Kristján Þorvaldsson, 1962 – 2023

[Styttri minningargrein um Kristján var birt samtímis í Morgunblaðinu.]

Það er þversagnakennt að nái fólk að lifa nógu lengi, áttar það sig á að ævin er ósköp stutt. En fólk sem ekki hefur ekki lifað lengi heldur að lífið sé langt. Þegar við Kristján kynntumst héldum við að lífið væri langt.

[Kristján og Oddný Vestmann á góðri stundu. Myndin er fengin af facebooksíðu Kristjáns og birt með leyfi Oddnýjar.]

Kristján minntist stundum á að hann hefði séð mig löngu áður en ég sá hann. Þetta var dæmigert fyrir hann og líka hitt, að hann gat tímasett þennan atburð nákvæmlega og lýst honum vel með sínum hætti. Mig minnir að þetta hafi verið vorið 1976. Hann var í skólaferðalagi með skólasystkinum frá Fáskrúðsfirði og þau voru kominn upp á Hérað og dvöldu í nokkra daga í húsi Húsmæðraskólans á Hallormsstað. Ég var á heimavist í grunnskólanum þar rétt hjá og tók lítið eftir aðkomukrökkunum. Kristján var ári yngri. Við hittumst svo ekki fyrr en þremur árum síðar, haustið 1979. Þetta var í Menntaskólanum við Sund og ég var að byrja í þessum skóla eftir námshlé. Þessi ókunnugi strákur stóð allt í einu íbygginn og brosandi fyrir framan mig. Ég vissi að hann væri í öðrum bekk eins og ég og þar með að hann væri líklega yngri. Hann hafði séð mig áður. Hann átti oft eftir að segja söguna af því. Krakkarnir frá Fáskrúðsfirði höfðu verið að kíkja á glugga heimavistarinnar og hann varð gáttaður þegar hann sá einn nemandann standa við vask og raka sig. Svona urðu krakkar uppi á Héraði snemma fullorðnir! Kristján sagði að ég hefði verið þessi strákur. En ég sá hann fyrir mér við gluggann og nefið klessast við rúðuna.

Við tóku þrjú ár í Menntaskólanum við Sund. Þar myndaðist góður vinahópur sem brallaði margt. Sum voru utan af landi. Flestir skólafélaganna bjuggu auðvitað í foreldrahúsum. En við landsbyggðarkrakkarnir lifðum lífinu upp á eigin spýtur, ef svo má segja. Kristján bjó lengi einn í lítilli skonsu í Smáíbúðarhverfinu. Hún var innst í bílskúr, fyrir innan fjölskyldubílinn. Þar var lítilsháttar eldhúsaðstaða og snyrting í afstúkuðu rými og auðvitað pláss fyrir rúm og borð. Í þessu litla rými hittumst við stundum. Við lærðum til dæmis þar saman fyrir einhver stúdentsprófin. En ég bjó samt í rúmbetra húsnæði, til að byrja með í efri byggðum, en þar hafði ég ásamt yngri bróður mínum tveggja herbergja íbúð, en bróðir minn var eins og við Kristján kominn til borgarinnar til að fara í skóla.

Ég held að svona einbúabúskapur sé ekki heppilegur fyrir bráðungt námsfólk. Við Kristján áttum til dæmis eins og fleiri í vinahópi okkar í MS oft eftir að skrópa okkur úr skóla. En við lukum samt stúdentsprófinu þremur árum síðar. Þegar menntaskólanum lauk leigðum við Kristján og nokkur önnur úr vinahópnum saman íbúð í Þingholtunum. Það var skemmtilegur tími. Kristján fór að læra lögfræði, en lauk ekki námi í þeirri grein heldur gerðist blaðamaður.

Eins og gengur var mislangt á milli þess sem við hittumst eða töluðum saman. Ég heimsótti stundum Kristján og Helgu Jónu, fyrstu konu hans, þegar Þorvaldur Davíð sonur þeirra var lítill og þau bjuggu til að byrja með á Grettisgötu og einnig þegar þau bjuggu við Sæviðarsund. Löngu síðar eignaðist Kristján Árdísi og með henni dótturina Önnu Sigríði. Til þeirra kom ég stundum í heimsókn á Válastígnum. Kristján var alltaf góður heim að sækja. Hann var húslegur og hafði gaman af matseld. En skemmtilegast var að spjalla við hann. Hann var hlýlegur og umtalsgóður um fólk en gat líka verið fyndinn. Þegar talið barst að því sem var efst á baugi í landsmálunum var hann auk þess fróður og málefnalegur.

[Kristján, Helga Jóna Óðinsdóttir og Þorvaldur Davíð sonur þeirra. Myndin er úr fjölskyldualbúmi Helgu Jónu og birt með leyfi hennar. ]

[Kristján, Árdís Sigurðardóttir og Anna Sigríður dóttir þeirra. Myndin er úr fjölskyldualbúmi Árdísar og birt með leyfi hennar.]

Seinna kynntist Kristján Oddnýju. Þau fluttu til eyjarinnar Lálands í Danmörku. Þar greindist hann fljótlega með krabbamein sem hann glímdi við eftir það. Í mörgum löngum myndsímtölum okkar Kristjáns á undanförnum árum áttaði ég mig vel á því hve frábæra umhyggju Oddný sýndi Kristjáni í alvarlegum veikindum hans og hve vel þau áttu saman. Því miður varð samt ekki úr því að ég færi til Lálands í heimsókn til þeirra.

Við Kristján töluðum síðast saman um þremur vikum áður en hann dó. Kristján hringdi í það skiptið. Honum hafði dottið í hug að ráðleggja mér að umgangast fleira fólk og stunda félagslífið betur en hann þóttist vita að ég gerði. Hann nefndi líka eins og stundum áður að það væri gott að búa í Danmörku. Þessi umhyggja var Kristjáni lík. Það var bjart yfir Kristjáni í þessu samtali og hann sagði að krabbameinsmeðferðin gengi mjög vel. Þetta símtal fyllti mig bjartsýni.

Næst kom sú fregn, að Kristján hefði orðið bráðkvaddur. Ég vil senda allri fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

~ ~ ~