Konur Mari þjóðarinnar

[Þessa færslu birti ég á facebook laugardaginn 12. september 2015.]

Ég má til með að segja frá merkilegri kvikmynd sem ég sá í gærkvöldi. Hún er sýnd á rússneskri kvikmyndahátið, og segir frá fólki af Mari-þjóðinni. Mari þjóðin er um það bil tvöfalt fjölmennari en Íslendingar og talar fallegt tungumál sem talað er í kvikmyndinni. Tungumálið heitir líka Mari.

Mari-fólk er að drjúgum hluta enn náttúrutrúar, en margir eru líka rússnesk-ortódoxar. Þjóðin býr að verulegu leyti á sléttum meðfram fljótinu Volgu. Við vinstri bakkann á fljótinu, ef marka má Wikipediu, býr “sléttufólkið”, (e: “meadow mari”). Kvikmyndin stórkostlega gæti ef til vill kallast “Hinar himnesku eiginkonur Marifólksins sem býr á sléttunni.”Í myndinni eru sagðar sögur af 22 konum og stúlkum. Það eru mörg ógleymanleg augnablik í myndinni, hún er stútfull af frábærum sögum og andartökum. Hún gerist í samtímanum, en samt líka fyrr á öldum, því fólkið sem hún segir frá hefur náttúruleg sjónarmið um veröldina og trúir á anda og náttúruöfl og uppvakninga, sem leika stórt hlutverk í myndinni. Sem dæmi um kvikmyndina má nefna eitt magnað og fínlegt smáatriði í myndinni. Þar má sjá skógardísir hlaupa naktar um í skóginum, en þetta eru í rauninni ungar Mari-konur að undirbúa vinkonu sina fyrir brúðkaup. En þar sem þær baða sig í tjörn og hlaupa svo um skóginn eru þær auðvitað líka skógardísir. Svo kemur risastór vöruflutningabíll og keyrir fram hjá á hraðbrautinni rétt hjá. Sem annað dæmi mætti taka söguna af ungu stúlkunni sem var of freknótt. Hún var óskaplega sorgmædd yfir því. En svo komst hún til þess þroska, að henni bar að auglýsa að hún þyrfti á kærasta að halda. Þá býður siðurinn þessum stúlkum að fara um þorpið með risastóran lúður, og blása. Það er svolítið vandræðalegt mál, en ungu mennirnir veittu lúðrablæstrinum svo sannarlega athygli. Ég var sérstaklega hrifinn af myndinni, og öllu sem í henni var sýnt, stóru og smáu. Líka húsunum, klæðnaðinum, búskapnum.Ég vil þakka kærlega fyrir tækifærið að sjá þessa einstöku kvikmynd, en sýningin mun vera í boði Rússa.Leikstjórinn er Alexey Fedorchenko, og myndin var frumsýnd 2012. Enski titillinn er “Celestial Wives of the Meadow Mari.”

[Á þessum tengli hér má sjá stiklu úr þessari mynd.]