[Grein þessi birtist fyrst á Stundinni]
Margvísleg álitamál hafa vaknað í kjölfar löglausrar atkvæðatalningar í Norðvesturkjördæmi í síðustu Alþingiskosningum.
Stofnanir ríkisins þurfa að starfa samkvæmt lögum. Sú krafa er sjálfsögð í réttarríki eins og Ísland hefur talið sig vera. Viðbótarskilyrði er að stofnanir ríkisins og samfélagsins þurfa að vera réttlátar. En við gerum jafnvel meiri kröfur til Alþingis, sjálfrar löggjafarsamkomunnar, en til annarra stofnana samfélagsins. Löggjafarsamkoman þarf auðvitað að fara eftir þeim lögum sem hún hefur sjálf sett og Alþingi þarf auðvitað líka að hafa sanngirni og réttlæti að leiðarljósi í störfum sínum.
Krafan um að ákvarðanir stofnana samfélagsins séu löglegar er nánast ófrávíkjanleg. Undantekningar kunna að vera í neyðartilvikum. Það er ekki eins auðvelt að gera fortakslausa kröfu um að Alþingi eða aðrar stofnanir samfélagsins taki réttlátar ákvarðanir, enda er réttlætið ólíkt lögum að því leyti, að meiri óvissa getur verið um hvað teljist vera réttlát niðurstaða í máli heldur en hvað teljist vera lagalega rétt niðurstaða í því. Slík óvissa kann þó að vera sjaldgæfari en margur hyggur. Ástæðan er sú að hin lagalega rétta niðurstaða er oft sanngjörn og réttlát. Það stafar af því að lög eru leikreglur. Þegar leikreglur eru í gildi er oft (en samt ekki alltaf) sanngjarnt og réttlátt að fara eftir þeim.
~ ~ ~
Hugsum nú um einfalt réttlæti án þess að hugsa um lögin um leið.
Allir vita að jöfnuður er oft hin eina réttláta og sanngjarna regla. Ef börn eru saman í veislu er til dæmis óréttlátt að börnin fá ekki öll jafnt, til dæmis ef börnin fá ekki jafn stóra kökusneið. Þó að frekasta barnið sé kannski mjög frekt á það alls ekki að fá stærstu sneiðina. Það væri ranglæti.
Jöfnuður kemur víða við sögu. Stundum getur réttlætið falist í því að allir hafi jafn góðar líkur á að sleppa við eitthvert erfitt, hættulegt eða vanþakklátt verkefni. Við getum hugsað okkur að það þurfi að senda einhvern einn í hættulega ferð, en allir í hópnum séu jafn vel til þess fallnir að fara í ferðina. Aðeins einn þurfi að fara, en margir séu í hópnum. Hvernig á að velja þennan eina? Réttlátast virðist að kasta teningi, láta hlutkesti ráða. Það er réttlátast vegna þess að þá hafa allir í hópnum jafnar líkur eða jafn mikla möguleika á að sleppa við hina hættulegu ferð. Í svona aðstæðum má alls ekki sleppa hinum frekasta í hópnum við að koma til greina. Eitt verður yfir alla að ganga.
Í þessum tilvikum um einföld réttlætismál má segja að þar skipti aðferðin öllu máli. Sé aðferðin rétt verður niðurstaðan réttlát. Það á að skera allar kökusneiðar jafnt. Það á að kasta teningnum rétt, en ekki til dæmis að snúa honum í leyni eftir að búið er að kasta honum, og lesa svo upp aðra niðurstöðu en þá sem sneri upp á teningnum. Réttlætið er einfalt mál í svona aðstæðum.
~ ~ ~
Um kosningar til Alþingis gilda sérstök lög sem Alþingi setti sjálft. En kosningar eru um leið einfalt réttlætismál, líkt og dæmin hér að ofan. Réttlátar eða sanngjarnar kosningar felast nefnilega í því að ekki sé svindlað og farið sé rétt að hlutunum. Allir sem hafa kosningarétt fái að kjósa. Talningarfólk telji atkvæðin vandlega og rétt. Réttu tölurnar séu svo lesnar upp fyrir alþjóð og þingsætum úthlutað í samræmi við það.
Réttlæti og ranglæti í kosningum snýr bæði að þeim sem bjóða sig fram í kosningunum og hinum sem kjósa. Augljóst er af hverju þetta réttlætismál skiptir miklu fyrir þá sem bjóða sig fram til þings. En þegar kemur að þjóðinni sjálfri er málið kannski ekki eins augljóst í huga margra. Klúðrið í Borgarnesi olli því að jöfnunarmenn í fimm kjördæmum landsins færðust til, en þetta breytti þó ekki neinu um fjölda þingmanna frá hverjum flokki. Þess vegna finnst mörgum þetta ekki skipta máli. Af hverju er það réttlætismál að jöfnunarmenn þingflokkanna komi nákvæmlega úr réttu kjördæmi, samkvæmt rétt töldum atkvæðafjölda og ekki til dæmis frá næsta kjördæmi til hliðar? Hverju skiptir hvort Jón eða Gunna situr á þingi fyrir einhvern stjórnmálaflokk?
Hér má horfa til þess að kosningalögin, sem Alþingi setti árið 2000, eru einskonar loforð Alþingis til allra landsmanna um að kosningar muni fara fram í samræmi við þessi lög. Af öllum stofnunum ríkisins er Alþingi í ákaflega sérstakri stöðu þegar kemur að sérlögum sem varða starfsemi þess. Alþingi er löggjafinn. Það setti lögin. Og þegar loforð eru gefin ber að standa við þau. Annað er almennt og yfirleitt rangsleitni og ranglæti.
Hér má líka hafa í huga að það er auðvitað sérstaklega mikilvægt að Alþingi sé rétt kosið. Alþingismenn eru bundnir við sannfæringu sína, en ekki við ákvarðanir stjórnmálaflokkanna. Þeir ráða sjálfir atkvæði sínu. Þess vegna skiptir máli hverjir eru á þingi. Og þegar Alþingi hefur verið kallað saman eftir kosningar, munu kjósendur og landsmenn allir þurfa að haga lífi sínu í samræmi við ákvarðanir sem þessir kosnu fulltrúar munu taka. Ef að líkum lætur munu sumir landsmenn meira að segja verða fyrir refsingum, á næsta kjörtímabili, á grundvelli laga sem þetta fólk hefur samið. Það er því réttlætismál fyrir almenning, fyrir þjóðina sjálfa, að rétt sé farið að við kosningar í landinu. Á Alþingi eiga ekki að vera aðrir þingmenn en þeir, sem kosnir hafa verið með lögmætum hætti.
~ ~ ~
Í næstu viku mun hið nýkjörna Alþingi kjósa um það, hvort taka eigi kosninguna og talninguna í Norðvesturkjördæmi gilda.
Enginn vafi leikur á því að í talningunni voru kosningalög þverbrotin. Enginn vafi getur heldur leikið á því að þau brot á kosningalögum höfðu áhrif á niðurstöðu kosninganna, enda komu fram tvær ólíkar niðurstöður úr þeim og báðar ótrúverðugar.[1] Allar tölur breyttust við seinni talningu og fimm þingsæti á landsvísu fóru á flakk, ef svo má segja. Við nánari athugun undirbúningsnefndar kjörbréfa komu svo í ljós gallar á seinni talningunni líka.
Samkvæmt 120. gr. kosningalaga úrskurðar Alþingi kosningu ógilda ef gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns og ætla má að gallarnir hafi haft áhrif á úrslitin. Samkvæmt 121. gr. sömu laga skal halda uppkosningu eftir að kosning hefur verið úrskurðuð ógild. Þess vegna hljótum við að ætlast til þess að Alþingi úrskurði kosningarnar í Norðvesturkjördæmi ógildar eins og lög mæla fyrir og í framhaldi verði haldnar uppkosningar í kjördæminu.
~ ~ ~
[1] Um þetta efni hefur mikið verið fjallað. Fyrri tölur úr NV kjördæmi voru kynntar sem hinar endanlegu að morgni 26. september sl. En síðdegis sama dag voru aðrar tölur kynntar sem hinar endanlegu. Þessar aðrar tölur voru allar breyttar, meira að segja heildaratkvæðafjöldinn var annar. Í fáeinum rannsóknarferðum undirbúningsnefndar kjörbréfa í Borgarnes hafa komið í ljós frávik og mistök í þessari seinni talningu, svo að hin seinni talning var ekki heldur rétt. Þá var seinni talningin ógild samkvæmt venjulegum skilningi á því hvað teljist lögmæt meðferð kjörgagna og hvað ekki.
[Grein þessi birtist fyrst á Stundinni sunnudaginn 21. nóvember sl. en hér mánudaginn 29. nóvember 2021.]