Reyðarál og þjóðarhagur

[Erindi sem flutt var á ráðstefnu Landverndar um matsskýrslur um ýmis áhrif framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál. Ráðstefnan var haldin á Grand Hótel þann 7. júní 2001. Ég var ásamt Þórólfi Matthíassyni hagfræðingi og Ívari Jónssyni félagsfræðingi í rýnihópi sem rýndi í skýrslu um samfélagsleg og efnahagsleg áhrif álvers og virkjunar. Niðurstaða okkar var sú að sú skýrsla væri ekki fullunnin, en við höfðum haft stuttan tíma til að rýna hana, enda kom hún ekki út fyrr en 25. maí sama ár. Þær athugasemdir sem fylgja hér á eftir kom ég fram með í eigin nafni. Þessar athugasemdir, ásamt athugasemdum félaga minna í rýnihópnum við skýrsluna og samantekt á öllum niðurstöðum rýnihópa Landverndar eru aðgengilegar hér ]

Tilefni þessara athugasemda eru nokkrar skýrslur sem fjalla um samfélagslegan og efnahagslegan kostnað og ábata af Kárahnjúkavirkjun og af Reyðaráli. Rýnir kom að þessu verkefni á aðeins annan hátt en þeir rýnar sem hér hafa talað, og athugasemdirnar snúa aðeins að ákveðnum forsendum sem skýrsluhöfundar hafa gefið sér í vinnu sinni.

Hlutverk rýnis í þessu sambandi er að lesa gögnin yfir og reyna að meta hvort finna megi fullnægjandi rök í skýrslunum til þess að fallast á að hið opinbera eigi að veita framkvæmdaaðilum framkvæmdaleyfi.

Í stuttu máli sýnist mér að ekki hafi komið fram fullnægjandi rök í skýrslunum til þess að fallast á að hið opinbera eigi að veita framkvæmdaleyfi. Með öðrum orðum, skýrslurnar hafa ekki sannfært mig um nauðsyn framkvæmdanna. Ef af framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál verður mun þjóðarframleiðsla aukast meðan á þessum framkvæmdum stendur. En þar með er ekki sagt að framkvæmdirnar séu til góðs fyrir samfélagið.

Nú skiptir miklu máli hvort framkvæmdir eigi sér stað á samdráttarskeiði eða í góðæri. Ef um samdráttarskeið er að ræða, hafa opinberar framkvæmdir oft dugað vel til þess að lífga upp á atvinnulífið. Framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál eru hins vegar ekki kynntar sem opinberar framkvæmdir af þessu tagi. Þær eru ekki kynntar sem einskonar læknismeðal við kreppu. Við skulum því ekki ræða þær á þeim forsendum.

Gerum nú ráð fyrir að þessar framkvæmdir eigi sér stað í venjulegu árferði eða jafnvel góðæri. Þá munu framkvæmdirnar valda verðbólgu og þenslu á vinnumarkaði auk þess sem búast má við því að ríkið þurfi að beita harkalegum samdráttaraðgerðum til að vinna gegn þenslunni. Sú aukning þjóðarframleiðslunnar sem á sér stað við þau skilyrði á framkvæmdatímanum verður því vart talin þessum framkvæmdum til ágætis.

Talið er að Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál muni auka þjóðarframleiðslu til langs tíma litið. Skv. skýrslu Þjóðhagsstofnunar má búast við að verg landsframleiðsla (GDP) aukist um á bilinu 0,8 – 1,5 % til frambúðar vegna Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðarfirði en að verg þjóðarframleiðsla (GNP) aukist heldur minna, eða 0,4 til 1,3%.

Til þess að setja þessar stærðir í samhengi má geta þess að verg landsframleiðsla jókst um 5,2 % árið 1996, 4,8 % árið 1997, 4,5% árið 1998, 4,1 % árið 1999 og talið er að hún hafi aukist um 3,6% árið 2000. (Tölur frá Þjóðhagsstofnun.)

Af þessum tölum má ráða að virkjun Kárahnjúka og álver í Reyðarfirði mun að líkindum auka þjóðarframleiðslu um jafn mikið og hún jókst „af sjálfu sér“ á nokkurra mánaða fresti á undanförnum árum. Á undanförnum árum hefur ríkt góðæri á Íslandi. En því hefur oft verið haldið fram að þetta góðæri sé því að þakka að hér hefur ríkt stöðugleiki í efnahagslífinu. Þess vegna er óneitanlega sérkennilegt að stefna þessum sama stöðugleika í voða með því að örva verðbólgu og með því að búa til þenslu á vinnumarkaði. Það er líka sérkennilegt að stofna til erfiðleika í rekstri ríkisins með því að knýja ríkið til harkalegra samdráttaraðgerða, til þess eins að ná fram, þegar tímar líða, varanlegum hagvexti sem hefði að líkindum komið af sjálfu sér hvort sem var – en þá án náttúruspjalla!

Talið er að Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál muni vinna gegn fólksfækkun á Austurlandi. Hins vegar er ekki augljóst hvort og þá í hvaða skilningi þetta eru kostir við verkefnið frá samfélagslegu sjónarmiði. Hverju skiptir það fyrir venjulega Íslendinga, hvort íbúar á Austurlandi eru 9.000 eða 10.000?

Margir styðja umræddar framkvæmdir á forsendum byggðastefnunnar. En þá má spyrja: Telja þeir, sem aðhyllast byggðastefnu og styðja Kárahnjúkavirkjun þess vegna, virkilega vera þörf á að fjárfesta á Austurlandi fyrir um það bil tvöhundruð milljarða, jafnvel meira, til þess að koma málum þar í ásættanlegt horf?