Myndin af Árna Magnússyni

            Mér áskotnaðist forvitnileg bók nú í sumar. Hún heitir Isländische Grammatik og er eftir þýska málfræðinginn Bruno Kress (1907–1997). Þó að bókin sé mjög forvitnileg þóttist ég vita að Má Jónssyni fornvini mínum þætti meiri fengur í henni en mér, enda skrifaði afi hans bókina. Ég vissi ekki hvort Már ætti eintak af henni. Við höfum lítið hist undanfarið. Við fórum að vísu nýlega í göngutúr og svo fórum við saman á opnun Húss íslenskra fræða nú í vor.  En um daginn heimsótti ég Má og hafði bókina með mér.

            „Áttu nokkuð þessa?“ spurði ég þegar ég sýndi honum bókina.

            „Nei,“ sagði Már.

            „Þá áttu hana núna,“ sagði ég. Már var önnum kafinn að elda og gat þess vegna ekki skoðað bókina strax. Ég settist niður í eldhúsinu hjá honum til að fylgjast með eldamennskunni.

            Ég er nýlega kominn með áhuga á handritasöfnun Íslendinga á fyrri öldum, en í þeirri sögu er Árni Magnússon auðvitað aðalpersóna. Már verður að teljast mjög áhugasamur um þessa sögu og hefur lengi verið. Hann skrifaði stóra ævisögu Árna Magnússonar á sínum tíma sem kom út rétt fyrir síðustu aldamót. Þó að við Már höfum verið vinir frá því um tvítugt hafði ég ekki lesið bókina hans um Árna, fyrr en nú nýlega. Ævisagan er stórfróðlegt verk.

            Ástæðan fyrir því að ég fékk áhuga á sögu handritasöfnunar er sú, að ég hef verið að reyna að skrifa um efni sem tengist þessari sögu. Og þá flaug mér í hug að gaman gæti verið að birta mynd af Árna Magnússyni með þeim skrifum.

            Það er engin samtímamynd til af Árna Magnússyni, en séra Hjalti Þorsteinsson (1665–1754) og Árni þekktust og Hjalti málaði mynd af Árna, eftir minni, árið 1745. Þá voru þrjátíu og fimm ár síðan þeir hittust síðast. Már birtir svarthvíta mynd af þessu málverki á bls. 10 í bók sinni.

            Séra Hjalti var merkur maður. Um hann er sagt að hann hafi í námsdvöl sinni í Kaupmannahöfn varið „…öllum stundum sem hann mátti frá námi, til þess að nema hljóðfæraslátt, höggmyndagerð og málaralist, er hann hafði tamið sér frá barnæsku…“ Þá er sagt að hann hafi verið „óvenjulega fjölhæfur maður, prýðilega að sér í stjarnfræði“ og að hann hafi gert landabréf af öllum Vestfjörðum. Hann hafi verið ágætur söngmaður og hljóðfæraleikari og auk þess „völundur í smíðum“ og sent Jóni byskupi Vídalín „skákborð frábært“ og smíðað og skreytt „fagran predikunarstól í Vatnsfjarðarkirkju.“ Mikið orð mun hafa farið af málaralist hans þegar í æsku og áður en hann fór utan til náms „skrautmálaði hann Skálholtskirkju að innan.“ Hann er sagður hafa kennt a.m.k. tveimur mönnum að mála.[1]

            Þó að svarthvít mynd af málverki séra Hjalta hafi yfirleitt verið látin duga til birtingar í bókum til þessa, enda bækur gjarna prentaðar í svarthvítu, langaði mig að hafa litmynd með mínum skrifum. Það reyndist ekki vera hægt að nálgast litmynd af þessu málverki hér á íslensku söfnunum, en málverkið er varðveitt í Konunglegu dönsku bókhlöðunni. Ég svipaðist um eftir eftirmynd af málverkinu á veggjum Eddu þegar við gengum þar um á opnunardeginum, við Már og Guja Hauksdóttir arkitekt, sem hafði slegist í för með okkur. Ég sá myndina hvergi. Það stemmdi raunar við skoðun mína á heimasíðu Árnastofnunar, þar sem þessa mynd er ekki að finna, hvorki í lit né svarthvítu. En reyndar sagði Már mér seinna að eftirmynd af málverki Hjalta hafi auðvitað hangið uppi á vegg í gömlu Árnastofnun. Sú mynd hlýtur að fara með í flutningunum yfir í Eddu.

Málverk séra Hjalta Þorsteinssonar af prófessor Árna Magnússyni. Málað 1745. Í eigu Det Kongelige Danske Bibliotek og birt með leyfi safnsins.

            Þegar við gengum þarna um á opnunardaginn fannst mér mjög vel hafa tekist um val á listaverkum á veggjunum. Það vantaði bara mynd af Árna. Svo flaug mér í hug að í eina tíð hefðu kannski verið settar upp svolítið þungbúnar og ábúðarfullar myndir af helstu ævisagnariturum Árna, að minnsta kosti þeim sem þá væru löngu dánir og til væri mynd af, en þá myndi að mér skilst einna helst vera hugsað til þeirra Kristians Kålund (1844–1919), og Finns Jónssonar prófessors (1858–1934).[2] Slíkt hefði kannski þótt viðeigandi í ljósi þess að ekki er til raunveruleg samtímamynd af Árna, en til eru góðar samtímamyndir af þessum mætu fræðimönnum. Við getum þekkt menn af vinum þeirra, og hverjir eru meiri vinir manns en þeir sem skrifa um hann góða ævisögu?

Kristian Kälund (1844–1919). Mynd fengin af Wikimedia Commons.

Finnur Jónsson (1858–1928). Mynd fengin af Wikimedia Commons.

            Þegar við fórum að skoða Hús íslenskra fræða hafði það verið á verkefnalista okkar Más um nokkra hríð að útvega okkur litmynd af málverki séra Hjalta, til að láta prenta myndina út og setja í ramma, og eins og ég var búinn að geta um, í mínu tilviki líka til að hafa hana til reiðu ef mér tækist að koma saman ritverkinu þar sem handritamálin ber aðeins á góma og myndin ætti heima. Þegar málið var kannað, reyndist furðu auðvelt að fá myndina frá hinu danska bókasafni.[3] Og Már vissi auðvitað strax upp á hár hvað hann ætlaði gera við sína mynd, hann vildi stækka hana upp í málunum ca. 30 x 40 cm og láta ramma inn í ljósan ramma. En eins og svo oft var ég ekki eins fljótur að ákveða mig. Mér finnst nefnilega að maður eigi að öðru jöfnu helst að endurgera myndlistarverk í sömu stærð og hið upprunalega verk. Þetta er að vísu alls ekki undantekningarlaus regla, en þegar þessu verður auðveldlega við komið finnst mér eðlilegt að hafa þetta í huga. Þetta nefndi ég við Má og lét þess getið að ég hefði ekki séð málin á málverki séra Hjalta á heimasíðu danska safnsins. Eftir þetta lenti málið svo í útideyfu hjá mér.

            En þarna var ég nýbúinn að færa Má bókina um íslenska málfræði eftir afa hans. Og hann var að þurrka sér um hendurnar eða taka af sér svuntuna eftir að hafa eldað dýrindis máltíð, og snýr sér að mér og segir, „heyrðu, skoðaðu myndirnar þarna.“

            Þarna voru sem sé einhverjar innrammaðar ljósmyndir á gólfinu uppi á rönd við bókaskáp. Ég þekkti ekki andlitið sem á þeirri mynd sem vísaði fram. Ég gekk að myndunum og um leið og ég hafði flett fyrstu myndinni frá, blasti Árni Magnússon við, eins og séra Hjalti hafði gengið frá honum árið 1745, um fimmtán árum eftir að Árni dó og þrjátíu og fimm árum eftir að þeir hittust síðast.

            „Ja hérna,“ sagði ég, „þú ert bara strax búinn að þessu.“

            „Já, skoðaðu betur,“ sagði Már og ég tók myndina upp, og sá þá að þarna var önnur alveg eins mynd á bakvið.

            „Þessi mynd er handa þér,“ sagði Már þá.

            „Ha,“ sagði ég.

            „Ég var viss um að ef myndi ekki láta búa til mynd handa þér, yrði aldrei neitt úr þessu hjá þér!“ bætti hann svo við.

            Ég varð að kannast við það með sjálfum mér, að það gat verið rétt hjá honum.

            „Við hefðum fyrst þurft að fara með málband til Kaupmannahafnar til að mæla myndina!“ sagði Már svo. „Ég hafði að vísu samviskubit, því ég veit að þig vantar veggpláss fyrir bækur! En það verður að hafa það!“ bætti Már svo við.

            „Þú ert nú meiri karlinn,“ sagði ég við Má. „Þakka þér kærlega fyrir þessa elskulegu gjöf.“     

            „Segjum tveir,“ sagði Már, „þakka þér fyrir að fá bókina hans afa, það er frábært.“

            Þá datt mér í hug að það væri gaman að fá mynd af Má með eftirmyndina af málverki séra Hjalta Þorsteinssonar í fanginu, og bað hann að stilla sér upp með verkið og tók myndina á símann. Ég sá að Már var berfættur, og spurði, „finnst þér í lagi að vera svona berfættur á myndinni?“

            „Já, það er allt í lagi,“ sagði Már þá.


[1] Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár, II: 363 – 4. 1949. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

[2] Mér skilst að þessir séu kannski helstir ævisöguritarar Árna, (ekki alveg rétta orðið um Kristian samt), auk Jóns frá Grunnavík (sem ég veit ekki til að til sé mynd af) og auðvitað Más Jónssonar.

[3] Svanhildur Óskarsdóttir var svo væn að benda mér á að leita til Ragnheiðar Mósesdóttur sem starfar hjá bókasafninu danska. Ragnheiður leysti svo skjótlega úr öllum vanda. Þakka ég þeim báðum kærlega fyrir. Sjá annars heimasíðu Konunglega danska bókasafnsins, Det Kongelige Danske Bibliotek, kb.dk. Myndin er varðveitt í svokölluðu Müllers Pinakotek og aðgengileg á vef safnsins undir leitarorðinu Arni Magnusson. Þar er leyfi veitt fyrir birtingu með því skilyrði að geta eiganda og uppruna myndarinnar.