Pólitíkin ræður, fagmennirnir greinilega ekki

[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni mánudaginn 10. ágúst 2020. Hún birtist þar svona.]

Upplýstur almenningur veit að farsóttir eins og sú sem nú geisar hér í landinu eru alvarlegt mál. Upplýstur almenningur veit líka að veirur spyrja ekki um landamæri og hlusta ekki á það sem stjórnmálamenn segja, heldur smitast bara á milli manna þegar þeir hittast. Og þær gera það án þess að nokkur viti. Og þær smitast helst ekki nema þegar menn hittast, og smitast helst bara þegar menn nálgast meira en svo að tveir metrar séu á milli þeirra. Þetta vita þau sem halda um stjórnartauma á Íslandi eins vel og allir aðrir. Stjórnvöld hér vita að þau geta ekki sagt veirunni fyrir verkum, eins og þau segja ríkisstarfsmönnunum fyrir verkum. Þess vegna hafa þau sagt sem svo: „Hér á Íslandi hlustum við á sérfræðingana og látum þá um að finna lausn á þessum erfiða vanda.“

Að vonum hafa stjórnvöld okkar fengið mikið hrós fyrir þessa málefnalegu afstöðu. Það gekk líka furðu vel að ná niðurlögum fyrstu bylgju farsóttarinnar hér á landi. Þá hefur  heimsbyggðin öll fylgst með miklu lakari viðbrögðum stjórnlyndra forystumanna í öðrum löndum, sem ekki hafa viljað hlusta á ráðleggingar vísindafólks um það hvernig ráða beri niðurlögum þessarar ógnvekjandi veiru sem nú er komin í mannheima. Það gegndi eitthvað öðru máli hér á Íslandi, sögðum við, „hér er hlustað á fagfólkið, fólkið sem eitthvað kann! Þess vegna gengur svo vel hjá okkur!“

Í upphafi fyrstu bylgju farsóttarinnar sagði sóttvarnarlæknir ítrekað að út frá sóttvarnarsjónarmiðum væri auðvitað best að hafa landið alveg lokað: það er að segja, ekki beinlínis lokað, heldur þannig að fólki væri bannað að koma til landsins nema að undangenginni hálfs mánaðar sóttkví. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir að veiran næði sér á strik hér innanlands. En sóttvarnarlæknir bætti því alltaf við að það væri ekki raunsætt að loka landinu með slíkum hætti, slíkt færi svo illa með efnahagslífið í þessu landi þar sem svo mikið veltur á ferðaþjónustu. 

Það er gömul niðurstaða í hagfræðinni, að viðskiptafrelsi sé almennt til þess fallið að auka auðsæld landa. Ástæðan er einkum sú að viðskiptafrelsi gerir aðilum á markaði kleift að sérhæfa sig í því sem þeir eru góðir í. Eiga svo viðskipti sín á milli. Þannig fá helst allir að njóta sín og allir að græða. Og þessi niðurstaða er gjarna talin vera góður leiðarvísir fyrir stjórnvöld. Hún er hins vegar ekki undantekningarlaus. Viðskipti eru bönnuð með sumt, hér á Íslandi er til dæmis bannað að versla með eiturlyf og kynlíf. Og það getur líka þurft að loka landamærum af ýmsum ástæðum, ekki bara vegna sóttvarnarsjónarmiða, heldur einnig t.d. vegna hernaðarlegra sjónarmiða. 

Margir hagfræðingar eru vanir að líta þannig á málin að hömlur á viðskiptafrelsi séu fyrst og fremst til ills. Þess vegna eru líklega flestir hagfræðingar almennt mótfallnir viðskiptahindrunum nema í undantekningartilvikum (eins og með eiturlyfin og kynlífið) og tortryggja oft tillögur sem fram koma um ríkisafskipti. Af þessum sökum hefur það ugglaust komið ýmsum á óvart að tveir prófessorar í hagfræði við Háskóla Íslands hafa nú á undanförnum dögum bent á það með sterkum rökum í fjölmiðlum og á facebook, að sennilega fari sjónarmið farsóttarfræðinga og hagfræðinga saman í þessu máli, að hömlur á ferðafrelsi til landsins kunni að vera hagkvæmt frá efnahagslegu sjónarmiði.

Prófessorarnir tveir eru þeir Gylfi Zöega og Þórólfur Matthíasson. Þeir benda báðir á að kostir þess að hafa landið opið fyrir ferðafólki hafi líklega verið ofmetnir en kostnaðurinn af því á heilsu og hag landsmanna hafi líklega verið vanmetinn. Ekki verður betur séð en að hagfræðilegar röksemdir þessara mætu fræðimanna séu trúverðugar.

Og hvaða ályktun getum við dregið af þessum staðreyndum: Farsóttarfræðingar telja best að hafa landið lokað út frá einberu sjónarmiði farsóttarfræða. Hagfræðingarnir telja að það kunni að vera hagkvæmast frá þröngu efnahagslegu sjónarmiði, eins og sagt er, að hafa landið lokað á sama hátt. Þarna bendir farsóttarfræðin í eina átt, og hagfræðin bendir í sömu átt líka, eða að minnsta kosti ekki í aðra átt. Niðurstaða bestu fræðimanna í báðum greinum ber þannig að sama brunni: Það virðist vera heppilegra fyrir mannlíf í landinu frá sóttvarnarsjónarmiðum og frá hagfræðilegu sjónarmiði að fólk geti ekki komið til landsins nema öruggt sé að það beri ekki sóttkveikjurnar með sér.

Það hefur að vísu aðeins truflað málflutning sóttvarnaryfirvalda, að þau hafa jafnan nefnt  efnahagsleg sjónarmið svona í framhjáhaldi í yfirlýsingum sínum. Þannig hefur sóttvarnarlæknir aldrei svo ég hafi heyrt mælt beinlínis með því að loka landinu alveg. Þetta hefur hann ekki gert vegna þess að slíkt sé óskynsamlegt vegna sóttvarna, því það er einmitt besta sóttvarnarráðið, heldur vegna þess að hann hefur sagt að lokun landsins á þann veg færi svo illa með efnahag landsmanna. 

En alkunna er, að það er meira að marka hagfræðinga um hagfræðileg málefni heldur en lækna um hagfræðileg málefni. Og það er líka meira að marka lækna um læknisfræðileg málefni heldur en hagfræðinga um læknisfræðileg málefni. Þetta vita allir, stjórnmálamenn eins og aðrir.

Í ljósi þessa mætti ætla að stjórnmálafólkið sem stjórnar landinu og hefur hreykt sér af því að hlusta bara á sérfræðinga um þessi mál, hafi auðvitað alltaf hlustað á sóttvarnarlæknana um sóttvarnirnar og hagfræðingana um hagfræðilegu hliðarnar á málinu. En því virðist ekki vera að heilsa. 

Á blaðamannafundi þríeykisins á laugardaginn (8. ágúst sl.) sagði landlæknir þetta:

„Sko, ég er náttúrlega ekki hagfræðingur. Og það var auðvitað ríkisstjórnin sem ákvað að þetta væri mikilvægt fyrir efnahag landsins, að hingað kæmu ferðamenn. Svo að það var farin þessi leið, að skima.“

Það verður ekki betur séð en að ríkisstjórnin hafi ráðið í þessu máli, ekki sérfræðingarnir. En látið heita svo að sérfræðingarnir hafi ráðið.

Nú hljótum við almenningur að krefjast þess að fá að vita á hvaða forsendum þessar ákvarðanir eru teknar.