Í heilsuátaki fyrir allmörgum árum hætti ég að reykja. Það reyndist mér erfitt og ég fitnaði talsvert í kjölfarið. Eftir það var ég meira og minna feitlaginn. Ég fór samt ekki að byrja að reykja aftur til að grennast og hafði lengi vel litlar sem engar áhyggjur af þessu. Ég hef líka haft þá traustu sjálfsmynd, að ég sé í raun og veru eins grannur og ég var sem ungur maður. Þá var ég tágrannur, svo grannur að góðviljaðar frænkur höfðu áhyggjur af að ég dytti í sundur. Ein systra minna sem reyndi oft að fá mig til að grennast sagði stundum að það væri bókstaflega óeðlilegt að ég væri feitur, því að ég væri svo grannur að eðlisfari. Ég var lengi vel ánægður með að vera grannur í þeim sérstaka skilningi og hafði litlar áhyggjur af svolitlu spiki sem hafði vissulega slysast einhvern veginn inn í þennan að eðlisfari granna líkama minn.

            En örfáum árum eftir að ég hætti að reykja og fitnaði meira vildi svo til að ég fékk hjartaáfall. Í framhaldi fór ég að velta heilsufarinu fyrir mér. Ég greip til hefðbundinna ráða og reyndi til dæmis að stunda leikfimi. Og nokkrum árum síðar hafði ég vit á því að hætta alveg neyslu áfengra drykkja. Þetta gerði ég þrátt fyrir að vinir mínir, sem ég hafði stundum átt með ánægjulegar stundir yfir vínglasi, héldu því fram að ég drykki í hófi og því væri mesta fásinna að hætta þessu. Það reyndist auðveldara en ég hélt að hætta að drekka vín og það er ein gæfulegasta ákvörðun sem ég hef tekið. En frá þessu segi ég hér vegna þess að ég held að fólk sem ekki neytir áfengis eigi auðveldara með að léttast en fólk sem neytir reglulega áfengis, jafnvel þó að neysla þess sé hófleg. Áfengi er mjög orkuríkt.

            Ég hlýt að hafa fitnað í kóvid. Að minnsta kosti ákvað ég um það leyti sem ég varð sextugur, snemma árs 2021, að kaupa mér baðvog til að reyna að ná stjórn á þyngdaraukningunni. Ég sá í hendi mér að það myndi reyna minna á hjartað ef mér tækist að léttast. Það munaði líklega um hvert einasta kíló sem maður burðast með alla daga frá morgni til kvölds.

            Ég fann baðvog sem mér leist vel á í Heimilistækjum. Hún var á útsölu og kostaði tæpar 6.000 kr. Þetta er gamaldags baðvog af gerðinni Medisana og hún gengur ekki fyrir batteríum heldur fyrir þyngdarafli þeirra sem á hana stíga. Vogin uppfyllti vel kröfur mínar um útlit og ég bjóst við að hún væri nægilega nákvæm. Það var hins vegar ekki gaman að stíga á hana og sjá töluna sem titrandi vísirinn benti á.

Eins og sjá má er skífu vogarinnar skipt niður í hálfs kílóa bil og það er erfitt að lesa með meiri nákvæmni af henni.

            Ég sá fljótt að með því að stíga með vissu lagi á vigtina sýndi hún lægri tölur en ella. Fyrstu vikuna vigtaði ég mig nokkrum sinnum og tókst þá yfirleitt að lesa um 111 kg af vigtinni. Svo áttaði ég mig á að ég þyrfti að staðla mælingarnar og ákvað að temja mér að vigta mig þegar ég tæki á mig náðir á kvöldin.

            Mér sýndist líka nauðsynlegt að reikna meðalþyngd, og að meðalþyngdinni væri betur treystandi heldur en sveiflukenndri tölunni sem vigtin gaf frá einum degi til annars. Ég sá líka að ég þyrfti að gera graf yfir þróunina. Í mínu tilviki var nærtækast að nota tölvuna til að gera grafið, en það má auðvitað allt eins búa til graf á rúðustrikað blað, og færa inn punkta með blýanti. Hér er graf yfir þyngd mína á þessu 1001 daga tímabili, frá 29. janúar 2021 til 26. október 2023.[2] Alls vigtaði ég mig 963 sinnum á kvöldin fyrir svefninn á þessu tímabili.

1001 dags kúrinn. Kúrinn byrjaði 29. janúar 2021 og honum lauk 26. október 2023. Í upphafi var þyngdin 111 kg en í lok tímans 92 kg.

            Ég áttaði mig fljótt á því að ég væri ekki þeirrar gerðar að ég gæti verið ánægður með lífið ef ég væri í strangri megrun dag eftir dag. Ég ákvað því að setja mér eins hóflegt markmið og ég gat hugsað mér, nefnilega það markmið að þyngjast ekki. Þetta er einskonar lágmark. Og ef ég léttist svo af einhverjum ástæðum, skyldi ég að grípa gæsina og miða við hina nýju og léttari þyngd.  

            Það sást strax að þyngd mín sveiflaðist mikið. Sveiflan gat stafað að svolitlu leyti af því að vigtin mín góða er þannig gerð að það er ekki auðvelt að lesa af henni nema upp á hálfs kílóa nákvæmni.[3] En þessi breytileiki frá einum degi til annars stafaði samt minnst af því. Líklega var skýringin mjög nærtæk og hversdagsleg og tengdist meltingarveginum. Auk þess komst ég að raun um að ég átti til að vera þyngri en venjulega ef ég hafði borðað mjög saltan mat um daginn eða daginn áður, td. saltkjöt. Vegna þess að þyngdin er breytileg og mér átti til að ofbjóða talan á vigtinni gerði ég stundum tilraunir með að borða lítið, eins og fólk í megrun gerir, en það var undantekning. Venjulega borðaði ég alveg nóg. Á fyrstu mánuðum þessa verkefnis átti ég samtal við góðan kunningja minn sem er læknir, og lýsti þessari áætlun fyrir honum. Honum leist ekki mjög vel á þetta og benti á að fólk léttist yfirleitt ekki á því að stíga á vigtina. Ég hafði vissulega áttað mig á því, en svaraði því til að þetta snerist meira um að gefa sjálfum sér aðhald. Læknirinn sagði mér svo að það gæti líka komið að gagni að takmarka þann tíma sem maður hefur til að neyta fæðu á hverjum sólarhring, og mér leist vel á þá hugmynd. Í framhaldinu tamdi ég mér að borða engan morgunverð, en borða hádegisverð og borða svo ef ég vildi um daginn og borða loks kvöldmat og svo ekkert eftir það. Þessa reglu kenndi læknirinn við átján – sex, þ.e.a.s. að borða ekkert í átján samfelldar klst. á hverjum sólarhring. Þetta hef ég gert eftir að við áttum þetta samtal. Mér hefur nú ekki sýnst þetta fyrirkomulag flýta fyrir því að ég léttist, en ég kann vel við það eigi að síður.

 1001 dags kúrinn. Vikutölur. 143 vikur. Sveiflan er auðvitað minni í vikutölunum heldur en í dagstölum.

            Eins og sjá má léttist ég afskaplega hægt. En ekki var um það að ræða að gefast upp á svo hófsömu markmiði sem því að fitna ekki. Það kom í ljós að frá einum degi til annars annars sást engin breyting, heldur voru tölurnar ýmist óbreyttar frá fyrri degi, eða hækkuðu lítillega eða lækkuðu. Breyting sást meira að segja mjög illa eða bara alls ekki frá einni viku til annarrar, eins og sjá má á á myndinni hér fyrir ofan. Mér fannst líka yfirleitt að þyngd mín stæði algerlega í stað, þó að ég væri sannarlega að léttast.[4] En einmitt vegna þess hve hægfara þessi þróun var, sýndist mér vera svo nauðsynlegt að reikna meðaltal og mæla þyngdina daglega.

            Þegar ég bar saman meðalþyngd mína frá einum mánuði til annars átti ég auðveldara með að sjá breytingar, og þær voru oftast í rétta átt. Ég léttist að meðaltali um 18 – 19 g á dag sem gerir um það bil 550 g á mánuði.

 1001 dags kúrinn. Mánaðartölur. Ég setti dagana í janúar 2021 saman við febrúarmánuðinn á eftir. Breytileikinn er miklu minni í mánaðartölunum en í vikutölunum.

            Tímabilið sem gröfin lýsa, þetta 1001 dags tímabil, náði yfir tæplega 33 mánuði, frá því í lok janúar 2021 og fram undir lok október 2023. Ég meðhöndlaði 29. janúar og febrúarloka 2021 sem einn mánuð og 1 – 26. október sem heilan mánuð líka. Það gerðist 27 sinnum á þessu 33 mánuða tímabili að þyngd mín minnkaði frá einum mánuði til þess næsta, en fimm sinnum þyngdist ég svolítið.

            Það er til einfaldur mælikvarði á holdafar fólks sem heitir Body Mass Index á ensku en líkamsþyngdarstuðull á íslensku.

            Til að átta sig á því hvort fólk er hæfilega þungt, of þungt eða offitusjúklingar, er viðtekið að  miða við þessi mörk:

                        kjörþyngd:       BMI á bilinu    18,5 < 25

                        ofþyngd:          BMI á bilinu    25 < 30

                        offita:               BMI                 30 og hærra

Sé meðalþyngd mín síðustu vikuna sett inn formúluna fæst:

og hér er miðað við meðalþyngd mína á kvöldin síðustu vikuna sem 1001 dags kúrinn stóð yfir, og hæð mína samkvæmt nýlegri hæðarmælingu á læknastofu.[5] En ef ég miða við þyngd mína síðasta daginn, sem var 92 kg (og hélst í 92 amk. næstu þrjú kvöld á eftir) verður stuðullinn reyndar 26.

            Vilji ég komast niður í kjörþyngd, eins og ég er að velta fyrir mér að gera, þarf ég að léttast um þrjú og hálft kíló, en kjörþyngd mín telst vera á bilinu 65,5 – 88,5 kg. Vel má hugsast að ég komist í kjörþyngd eins og af sjálfu sér á næstu sex sjö mánuðum, ef ég held áfram að vigta mig þegar ég tek á mig náðir á kvöldin.


[1] Um þetta eru ýmsar heimildir. Í fljótu bragði fann ég td. þessa heimild, eftir að ég hafði skrifað þetta: Owyang, Michael T. og Vermann,  E. Katarina: “Worth Your Weight? Re-examining the Link between Obesity and Wages.” Federal Reserve Bank of St. Louis. Heimasíða. 1. október 2011 (https://www.stlouisfed.org/publications/).

[2] Verkefnið var svolítinn tíma að taka á sig mynd. Í upphafi ætlaði ég mér að vigta mig frekar á morgnana. Ég sá ekki heldur fyrir mér einhvern 1001 daga kúr. En ég sá reyndar fyrir mér að þurfa að fylgjast með þyngdinni til æviloka. Í blábyrjun tímabilsins vigtaði ég mig frekar á morgnana en kvöldin, og þá eru frekar fáar kvöld-tölur. Þetta kom ekki að neinni sök í þessu praktíska verkefni.

[3] Skífan á vigtinni hefur strik sem afmarkar þyngdina á hálfs kílóa bilum (sjá mynd). Sé grafið skoðað af eftirtekt má ef til vill sjá að stundum eru tölurnar ekki í hálfum kílóum. Skýringin er að ég dvaldi stundum á þessu 1001 daga tímabili annars staðar en heima hjá mér. Þá þurfti ég að nota aðrar vogir en mína, og það hafa þá verið rafrænar vogir sem gefa upp þyngd í 100 g eða jafnvel 50 g. Ég hef eigi að síður haldið mig við þann sið að vigta mig helst daglega.

[4] Þegar upp er staðið er ég ekki hissa á því að ég hafi upplifað þetta svona. Ég hef látið tölvuna telja hve oft ég þyngdist frá einni mælingu til annarrar, hve oft þyngdin stóð í stað og hve oft ég léttist. Mælingar voru 963 og ég gat því borið saman mælingar með þessum hætti 962 sinnum. Ég þyngdist í 311 skipti, stóð í stað í 312 skipti og léttist í 339 skipti. Og þegar upp var staðið var þyngd mín 92 kg en hún var 111 kg í upphafi.

[5] Hæð fólks er ekki jafn stöðug og margir halda. Ég hef verið mældur á bilinu 186,5 cm til 188 cm á læknastofu þar sem hæð mín og þyngd er mæld tvisvar á ári, en tölurnar hafa farið hækkandi undanfarin ár, hvað sem veldur. Eitt sem hefur áhrif er tími dags, fólk er að jafnaði hærra á morgnana en á kvöldin. En líkamsburður og hollning hefur áreiðanlega veruleg áhrif líka. Ég fór í læknisskoðun í nú í októbermánuði 2023 og hæð mín var mæld 188 cm á læknastofunni í þetta sinn eins og stundum áður. Eftir því sem fólk er hávaxnara þarf meiri þunga til að það hætti að vera í kjörþyngd og fari upp í ofþyngd.