Framfarir í sorphirðumálum

[Þessi færsla birtist fyrst á facebook þann 13. ágúst 2023.]

Eitt af því sem hefur glatt mig undanfarið eru framfarir sem nú eiga sér stað í sorphirðumálum á höfuðborgarsvæðinu. Mold og jarðvegur eru ein mikilvægasta auðlind jarðarbúa, enda spretta matvælin með einum eða öðrum hætti af mold og jarðvegi, sem fær að njóta sólar, vætu og frjósamra fræja. Það eru áratugir síðan það fór að fara ósegjanlega í taugarnar á mér að geta ekki á handhægan hátt losnað við lífrænt sorp með þeim hætti að úr því yrði mold á ný, eins og eðlilegt er að gerist.

Ég gerði tilraun til slíkrar sorpflokkunar fyrir um þremur áratugum, en lenti yfirleitt í bobba þegar kom að því að losna við lífræna sorpið, sem þá hafði legið í sérstakri tunnu við húsið mitt í nokkrar vikur. Á endanum gafst ég upp á þessu brasi og allt sorp á heimilinu fór að safnast aftur í einhvern ógeðslegan hrærigraut í ruslafötunni. En nú er runnin upp betri tíð. Ég er búinn að losa mig við tvo eða þrjá bréfpoka með lífrænu sorpi út í sérstakar tunnur á um það bil einni viku eða rúmlega það. Þessu fylgir betri samviska. Auðvitað hefur þessi nýbreytni ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Hver gat búist við slíku, eftir fréttirnar af því hvernig gekk með Gaju, dýra og fína sorpflokkunar- og jarðgerðarhúsið, fyrir fáeinum árum? En þó að byrjunin gangi ofurlítið stirðlega fyrir sig, skulum við öll fagna þessum framförum. Ég læt fylgja hér mynd sem ég tók af sorptunnum fjölbýlisshússins í gærkvöldi eða fyrrakvöld, og svo aðra sem ég tók fyrir svo sem viku síðan.