Ónýt innsigli og endurtalning atkvæða

[Þessi færsla birtist fyrst á bloggsíðu minni á Stundinni að kvöldi miðvikudagsins 29. september 2021. Sjá má upprunalegu útgáfuna af greininni hér.]

Kjörkassar í Smáralind. Alþingiskosningar 2017. Mynd: Jabbi. Wikimedia commons.*

            Kosningar fara þannig fram að hver maður getur kosið í einu kjördæmi og atkvæði hans ásamt atkvæðum annarra í kjördæminu ráða því hverjir verða kjördæmakjörnir í því kjördæmi. En atkvæði í einu kjördæmi hefur líka áhrif á úthlutun jöfnunarsæta í landinu.

Nú um helgina gengu landsmenn til kosninga til þess að kjósa 63 þingmenn til Alþingis. Þetta er aðferðin sem við notum til að velja þá sem gegna skulu mikilvægustu störfunum við stjórn landsins: við veljum þingmennina tiltölulega beint í kosningum, en þingmennirnir skipa svo fólk til að stýra framkvæmdavaldinu. Með óbeinni hætti hafa kosningarnar einnig áhrif á það hverjir manna dómsvaldið.

            Kosningar fara þannig fram að hver maður getur kosið í einu kjördæmi og atkvæði hans ásamt atkvæðum annarra í kjördæminu ráða því hverjir verða kjördæmakjörnir í því kjördæmi. En atkvæði í einu kjördæmi hefur líka áhrif á úthlutun jöfnunarsæta í landinu. Þannig hafði endurtalning atkvæða í Borgarnesi þá afleiðingu að fimm menn sem voru taldir hafa verið kosnir til Alþingis sem jöfnunarmenn í ýmsum kjördæmum duttu út, en aðrir fimm menn komu í þeirra stað sem jöfnunarmenn. Svo leiðinlega vildi líka til að kynjahlutfall þeirra manna sem skipa Alþingi, sem virtist ætla að verða einstaklega skemmtilegt, með þrjátíu og þremur konum á Alþingi á móti þrjátíu körlum, breyttist við endurtalninguna. Eftir endurtalningu stefnir í að kynjahlutfallið verði þrjátíu konur á móti þrjátíu og þremur körlum. Enginn veit hvað úr verður og Alþingi þarf að skera úr um málið. Ef til vill þarf að endurtaka kosningarnar í Norðvesturkjördæmi, og kjósa kjördæmakjörna þingmenn þar aftur og úthluta jöfnunarsætum á Alþingi upp á nýtt.

            En þessir atburðir leiddu svolítið óvænt í ljós. Eitt var að formaður kjörstjórnar í Borgarnesi benti á að innsigli sem notuð eru til að varðveita kjörgögn eru ónýt. Svonefnd innsigli sem nú eru notuð reynast bara vera límbönd sem auðvelt er að rífa af og líma aftur á eftir þörfum. Hugmyndin með innsiglum er hins vegar sú, að ekki sé hægt að fjarlægja þau án þess að augljóst sé að þau hafi verið brotin. Fyrir ókunnuga er alls ekki augljóst, að límbönd séu vel til slíks fallin.*)

            Formaður kjörstjórnar í Suðurkjördæmi benti líka á að sumir stjórnmálaflokkar sem bjóða fram vanrækja að tilnefna fulltrúa sína til að hafa eftirlit með kosningu og talningu. 

            Þessi tvö atriði, að innsigli sem notuð eru til að varðveita kjörgögn eru ónýt að mati formanns kjörstjórnar í að minnsta kosti einu kjördæmi, og að flokkarnir vanrækja að senda fulltrúa sína til eftirlits með talningu, eru bæði til marks um sinnuleysi stjórnmálaflokkanna um lýðræðið. Það er einfalt að kenna formanni kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi um klúðrið sem átti sér stað um helgina. En það er of ódýrt. Honum er ekki einum um að kenna.

            Það sinnuleysi sem flokkarnir hafa augljóslega sýnt gagnvart framkvæmd kosninga hefur augljóslega haft þau áhrif, að notkun ónýtra innsigla hefur viðgengist. Hefðu flokkarnir ekki verið sinnulausir um þetta mál, hefðu þeir augljóslega krafist úrbóta fyrir löngu. Þetta sama sinnuleysi hefur einnig valdið því að kjörstjórn í Norðvesturkjördæmi taldi óþarft eða gleymdi að kalla fulltrúa flokkanna til þegar endurtalning fór fram.

            Við hljótum að ætlast til þess að stjórnmálaflokkarnir tilnefni í framtíðinni hver fyrir sig athugula, smámunasama, nákvæma og skynsama umboðsmenn til að hafa eftirlit með kosningum. Líklega væri heppilegast að flokkarnir veldu utanaðkomandi umboðsmenn, umboðsmenn úr öðrum héröðum, til eftirlitsins. Þannig mætti uppræta ósiði eða svonefndar „hefðir“ sem greinilega hafa viðgengist á sumum talningarstöðum og brjóta gegn kosningalögum og ef til vill öðrum landslögum.

           ~                                      ~                                      ~

*) Breyting, 30. sept. 2021: Ég breytti einni setningu í greininni, þeirri sem merkt er með „*)“. Setningin hljómaði svona: „Límbönd eru augljóslega ekki vel til slíks fallin.“ Þetta var vond setning í þessu samhengi. Tilefni þessara orða um innsiglin voru þessi orð formanns kjörnefndar í Norðvesturkjördæmi í viðtali við Erlu Hlynsdóttur, blaðamann á DV:  „Nei, nei. Ég get samt nefnt því það er verið að tala um þessi innsigli. Það var einn sem benti á það í gær að þú getur tekið þessi innsigli af og sett þau aftur á án þess að nokkur taki eftir því. Þessi innsigli eru afar ómerkileg. Ef einhver vill svindla þá gera þessi innsigli ekkert gagn. Jafnvel þó það væru almennileg innsigli, ef menn ætla að svindla í kosningum þá svindla þeir í kosningum.“ („Endurtalið eftir ábendingu frá formanni landskjörstjórnar – „Ef menn ætla að svindla í kosningum þá svindla þeir í kosningum“.“ DV, 27. september 2021, Erla Hlynsdóttir, sjá hér: https://www.dv.is/eyjan/2021/9/27/endurtalid-eftir-abendingu-fra-formanni-landskjorstjornar-ef-menn-aetla-ad-svindla-kosningum-tha-svindla-kosningum/ )

            Ég setti þessa nýju setningu í stað hinnar fyrri: „Fyrir ókunnuga er alls ekki augljóst, að límbönd séu vel til slíks fallin.“

            Eftir að ég birti greinina gær áttaði ég mig á því að límbönd af ákveðinni gerð virðast einmitt geta verið ágæt innsigli, en um það má fræðast í grein Óttars Kolbeinssonar Proppé á Vísi, „Svona virka innsigli á kjörkössum.“ Vísir, 29. september 2021, sjá hér: https://www.visir.is/g/20212163246d/svona-virka-innsigli-a-kjorkossum . Áhyggjur mínar af innsiglum virðast því tilhæfulausar, en formaður kjörnefndar í Norðvesturkjördæmi heldur þó öðru fram. Um þetta get ég ekki haft neina skoðun að svo stöddu. 

           ~                                      ~                                      ~

[Myndin sem fylgir með greininni er fengin af Wikimedia commons. Jabbi á höfundarrétt. Hún var tekin í Kópavogi 14. október 2017 kl. um 20 mínútur í fimm, og henni fylgja þessar upplýsingar til viðbótar: „Herbergi fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem sýnir kjörkassa og kjörklefar í Smáralind fyrir Alþingiskosningar 2017.“ Á myndinni sjást límbönd sem notuð hafa verið í stað innsiglis.]