Guðmundur Örn Flosason. Minning.

[Minningargreinin birtist í Morgunblaðinu á útfarardag Guðmundar, 3. mars 2022, sjá. Hér er hún ofurlítið breytt. Hér fylgja með greininni fáeinar myndir sem ég tók í veiðiferð sem við fórum, gamlir skólafélagar, fyrir nokkrum árum.]

Vinátta sem myndast á unglingsárum varir stundum ævilangt. Slík vinátta getur verið jafn djúp þótt samskiptin minnki með árunum. Þannig var vinskapur okkar Guðmundar Arnar Flosasonar.

Guðmundur Örn (t. v.) og Kristján Davíðsson (t. h.) á góðri stund á leið í veiðitúr í Eystri Rangá. 4. sept. 2016.

            Hann var einn litríkasti skólabróðir minn í menntaskóla. Við vorum samt aðeins skólabræður í einn vetur. Þetta var í fyrsta bekk í Menntaskólanum á Ísafirði. Við bjuggum á heimavistinni ásamt öðrum ungmennum. Þetta var skemmtilegur vetur með fjörugu og lífsglöðu fólki. Samt færði ég mig um set eftir þennan vetur og lauk menntaskólanámi í Reykjavík. Guðmundur lauk sínu menntaskólanámi á Ísafirði. Eftir þennan vetur vorum við Guðmundur öðru hvoru í sambandi, þó að oft liði langur tími á milli.

            Guðmundur skar sig strax úr í fjörlegum nemendahópinum. Hann var óvenjulegur meðal annars vegna þess hve snöggur hann var til svars og vel hann svaraði fyrir sig. Hann gat líka verið fyndinn. Svo var hann óvenju hraðmæltur, þannig að maður gat þurft að hafa sig allan við að fylgjast með því sem hann sagði, til að missa ekki af neinu, líka vegna þess að það sem hann sagði var oft óvænt og birti nýja sýn á málin. Það gat verið gaman að hlusta á hann segja frá hugðarefnum sínum, til dæmis hafði hann sérlega þroskaðan tónlistarsmekk og tjáði skoðanir sínar um þau efni á afgerandi og oft aðdáunarverðan hátt. Þegar maður var einhvers staðar með Guðmundi hlustaði maður oftast vel á það sem hann hafði til málanna að leggja.

            En kannski var annað einkenni á Guðmundi sem olli því að manni þótti strax vænt um hann. Guðmundur var nefnilega í senn bæði töffari og harðjaxl og um leið viðkvæmur maður sem var furðu ófeiminn að viðurkenna veikleika sína. Við hinir vorum líklega flestir ragari við að viðurkenna veikleika okkar, bæði fyrir sjálfum okkur og öðrum.

            Þessa hlið sýndi Guðmundur af sér alla þá tíð sem við þekktumst og vakti mig oft til umhugsunar með því.

            Sumt fólk sem maður kynnist vel á lífsleiðinni hefur til að bera einhverja eiginleika sem maður getur verið að læra af og dást að áratugum saman, þrátt fyrir að maður sjái þessa aðdáunarverðu eiginleika kannski sjaldnast nema við hversdagslegar aðstæður. Þannig voru kynni mín af Guðmundi.

            Fyrir fáeinum árum fékk ég að fara með þeim skólabræðrum mínum frá Ísafirði, Guðmundi og Kristjáni Davíðssyni, í laxveiði í Eystri Rangá. Þetta er í eina skiptið sem ég hef reynt að veiða lax. Við gistum í sumarhúsi Kristjáns en Guðmundur hafði lagt til nesti. Gaman var þegar Guðmundur dró veitingar upp úr pússi sínu, þar á meðal sérlagað rækjusalat. Guðmundur var góður kokkur og hafði afdráttarlausar skoðanir á slíkum efnum ekki síður en tónlist og kunni að búa til rækjusalat eins og það á að vera.

Hugað að veiðistönginni. 4. sept. 2016.

            Veiðin gekk ekki vel hjá okkur, þó að þessir tveir væru alvanir laxveiðimenn. Það kom ekki á óvart að Guðmundur væri mikill keppnismaður í laxveiði eins og í öðru. Og honum tókst á endanum að verða aflakóngurinn í leiðangrinum með því að veiða eina laxinn sem við náðum. Mitt framlag í málinu var að grípa fiskiháfinn og beita honum með góðri leiðsögn veiðimannsins þegar kom að því að landa aflanum.

Við veiðar. 5. sept. 2016.

            Þegar við vorum að pakka saman veiðigræjum og aflanum til að fara heim kom svolítil rigning en sólin skein um leið. Þá sá ég að það voru tveir regnbogar á himni skammt frá okkur og ég tók mynd af þeim.

Regnbogar birtust þegar við vorum að fara. 5. sept. 2016

            Rétt áður en kóvid farsóttin fór að herja á landsmenn hittumst við nokkrir skólafélagar á kaffihúsi og ætluðum svo að halda áfram að hittast þannig öðru hvoru til að ræða málin. Því miður truflaði farsóttin illa þau áform. Á dögunum hringdi svo okkar sameiginlegi vinur, Kristján Davíðsson, í mig og sagði mér að Guðmundur hafi farið skyndilega á sjúkrahús daginn áður og væri nú dáinn. Þetta voru sannarlega óvæntar og sorglegar fréttir. Ég vil senda ástvinum Guðmundar, eiginkonu, börnum, barnabörnum, móður og systkinum innilegar samúðarkveðjur. 

~ ~ ~