[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni þriðjudaginn 18. ágúst 2020. Hún birtist þar svona.]
Svo virðist sem ýmsir landsmenn sjái nú ofsjónum yfir því, að fólk sem hingað kemur frá útlöndum þurfi að vera í sóttkví í fimm daga við komu landsins, og gefa lífsýni við komu og við lok fimm daga tímabilsins. Það er engu líkara en að þetta fólk haldi að það sé hægt að skipa veirunni að halda sér frá landinu, eða að það haldi að læknarnir kunni að lækna allar meinsemdir sem hún kann að valda. En það er öðru nær: Veiran virðir engin landamæri.
Læknavísindin eru rétt að byrja að læra á þessa veiru. Það er engin reynsla komin á það, við hverju fólk getur búist í framtíðinni, ef það lifir það af að hafa haft náin kynni af þessari veiru. Sem betur fer hafa ekki „nema“ um það bil 1 af hverjum 200 sem smitast hafa af veirunni hér á landi dáið til þessa. En margir sem hafa smitast berjast enn við undarleg eftirköst sem enginn skilur. Loks má nefna að ef veiran nær sér vel á strik í landinu er alls ekki víst að sjúkrahúsin verði starfhæf lengi. Til þessa má kannski segja að það hafi gengið vel. Samt var það svo að vikum saman var yfirlýst hættustig á Landspítalanum vegna farsóttarinnar.
Íslendingar eru svo lánsamir að stjórnvöld í landinu hafa hlustað allvel á sérfræðinga sem vit hafa á þessum hlutum. Ekki verður betur séð en helstu fræðin um afleiðingar þessarar farsóttar í mannlífinu séu annars vegar læknavísindin og hins vegar hagvísindin. Og nú vill svo einstaklega heppilega til að þessum vísindagreinum ber saman um hver heppilegustu viðbrögðin við farsóttinni eru. Besta lausnin frá lýðheilsulegu sjónarmiði er jafnframt sú lausn sem virðist vera efnahagslega hagkvæmust. Þessi lausn er að verja landið mjög vel fyrir því að smit berist inn í landið, og auðvitað helst að gera landið alveg veirufrítt.
Ævinlega þegar við sækjumst eftir einhverjum gæðum, eins og heilsu eða frelsi eða hverju öðru sem hugann lystir, þurfum við að meta hversu langt við ætlum að ganga. Við eigum engan aladínlampa með anda sem uppfyllir allar óskir okkar um leið og við strjúkum lampann og látum óskina í ljós. Við þurfum ævinlega að fórna einhverju ef við viljum fá eitthvað annað eða koma því til leiðar. Við þurfum að minnsta kosti að fórna tíma og athygli til að fá eitt fremur en annað. En í tilviki farsóttarinnar má afar lítið út af bregða. Og þegar lítið sem ekkert má út af bregða, getur þurft að fórna miklu til að koma í veg fyrir að eitthvað bregði út af.
Með vissum rétti má segja, að í tilviki þessarar farsóttar megi ekkert út af bregða. Það þarf nefnilega ekki nema einn félagslyndan einstakling, sem hnerrar mikið og hefur veiruna í sér án þess að vita af því, til þess að farsóttin geti verið komin á fljúgandi ferð, bara örfáum dögum eftir að viðkomandi félagslyndi einstaklingur lenti glaður og reifur í landinu. Og veiran spyr engan áður en hún tekur sér bólfestu í líkama hans og eitrar jafnvel líf hans það sem hann á ólifað eftir það.
Það er auðvitað hrikalegt, þegar fólk hefur haft lifibrauð af ferðamennsku með einum eða öðrum hætti, og þarf að horfast í augu við tekjumissi, atvinnumissi og hugsanlegt gjaldþrot. Þá má hins vegar hugsa til þess að ef farsóttin geisaði hér af fullum krafti myndu hvort sem er fáir vilja koma til landsins. Einnig má nefna að það njóta allir góðs af því að smitast ekki af farsóttinni. Loks má halda því fram að að svo miklu leyti sem farsóttarvarnir kunna að koma með ósanngjörnum hætti niður á fólki úr ólíkum atvinnugreinum, hljóti samfélagið að reyna að hlaupa undir bagga með þeim sem verst verða úti.
Önnur hlið á málinu er sú, að sumt fólk virðist efast um að ríkið hafi „rétt“ til að viðhafa strangar sóttvarnir á landamærunum. Í því samhengi má hins vegar benda á að þar sem farsóttin hefur náð sér á strik hefur hún nánast lamað heil samfélög. Þar má nefna Ítalíu, og New York borg, sem dæmi, en í báðum tilvikum fór mjög illa. Einnig má benda á það að um daginn benti slökkviliðsstjórinn á höfuðborgarsvæðinu á það í fjölmiðlum að farsóttin hefði verulega vond áhrif á viðbragðsgetu slökkviliðsins. En það þarf ekki að hugsa sig lengi um til að sjá fyrir sér hverjar afleiðingarnar gætu orðið, ef það kæmi upp líflegur eldur í miðborginni á sama tíma og margir slökkviliðsmenn væru heima veikir af farsóttinni eða í sóttkví; og raunar er skemmst að minnast mannskæðs eldsvoða í vesturbænum, nú seinnipartinn í júnímánuði. Sá eldsvoði fór hryllilega, en þó brann aðeins eitt hús og slökkviliðið stóð sig það best er vitað vel.
Veiran getur líka haft áhrif á löggæslu, með álíka hætti og hún hefur áhrif á eldvarnir.
Bara þessi örfáu dæmi ættu að sýna, að samanburður á sóttvörnum og venjulegum landvörnum er alls ekki út í hött. Landvarnir í venjulegum skilningi snúast meðal annars um að verjast því að óvinaherir komi inn í landið, slasi fólk og drepi, nauðgi og skemmi og ræni og leggi undir sig landið. Veiran gerir sumt af þessu beint, en sumt getur hún gert óbeint: hún getur líka valdið því að ekki verði unnt að slökkva elda sem kvikna eins og eldar kvikna öðru hvoru í þéttbýli, fyrr en eldurinn hefur eyðilagt svolítið svæði, líkt og sprengjur gera. Og hún getur líka valdið því að ekki sé hægt að halda með fullnægjandi hætti uppi lögum og reglu í samfélaginu.
Íslendingum er ekki tamt að hugsa um landvarnir nema sem farþegar og þiggjendur. En staðreyndin er hins vegar sú, að öll eiginleg og fullgild ríki hafa rétt til landvarna. Íslenska ríkið líka.
Hugsum um þetta svona. Farsóttarvarnir eru landvarnir. Fimm daga sóttkví við komu fólks til landsins getur ekki talist mjög dýr leið til að verja landið í samanburði við kostnaðinn sem óheft innrás veirunnar gæti valdið.