Hlífum börnunum

[Þessa færslu skrifaði ég sem stöðufærslu á facebooksíðu mína fimmtudagskvöldið 5. ágúst 2021.]

Tæplega 60 þúsund börn eru 16 ára eða yngri í landinu. Þau eru langflest óbólusett. Þá eru rúmlega 26 þúsund manns í landinu sem eru eldri en 16 ára og óbólusett. Samtals er þetta um 86 þúsund manns sem geta farið illa út úr kóvid. Talað er um að sjúkdómurinn virki vægar á börn, en þetta er ekki vitað til fulls.

Reynsla af sjúkdómnum er um 20 mánuðir samtals. Af því leiðir að það er ekki vitað hver langtímaáhrif af “vægri” sýkingu eru. Ég vil að við leggjum okkur fram um að vernda börnin og hina óbólusettu. Til þess er til einföld aðferð, sem hefði átt að grípa til miklu fyrr. Hún er sú að viðhafa mjög stranga smitgát á landamærum. Næstu misserin. Ekkert að slaka og herða á víxl, heldur stranga smitgát næstu misserin. Smám saman fæst meiri reynsla og þekking á kóvid. Það þýðir að seinna munum við vita betur við hvað er að eiga og hvað er í hættu. Verndum börnin, verndum framtíðina. Efnahagslega er líka miklu betra fyrir samfélagið að það geti gengið sinn vanagang án þess að allir séu á taugum og með grímur fyrir andlitinu. Strangar sóttvarnir, og strangar aðgerðir strax, þá næst stjórn á faraldrinum. Stranga smitgát á landamærum strax, og til frambúðar. Þá verður framtíðin björt, og miklu bjartari fyrir öll börnin í landinu.