[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni þann 20. apríl 2021. Hún birtist þar svona.]
Eitt helsta sérkenni Íslendinga er að þeir eru almennt læsir á átta til níu hundruð ára gamlan þjóðlegan bókmenntaarf. Slíkt er óvenjulegt, sem sést best á því að ekki er viðlit fyrir almenning í helstu nágrannalöndum okkar að lesa ámóta gamlar fornbókmenntir sínar. Það er raunar hreint ekki sjálfgefið að nágrannaþjóðir okkar eigi svo gamlar bókmenntir.
Það var þess vegna vel til fundið hjá Alþingi að tryggja að Íslendinga-sögurnar væru gefnar aftur út. Tilefnið var gott: hundrað ára afmæli viðurkenningar Dana á fullveldi Íslendinga.
Sannleikurinn er nefnilega sá að um langt árabil voru alþýðlegar heildarútgáfur Íslendingasagnanna uppseldar í landinu. Síðasta slíka útgáfa Íslendingasagnanna var kennd við bókaforlagið Svart á hvítu. Hún kom út árið 1987 en Mál og menning gaf hana aftur út árið 1998 eftir að Svart á hvítu hafði lagt upp laupana. Ég veit ekki fyrir víst hvenær sú útgáfa varð uppseld hjá forlaginu en eftir að hún varð uppseld var í allmörg ár engin alþýðleg heildarútgáfa á Íslendingasögunum til sölu í landinu, nema þá í fornbókabúðum.
Að vísu er ekki hægt að neita því að almenningi hefur auðvitað staðið til boða að kaupa heildarútgáfu Íslendingasagnanna á ensku í íslenskum bókabúðum allt frá árinu 1997 og á dönsku, norsku og sænsku eftir að þær komu út á þeim málum árið 2014. Þessar útgáfur eru mjög fínar og eru einmitt byggðar á fyrrnefndri útgáfu Svarts á hvítu.
Og svo má ekki gleyma því að hin frábæra útgáfa Fornritafélagsins á Íslendingasögunum hefur aldrei verið uppseld. Í þeirri útgáfu eru Íslendingasögurnar gefnar út í fjórtán bindum. Þetta er fræðileg útgáfa sagnanna og hún er með sérsniðinni stafsetningu sem mörgum finnst framandi, svonefndri „samræmdri stafsetningu fornri“. Það er allt öðru vísi stafsetning en við eigum að venjast í landinu nú á dögum. Fyrsta bókin sem kom út í þessari ritröð var Egilssaga, en hún kom út árið 1933 í ritstjórn Sigurðar Nordals.
Útgáfa Fornritafélagsins er komin til ára sinna og hún tekur auk þess drjúgt pláss í bókaskápnum. Hún er einnig töluvert dýrari en þessi nýja fimm binda heildarútgáfa sagnanna. Þótt frábær sé kemur Fornritafélagsútgáfan því alls ekki í staðinn fyrir þessa nýju útgáfu á bókunum sem kom út nú í sumar.
Til gamans er hér upphaf Egilssögu, í tveimur útgáfum, þ.e.a.s. í útgáfu Árnasafns í Kaupmannahöfn (textinn er fenginn úr handritinu Möðruvallabók, AM 132 fol., sem talið er að hafi verið skrifað á miðri fjórtándu öld og er aðgengilegt á vefnum hér[1]) og útgáfu Sigurðar Nordals fyrir Fornritafélagið.
Möðruvallabók – um 1350 og 2001 (þegar leyst hefur verið úr böndum):
„Ulfr het maðr son Bialfa ok Hallberu dottur Vlfs hins oarga. hon var systir Hallbiarnar halftrollz i Rafnistu foður Ketils hægs. Vlfr var maðr sua mikill ok sterkr at eigi voro hans iafningiar. En er hann var a vnga alldri. la hann i vikingu ok heriadi.“[2]
Fornritafélagsútgáfan – 1933 (samræmd stafsetning forn):
„Úlfr hét maðr, sonr Bjálfa ok Hallberu, dóttur Úlfs ins óarga; hon var systir Hallbjarnar hálftrolls í Hrafnistu, fǫður Ketils hœngs. Úlfr var maðr svá mikill ok sterkr, at eigi váru hans jafningjar; en er hann var á unga aldri, lá hann í víkingu ok herjaði.“[3]
Eins og sjá má er vel unnt að lesa báða þessa texta og kannski á unga fólkið sem vant er skammstöfunum og sérkennilegri stafsetningu í raftækjum sínum auðveldara með það en fullorðnir. En stafsetningin er vissulega gamaldags í báðum þessum útgáfum. Þess vegna finnst fólki æskilegt að fá þessi rit með nútímalegum frágangi.
Og víkur þá sögunni að Alþingi. Í aðdraganda þess hátíðarárs sem nú stendur yfir bar Alþingi gæfu til þess að leita eftir samstarfi við Jóhann Sigurðsson, bókaútgefanda, til að gefa sögurnar nú út í vandaðri íslenskri útgáfu. Það var einmitt hann sem gaf þessi rit út í heildarútgáfu á ensku árið 1997 og á norðurlandamálunum þremur árið 2014.[4]
Bækurnar komu út nú í sumar. Þær eru ljómandi fallegar. Þetta er fimm binda ritsafn, um það bil 5 – 600 blaðsíður hvert bindi. Sá háttur er hafður á að sögurnar eru flokkaðar í tvo flokka og fimm undirflokka. Meginflokkarnir tveir eru ævisögur og deilusögur. Ævisögunum er skipt í skáldasögur, útlagasögur og kappasögur. Þær eru allar auk Njálu birtar í fyrstu þremur bindum ritsafnsins. Deilusögunum er skipt í héraðsdeilusögur og sögur um auð og völd, og þær eru birtar í fjórða og fimmta bindi ritsafnsins.
Bækurnar eru bundnar inn í falleg blá spjöld. Utan um þær er fallegur kassi til hlífðar og blár borði auðveldar manni að draga einstakar bækur út úr kassanum. Þær eru prentaðar á góðan pappír og saumaðar í kjölinn. Þá eru þær myndskreyttar með fallegum myndum eftir dönsku listakonuna Karin Birgitte Lund. Allur efnislegur frágangur er til fyrirmyndar.
Þá má ekki gleyma því að í fyrsta bindinu stórfróðlegir og vel skrifaðir formálar eftir ritstjórana, og í síðasta bindinu má sjá vönduð kort yfir söguslóðir, efnislykil yfir allar sögurnar, orðskýringar og nafnaskrá. Allt er þetta ítarefni að sjá mjög vandað og gott.
Þessi útgáfa er byggð á útgáfu Svarts á hvítu á Íslendingasögum og þáttum frá árinu 1987. Ritstjórar þeirrar útgáfu voru þeir Bragi Halldórsson, Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson, en þegar unnið var að þessari afmælisútgáfu bættist Aðalsteinn Eyþórsson í ritstjórahópinn. Gísli Sigurðsson var útgáfustjóri en Sigurður heitinn Svavarsson framleiðslustjóri.
Svona birtist upphaf Egilssögu í þessari nýju útgáfu (2018):
„Úlfur hét maður, son Bjálfa og Hallberu, dóttur Úlfs hins óarga. Hún var systir Hallbjarnar hálftrölls í Hrafnistu, föður Ketils hængs. Úlfur var maður svo mikill og sterkur að eigi voru hans jafningjar. En er hann var á unga aldri lá hann í víkingu og herjaði.“[5]
Þessi texti er eins og sjá má læsilegastur þeirra allra frá nútímalegu sjónarmiði. Ástæða er til að hvetja alla sem ekki eiga nú þegar góða útgáfu af Íslendingasögunum í bókahillum sínum til að bæta úr því. Þessi fallega útgáfa af sögunum er góð viðbót í bókaskápinn.
– – –
[1] Möðruvallabók er aðgengileg á vefnum á slóðinni https://handrit.is/ og á slóðinni http://digitalesamlinger.hum.ku.dk/Home/Samlingerne/2
[2] Egils saga Skallagrímssonar. Bind 1. A-Redaktionen. Udgivet af Bjarni Einarsson. Editiones Arnamagnæanæ, Series A, vol. 19. Kaupmannahöfn, 2001. Bls. 3. Athugið að útgefandi bókarinnar, Bjarni Einarsson, hefur hér leyst úr böndum, sem kallað er, eða m.ö.o. leyst úr skammstöfunum, en skammstafanir voru talsvert notaðar í handritunum til að spara bókfellið.
[3] Egils saga Skalla-Grímssonar. Sigurður Nordal gaf út. Hið Íslenzka fornritafélag. Reykjavík, 1933. Bls. 3.
[4] Rétt er að láta þess getið, í anda gagnsæis, að Jóhann Sigurðsson er gamall vinur minn.
[5] Egils saga Skallagrímssonar. Íslendingasögur – Íslendingaþættir. 1. bindi, bls. 3. Saga forlag. Reykjavík 2018.