[Þessi færsla birtist fyrst á facebook 4. maí 2023.]
Ég sagði frá því hér í gær, að gamla Seiko úrið mitt (framleitt í nóvember 1984) hefði verið dæmt ónýtt af nýjum umboðsaðila Seiko hér á landi, enda fengist nauðsynlegur varahlutur í það ekki lengur hjá verksmiðjunum.
Í framhaldi fékk ég fjölmörg góð ráð frá góðum vinum og kunningjum hér á feisinu. Sú ráðgjöf leiddi til þess að í stað þess að kaupa nýtt úr eins og ég var farinn að hugsa um að gera, hringdi ég í Gilbert úrsmið til að fá hjá honum góð ráð. Hann sagðist eiga dálítið af varahlutum í gömul Seiko-úr. Þegar ég kom til hans á Laugaveginn nú eftir hádegið hafði hann skjót handtök. Úrsmiðsgleraugun voru strax komin fyrir annað augað og hann settist með úrið við vinnuborð sitt bakatil. Ég hafði rétt ráðrúm til að virða svolítið fyrir mér hin glæsilegu úr sem hann selur í búðinni, en sum þeirra framleiðir hann sjálfur. Gilbert kallaði svo fram til mín að vandinn væri minni en ég hafði sagt honum og hann hefði fundið varahlut sem dygði uppi í hillu. Augnabliki seinna kom hann svo fram og rétti mér úrið rétt stillt og viðgert. Hann hafði líka sett nýja rafhlöðu í það. Viðgerðin kostaði lítið meira en venjuleg rafhlöðuskipti. Gilbert sagði mér að hann hefði aldrei fengist við annað en úra- og klukkuviðgerðir og liti ekki á það sem vinnu. Hann var alveg til í að ég tæki af honum símamynd eftir þessi ánægjulegu viðskipti. Ég mátti birta hana hér þótt hann sjálfur sé ekki á facebook.
(PS, 7/5. Lagaði frásögnina aðeins og gerði nákvæmari á einum stað.)