Fyrsta bloggið á Stundinni

[Þessi grein birtist áður á Stundinni 8. júní 2015. Hér er tengill á hana á upphaflegum stað: ]

Þetta er fyrsta bloggið mitt á Stundinni. Það má því spyrja: hvað gengur höfundi til? Ég hef lítið gert af því að blogga til þessa. Ég bjó til lítið blogg fyrir fáeinum árum, þegar ég bauð mig fram til Stjórnlagaþings ásamt rúmlega fimmhundruð öðrum frambjóðendum. Ég hætti svo að blogga eftir að úrslit lágu fyrir. Ég hef líka stöku sinnum sinnum skrifað smágreinar í blöðin. En hvers vegna blogg?

Áður en ég svara því vil ég nefna annað. Tæknin nær til okkar allra og breytingar á tækni hafa áhrif út um allt. Tæknibreytingar hafa með einum eða öðrum hætti áhrif á bæði nýjungagjarna og íhaldssama.

Tvö dæmi. Fólk sem hefur mestu skömm á tölvum og alnetinu hefur mátt þola það að afgreiðsla í bönkum og stofnunum fer nú að talsverðu leyti fram fyrir milligöngu nets eða hraðbanka og netbanka. Fólk sem hefur gert við bílinn sinn sjálft er farið að standa frammi fyrir auknum erfiðleikum við slíkt, því sjálfir bílarnir eru nú smíðaðir með það fyrir augum að þeir fari í viðgerð á tölvuvædd verkstæði þar sem bilanir eru lesnar af örgjörvum bílanna. Það er meira að segja ekki útilokað að það gæti orðið ólöglegt að brasa við að gera sjálfur við bílinn sinn eftir nokkur ár.

Ein mikilvægasta ástæða þess að tæknibreytingar hafa áhrif á alla er sú að menn eru að jafnaði hagsýnir. Tæknibreytingar felast mjög oft í því að breyta þeim kostnaði sem fylgir því fyrir hvern og einn að ná markmiðum sínum. Það sem einu sinni kostaði klukkustundar vinnu, kostar kannski hálftíma vinnu núna; til þess að gera eitthvað eitt núna þarf kannski að fórna meiru en áður, en til að gera annað, þarf að fórna minnu en áður.

Annað orðalag yfir þetta er að tæknibreytingar valda því að kostnaðarhlutföll breytast. Þar með breytist það hvort tveggja í senn hvaða verkefnum er vænlegt að sinna og hvernig staðið er að vinna þau verkefni sem sinnt er. Sumt verður úrelt, annað kemur í staðinn. Hvort sem okkur líkar betur eða verr hafa tæknibreytingar áhrif á það hvernig við högum lífi okkar.

Ég hef orð á þessu vegna þess að ég ætlaði að skýra af hverju ég er að fara að blogga hér á Stundinni. Það má kalla það tæknibreytingu í mínu lífi. Til þessa hef ég einstöku sinnum skrifað smágrein í blöðin þegar ég talið mig hafa eitthvað mikilvægt fram að færa. Ótal sinnum hef ég ekki skrifað slíkar greinar, þótt mér hafi fundist tilefni til. Fyrir því hafa verið ýmsar ástæður, sumar þeirra tengjast því meðal annars að mig langar ekki til að vera „hann þessi“ í blöðunum, sem sífellt er að skrifa um mál sem hann hefur ekki vit á.

Það má segja að það sé nokkuð hátíðlegt að skrifa greinar í blöðin. Ég held að það megi tala um vissan virðingarstiga í opinberri umræðu, allt frá sakleysislegum status á feisbók, til bloggs, til dagblaðsgreina eða annarra hefðbundinna fjölmiðla, og loks til ritrýndra greina í tímaritum og bóka eða félagslegra aðgerða til dæmis í stjórnmálaflokkum.

Og það er eftirtektarvert sem stórgreind vinkona mín sagði við mig um daginn, þegar ég var eitthvað að tala um að ég hefði í hyggju að fara að blogga. Hún sagði: „Já, þá geturðu tengt bloggið inn á feisbókarsíðuna þína. Það er betra. Maður hefur á vissan hátt svigrúm til að segja meira á feisbók ef maður hefur bloggað um það.“ Ég held að þetta sé alveg rétt hjá vinkonu minni. Og þetta tengist virðingarstiganum í umræðunni.

Eftir samtalið við vinkonu mína fór ég að hugsa um þennan virðingarstiga. Mér sýnist að hann sé raunverulegur og fyrir honum standi sterk rök. Staðreyndin er sú, að þegar við lesum texta erum við að fórna tíma okkar. Við verjum tíma okkar til lestursins. Og tími okkar er það verðmætasta sem við eigum. Ef við verjum tíma okkar til lesturs á annað borð er því eins gott að við verjum honum til lesturs á efni sem vekur áhuga okkar, heldur honum vakandi og skiptir máli. Við viljum ekki láta fara illa með tíma okkar. Þegar við lesum vanhugsaða grein hefur verið farið illa með tíma okkar.

Virðingarstiginn felst í því, að það er búið að tryggja að sumt efni standist vissar kröfur. Það efni sem birt er í Tímariti Máls og menningar til dæmis, eða Skírni, hefur verið skoðað og metið. Það sem birtist í dagblöðunum hefur verið lesið yfir af ritstjórn. Þess vegna er þess háttar efni hærra í virðingarstiganum en blogg eða statusar á feisbók.

Það mælir margt á móti því að blogga, en það mælir líka margt með því. Blogg er einskonar dagbók. Eitt af því sem mælir á móti bloggi er að það er gjarna vanhugsað og lýsir ómótuðum og vanþroskuðum hugmyndum sem stundum eru auk þess beinlínis slæmar. Það virðist sannarlega vera mikið af slíku í samtímanum og óþarft að bæta við. Á hinn bóginn getur blogg falið í sér þátttöku í samfélagsumræðunni. Og umræðan í samfélaginu er á vissan hátt grundvöllur þess. Nú á dögum fer umræðan auðvitað fram á bloggi og samfélagsmiðlum auk þess að fara fram á hefðbundnum vettvangi hinna gömlu og góðu miðla okkar.

Ég hef í hyggju að blogga hér stöku sinnum um hugðarefni mín, svo sem samfélagsmál, menningarmál, náttúruvernd og ef til vill eitthvað fleira.

                                                ~         ~         ~