[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni þann 30. desember 2020. Hún birtist þar svona. ]
Margir hafa velt því fyrir sér, af hverju Bandaríkjaforseti gangi svo langt í lygaáróðri þessa dagana og af hverju hann geti ekki viðurkennt að hafa tapað í kosningunum. Af hverju hann grafi enn undan nýkjörnum væntanlegum forseta ríkisins og standi enn í klækjabrögðum til að ræna völdunum, löngu eftir að útséð er, að hann hafi tapað í kosningunum og geti engu lengur um það breytt. En þrátt fyrir þetta er staðreyndin sú að Bandaríkjaforseti stendur enn í kærum og málatilbúnaði fyrir hæstarétti Bandaríkjanna, og fer nú, með milligöngu stuðningsmanna sinna, fram á að kosningar í Wisconsin fylki verði gerðar ógildar. Fari svo ólíklega að hæstiréttur fallist á þetta á allra næstu dögum, treystir forsetinn á flokksmenn sína á ríkisþingi Wisconsin að þeir breyti úrslitunum. Þetta ætti þó að duga skammt, því kjörmenn Wisconsin eru einungis 10. Flestir sem vit hafa á telja þetta vonlausa baráttu hjá forsetanum. En hann heldur áfram að reyna og treystir nú á varaforseta sinn, Mike Pence. Varaforsetinn stjórnar lögum samkvæmt formlegri athöfn á bandaríkjaþingi sem fram fer 6. janúar í kjölfar kosninga á fjögurra ára fresti. Í þessari athöfn staðfestir þingið jafnan úrslit nýafstaðinna forsetakosninga. En ekki er vitað hvað Mike Pence mun gera við þetta tækifæri, eða hvort þingdeildirnar tvær þurfi að halda sérstaka og afar óvenjulega fundi í framhaldinu og taka þar ákvarðanir sem lúta að kjöri forseta, og hvor verði forseti, Donald Trump eða Joe Biden.
Fyrir tuttugu árum stjórnaði demókratinn Al Gore sem þá var varaforseti slíkri athöfn, en hann hafði tapað í sögulegum kosningum fyrir George Bush yngri. Hæstiréttur landsins kvað upp umdeildan úrskurð sem batt enda á talningu atkvæða í Flórida, og þar með var sú niðurstaða í höfn, strax í desember 2000, að Bush yngri yrði forseti, en þarna munaði aðeins úrslitunum í Flórida og raunar aðeins örfáum atkvæðum, um 540 ef ég man rétt. Nauðsynlegt virtist að telja betur. En rétturinn bannaði það. Al Gore hafði fengið miklu fleiri atkvæði á landsvísu. Al Gore stjórnaði staðfestingarathöfninni í kjölfarið óaðfinnanlega og lýsti kjöri Bush yngri. Þetta gerði hann þrátt fyrir að inntak athafnarinnar væri að svipta hann sjálfan möguleikanum á því að ná því takmarki sem hafði verið hans stærsti draumur og metnaður alla ævi. Í lýðræðisríkjum verður fólk að bera virðingu fyrir lýðræðinu, eigi það að blómstra. Al Gore bar virðingu fyrir lýðræðinu og reyndi ekki að svindla, datt það líklega ekki í hug. En hvað vakir fyrir hinum brögðótta Bandaríkjaforseta núna?
Ég hef tilgátu um það, sem byggist á því að Donald Trump viti, að hann geti ekki rænt völdunum og þar með breytt Bandaríkjunum úr lýðræðisríki í nánast fasískt ríki. En það er að vísu erfitt að gera ráð fyrir viti og skynsemi í fari þessa óútreiknanlega manns. Flestir kunnáttumenn um bandarískt stjórnarfar sem ég hef séð fjalla um málið, virðast á einu máli um að Donald Trump muni ekki takast að ræna völdunum. Ef til vill gerir forsetinn sér grein fyrir að það sé rétt. Tilgáta mín er einföld, og hún byggist á því að forsetinn geri sér grein fyrir þessu.
Vitað er að núverandi forseti Bandaríkjanna á ýmislegt vantalað við réttvísina þegar forsetatíð hans lýkur, og það þó að hann kunni að reyna að náða sjálfan sig fyrirfram, eins og hann hefur velt fyrir sér að gera.*) Ástæðan er sú að náðunarvald forsetans, þótt víðtækt sé, nær ekki til einstakra ríkja. Í að minnsta kosti einu þessara ríkja, í New York fylki, eru duglegir saksóknarar að rannsaka ýmis meint sakamál forsetans.
Þá blasir við að margt stuðningsfólk forsetans er bæði herskátt og óupplýst. Þá hefur honum tekist að sannfæra stóran hluta stuðningsmanna sinna um að svik hafi verið í tafli í kosningunum. Þar skiptir engu að eftirlitsstofnanir Bandaríkjanna hafa kveðið upp úr um að kosningarnar hafi gengið einstaklega vel,**) og dómstólar hafi vísað öllum málum forsetans frá, í mörgum tilvikum með úrskurði upp á örfáar setningar.***) Slík afgreiðsla dómstóla á kærum og klögumálum bendir eindregið til þess að þeir sem klaga fyrir dómstólunum hafi lélegan málstað. En allt þetta gildir samt einu. Stuðningsmenn forsetans heyra líklega ekkert af þessu, og ef þeir heyra það afgreiða þeir það líklega sem ósannindi, beri þeir eitthvert traust til dómstólanna á annað borð.
Og þar kemur að skýringunni á því, að forsetinn hagar sér svo undarlega núna.
Ef við gerum ráð fyrir að forsetinn sé með nægilega fullu viti til að gera sér grein fyrir að tilraunir hans til valdaráns séu vonlausar (og gerum um leið ráð fyrir að þær séu í rauninni vonlausar, eins og þær virðast vera og eru vonandi), finnst mér líklegast að hann hagi sér svona til þess að gera næstu ríkisstjórn erfiðara um vik að leyfa réttvísinni að hafa sinn gang. Ef milljónir manna líta svo á að svik hafi verið í tafli í kosningunum megi búast við óeirðum verði forsetinn fyrrverandi dreginn fyrir rétt. Það verði því ef til vill pólitískt heppilegra að leyfa honum að sleppa. Ef til vill er forsetinn að veðja á þetta.
Enginn veit hvernig þetta allt saman fer. En eitt er víst. Það virðist ekki skipta Donald Trump neinu máli þó að hann skaði samfélagið sem treysti honum fyrir forsetaembættinu. Hætta á mannskæðum óeirðum af tilefnislausu virðist engu skipta – svo lengi sem það henti honum sjálfum betur að beita slíkum óheiðarlegum aðferðum heldur en að koma fram eins og eðlilegir stjórnmálamenn sem hafa tapað í kosningum gera. Slíkir stjórnmálamenn viðurkenna ósigur sinn og óska sigurvegaranum velfarnaðar í starfi, líkt og Hillary Clinton gerði síðast þegar kosið var, fyrir rúmum fjórum árum.
* * *
*) Það má nefna að hæstiréttur Bandaríkjanna lítur svo á að þegar borgarar ríkisins þiggja náðun frá forsetanum, viðurkenni þeir sekt sína. Þegar menn ræða við lögfræðinga um hvort það sé ekki heppilegast fyrir þá að taka upp á þeirri nýbreytni að náða sjálfa sig, virðist það benda til að þeir viti upp á sig einhverja sök. Því má bæta við að hugsanleg sjálfsnáðun forsetans er af flestum talin verða ólögleg og ógild verði hún reynd.
**) Um þetta efni má sjá yfirlýsingu kosningaeftirlitsstofnunar Bandaríkjanna, á þessari vefslóð:
***) Síðast þegar ég vissi hafði framboð Trumps eða fylgismenn farið með 50 mál fyrir dómstóla án minnsta árangurs.
Myndin sem fylgir greininni er fengin af wikimedia commons:
[[File:Thanksgiving Video Conference Call with Military Service Personnel (50664501488).jpg|Thanksgiving_Video_Conference_Call_with_Military_Service_Personnel_(50664501488)]]
Description | President Donald J. Trump speaks with reporters following his conversations with military service personnel Thursday, Nov. 26, 2020, during a Thanksgiving video conference call from the Diplomatic Reception Room of the White House. (Official White House Photo by Shealah Craighead) |
Date | 26 November 2020, 17:19 |
Source | Thanksgiving Video Conference Call with Military Service Personnel |
Author | The White House from Washington, DC |