[Grein þessi birtist fyrst á Stundinni þann 24. janúar 2022, sjá hér.]
Það hefur gengið misvel hjá ríkjum heimsins að fást við farsóttina illu, kóvid 19. Á Íslandi hafa stjórnvöld haldið því fram frá upphafi að hér gangi einstaklega vel að fást við farsóttina og að Íslendingar séu í fremstu röð á þessu sviði sem ýmsum öðrum.
Augljóst er að eylönd eru frá náttúrunnar hendi betur í stakk búin til að verjast farsóttum af þessu tagi heldur en ríki sem eru staðsett á meginlöndum, jafnvel umkringt allt annars konar þjóðum með allt önnur lög og siði. Eylönd eins og Ísland eiga sérstaklega auðvelt með að stýra aðgangi fólks að landinu og beita ströngum sóttkvíum á landamærum. Eylönd sem búa við þessar aðstæður hafa þannig sum hver ýmist komið nánast alveg í veg fyrir að smit berist til landsins með mjög ströngum sóttkvíum, eða takmarkað smit mjög verulega. Aðstæður í eylöndum á borð við Ísland eru gerólíkar aðstæðum í löndum á borð við Danmörku, til dæmis, sem liggur upp við Þýskaland og í næsta nágrenni við Noreg og Svíþjóð, og hraðbrautir liggja yfir landamæri og milli landa.
Sumum eylöndum, sér í lagi Nýja Sjálandi, hefur gengið einstaklega vel að nýta sér þessar góðu náttúrlegu aðstæður og stilla smitum og alvarlegum veikindum og andlátum vegna kóvid 19 farsóttarinnar mun betur í hóf heldur en öðrum eylöndum. Hér má sjá töflu sem ég tók saman úr tölum frá Alþjóðaheilbrigðsstofnuninni í dag, 24. janúar, um árangur í kóvidmálum hjá nokkrum eylöndum:[1]
Taflan sýnir mikinn breytileika. Lægst smittíðni í þessum löndum er á Nýja Sjálandi, eyju með álíka mörgum íbúum og Noregur eða Danmörk, en þar hefur verið viðhöfð ströng smitgát á landamærum og fólk hefur verið skikkað í langa og stranga sóttkví þegar það hefur komið til landsins. Árangurinn er slíkur, að hefði Íslendingum tekist jafn vel upp, hefðu innan við 1100 manns smitast hér á landi af kóvid frá upphafi (293 x 3,72), og fjórir dáið úr farsóttinni (1 x 3,72). Ætla má að sama hefði gilt um fjölda sjúklinga með langt kóvid, þeir væru hér miklu miklu færri. Því miður hefur ekki gengið svona vel hjá okkur eins og allir vita.
Íslendingar geta þó bent á sum þessara landa og sagt: „það hefur þó gengið betur hjá okkur en þeim.“ Malta er til dæmis eyja í miðju Miðjarðarhafinu, með tiltölulega sambærilegan fólksfjölda. Þar hafa því miður rúmlega fimm hundruð manns dáið úr farsóttinni og 65 þúsund manns smitast samkvæmt opinberum gögnum (ívið færri hlutfallslega en hér á landi, en kannski hafa Möltubúar ekki verið eins röskir að skima fyrir farsóttinni og við Íslendingar).
Sláandi er að sjá hvernig gengur núna í Nýju Kaledóníu. Ég skrifaði svolítið um árangur þar sl. sumar (sjá hér)[2] og þá leit út fyrir að þar gengi álíka vel og jafnvel betur en á Nýja Sjálandi. En síðan hefur staðan versnað all verulega þar og nú hafa tæplega 15 þúsund manns verið greindir með kóvid 19, og næstum þrjú hundruð manns dáið úr sjúkdóminum í þessu afskekkta ferðamannalandi.
~ ~ ~
Enginn veit hvernig farsóttin mun þróast á næstu vikum og mánuðum. Kannski finnst öflug lækning við kóvid 19 veikinni og kannski finnst enn öflugra bóluefni en þau sem hingað til hafa verið þróuð. Samkvæmt fréttum er til dæmis nýtt bóluefni í þróun hjá Walter Reed hersjúkrahúsinu í Bandaríkjunum[3] og það þykir lofa góðu. Finnist mjög öflugt bóluefni kemur það auðvitað að minni notum fyrir fólk sem þegar hefur smitast af farsóttinni og jafnvel farið illa úr sýkingunni, heldur en fyrir það fólk sem ekki hefur smitast, eins og til dæmis íbúa Nýja Sjálands. Þá halda margir því fram núna, að ómikron afbrigðið valdi nýjum sjúkdómi, öðrum sjúkdómi en fyrri afbrigði veirunnar. Þessi nýi sjúkdómur sé svo vægur að engar áhyggjur þurfi að hafa af heilbrigðiskerfinu hans vegna, það muni þola álagið, þrátt fyrir að sjúkdómurinn sé ákaflega smitandi. Minna fer fyrir röddum sem benda á að reynslan af ómikron afbrigðinu er ákaflega stutt, um tveir mánuðir. Þó að heilbrigðiskerfið muni þola álagið, eru tveir mánuðir augljóslega mjög skammur tími til að meta langtímaáhrif nýrra veirusjúkdóma á það fólk sem veikist.
~ ~ ~
[1] Sjá: https://covid19.who.int/ . Mannfjöldatölur fyrir löndin eru fengnar af netinu, en ekki frá þjóðskrá viðkomandi landa.
[2] Sjá greinina „Farsóttin og úthafið“ 23. ágúst 2021. Tengill: https://stundin.is/blogg/thorbergur-thorsson/farsottin-og-uthafid/.
[3] Sjá td. fréttatilkynningu frá Walter Reed hersjúkrahúsinu hér: https://www.drugdiscoverytrends.com/walter-reed-research-arms-pan-coronavirus-vaccine-could-hold-up-against-omicron/