[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni sunnudaginn 27. maí 2018. Hún birtist þar svona.]
Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson leikstjóra sem frumsýnd var á dögunum í Háskólabíói er lífleg kvikmynd og skemmtileg. Mér sýnist mega lýsa henni sem blöndu af hasarmynd og grínmynd. Það er líka í henni þjóðfélagsádeila. Og hún er á ýmsan hátt óvenjulega frískleg. Þannig er kvikmyndatónlistin til dæmis flutt af tónlistarfólki í mynd, það kemur sér fyrir á heppilegum stöðum í nágrenni við leikarana og bregður á leik og kvikmyndin minnir þannig á frjálslegar uppfærslur í leikhúsi. Þetta gera kvikmyndagerðarmenn reyndar einstöku sinnum en í svipinn man ég ekki eftir þessu stílbragði í íslenskri kvikmynd.
Myndin er fagmannlega gerð og það er húmor í henni. Einn kjarni í myndinni er tiltölulega gamalkunn sýn á stjórnmál nútímans og fólkið sem þar trónir hæst: það er sýnt sem kaldrifjað fólk sem hefur svikið „sína huldumey“ svo gripið sé til orðalags í kvæði Guðmundar Böðvarssonar. Í kvikmyndinni stjórnar þetta fólk umræðunni ljóst og leynt og áhorfandinn getur ekki verið viss um að það fari endilega eftir landslögum þegar það ákveður til hvaða úrræða það grípur til að ná markmiðum sínum.
Aðalpersónan Halla er söngkona og kórstjóri. Hún er róttækur aðgerðasinni bak við tjöldin. Hún á heima í vesturbænum í Reykjavík og ferðast um á reiðhjóli. Þegar ferðir hennar eru sýndar í mynd finnst manni maður vera staddur í borginni fyrir mörgum áratugum, því að við fáum aðeins að sjá hina fallegu Reykjavík, þá Reykjavík sem var byggð fyrir kannski sjötíu til hundrað árum síðan og farið var að gera upp fyrir 30 árum eða svo. Þetta er dýra Reykjavík, Reykjavík bárujárnshúsanna í kyrrlátari hlutum miðbæjarins, bárujárnshúsa sem kosta núna kannski 500 til 600 þúsund kr. hver fermetri, en húsum af þessu tagi hefur fækkað mjög í efnahagsumbrotum landsins að undanförnu og ný stórhýsi og hótel, sem ekki sjást í kvikmyndinni, hafa verið reist í staðinn.
Það einfalda bragð, að sýna nánast eingöngu gömul hús í borginni, verður til þess að Reykjavík verður falleg, eins og hún á að geta verið. Það verður hlýlegur og elskulegur blær á borgarsenum líkt og á gömlu póstkorti eða í glænýrri bankaauglýsingu.
Hin einhleypa Halla stjórnar kór sem virðist halda æfingar sínar einhvers staðar efst í Þingholtunum, og leiðin sem hún fer á hjóli sínu milli kóræfingastaðarins og heimilis síns er myndræn og falleg.
En kvikmyndin lýsir einnig þeim erfiðu viðfangsefnum sem Halla hefur með leynd tekist á herðar. Halla berst með sínum ráðum gegn stóriðju og rafmagnsframleiðslu í landinu og náttúruspjöllum sem slíku fylgja. Þar á hún við erfið öfl að etja.
Halldóra Geirharðsdóttir leikur prýðilega þau hlutverk sem henni voru falin. Myndin stendur og fellur með Halldóru, því að hún er eiginlega alltaf í mynd. Aðrir leikarar, sem margir eru þjóðkunnir, skila sínu með sóma. Og ekki má gleyma þætti tónlistarinnar. Lítil hljómsveit skipuð þremur körlum spilar við ýmis tækifæri og þriggja kvenna kór, að því er virðist frá Úkraínu, hefur stundum upp sinn söng, en horfir stundum ábúðarfullur og þögull til okkar áhorfenda og á atburðina sem sviðsettir eru í kvikmyndinni. Stundum sameinast þessir tveir litlu tónlistarflokkar. Tónlistarfólkið gegnir því hlutverki að vera vitni að baráttu Höllu í myndinni, og með því að vera svona sýnilegt í kvikmyndinni minnir tónlistarfólkið okkur á að þetta er leikin kvikmynd, leikin og uppsett frásaga.
Kvikmyndin Kona fer í stríð er prýðileg kvöldskemmtun.
~ ~ ~