Fallin lauf, nýja myndin eftir Aki Kaurismäki sem nú er sýnd í Bíó Paradís, er alveg bráðfín. Myndin var frumsýnd nú í ár. Hún heitir Kuolleet lehdet á frummálinu og er kölluð Fallen leaves á alþjóðamálinu. Ég er ekki hissa á að þessi mynd hafi fengið mörg verðlaun. Hún fjallar aðallega um þunglyndan og drykkfelldan málmiðnaðarmann í Helsinki sem heitir Holappa og búðarkonuna Önsu (Ansa). Þau missa bæði vinnuna í myndinni og þurfa að takast á við ýmsa erfiðleika.
Þessar persónur eru ekki bráðungar, sem sést á því að leikarinn sem leikur Holappa er hálffimmtugur og leikkonan sem leikur Önsu er rúmlega fertugur. Aðalkarlleikarinn heitir Jussi Vatanen og aðalleikkonan heitir Alma Pöysti. Þau leika bæði framúrskarandi vel. Í upphafi myndarinnar vinnur Holappa með ívið eldri manni sem heitir Huotari og reynist vera góður söngvari. Þeir fara saman á Karaóki stað og Huotari syngur þar eitt lag. Hann syngur lagið eins og dimmraddaður engill. Í framhaldi af þeim söng kynnast þeir félagar tveimur konum, fyrrnefndri Önsu og vinkonu hennar Liisu (ef ég man nafnið rétt). Huotari, sem leikinn er af Janne Hyytiäinen er framfærnari en Holappa vinnufélagi hans og spjallar við Liisu, sem einnig er framfærnari en Ansa vinkona hennar. Huotari reynir strax við Liisu en hún vísar honum samstundis á bug á þeim forsendum að hann sé áreiðanlega orðinn allt of gamall og kominn yfir fimmtugt. Í þessum orðaskiptum gaf Liisa Huotari kost á að framvísa nafnskírteini aldri sínum til sönnunar, en Huotari yppti bara öxlum. Aldur Huotaris skiptir því miklu um það hvort þau tvö ná saman eða ekki. Leikarinn Janne hefur áður leikið í myndum Aki Kaurismäki og er raunar fæddur 1968 og því sjálfur orðinn hálfsextugur.
Holappa er ógæfulegri persóna framan af í myndinni heldur en Ansa. Holappa er drykkfelldur, og honum helst ekki á vinnu. En það er allt í lagi með Önsu. Það er til dæmis alls ekki henni að kenna að hún verður atvinnulaus. Henni gengur líka betur en Holappa í framhaldinu án þess að heppni hafi neitt með það að gera. Við fáum að fylgjast með lífi þeirra tveggja og í söguna blandast svolítið saga þeirra Liisu og hins söngvinna Huotari. Við sögu kemur líka flækingshundur sem er talsvert ótótlegur í upphafi, en verður fyrir því láni að Ansa sér hann og tekur hann að sér.
Þessi kvikmynd er sérlega fallega og skemmtilega gerð. Þar leggst allt á eitt. Elskulega skemmtileg orðaskipti og tilsvör, mjög falleg myndataka og tökustaðir, frábær leikur og handrit.
Ég fór á myndina með yngstu systur minni, Þóru Kristínu nú um helgina og smellti mynd af henni í forsal bíósins til gamans. Ég tók líka mynd af plakatinu fyrir utan bíóið og mæli með því að kvikmyndaunnendur fari og sjái þessa fallegu bíómynd í bíóhúsinu okkar góða, Bíó Paradís.