[Þessi færsla var fyrst birt á facebook 3. maí 2023.]
Ég held að pabbi minn hafi gefið mér Seiko úrið árið 1986, en það gat eins verið árinu fyrr eða síðar.
Pabbi vann á Grænlandi, hafði gleymt úri sínu heima og keypti nýtt á flugvellinum á Grænlandi, nema það hafi verið í Kaupmannahöfn. Þegar hann kom heim til Íslands næst fékk hann gamla úrið sitt aftur. Þá tók hann þetta nýja úr af sér og rétti mér. Ég hef gengið með það daglega við úlnlið vinstri handar eftir það. En í gær var úrið úrskurðað ónýtt. Ég get ekki sagt að ég taki þetta mjög nærri mér, en hef samt verið hugsi yfir þessu eftir að úrsmiðurinn góði í Michelsen sagði mér, eftir nokkra athugun og uppflettingar í tölvu, að nauðsynlegur varahlutur í úrið væri ekki til hjá verksmiðjunum. Eitt mikilvægt stykki er úr bæði plasti og stáli, einhver grind sem heldur úrverkinu saman. Plastið í þessu stykki var orðið stökkt í gömlu úrinu. Ég var svo hugsi yfir þessu að ég lagðist í grúsk í gærkvöldi og komst að því að úrið var framleitt í nóvembermánuði 1984. Það virðist ekki vera góð lausn að leita uppi annað svona úr og fá úrsmiðinn góða til að nota grindina úr því gamla úri til að gera við úrið mitt, því plastið er vísast álíka stökkt í öðrum gömlum Seiko úrum sem eru með þessu sama sniði.