[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni þann 31. janúar 2020. Hún birtist þar svona.]
Í gærkvöldi lagði ég leið mína eins og svo oft áður í kvikmyndahúsið Bíó Paradís í miðbæ Reykjavíkur. Að þessu sinni til að sjá mynd á franskri kvikmyndahátíð, myndina Deux moi, eftir leikstjórann Cédric Klapisch. Ég vissi næstum ekkert um myndina áður en ég fór annað það sem stendur í kynningartexta undir ljósmynd af aðalleikurunum François Civil og Ana Girardo í hlutverki söguhetjanna Rémy og Mélanie:
„Rómantísk og dramatísk gamanmynd sem slegið hefur í gegn í Frakklandi verður sýnd á Franskri kvikmyndahátíð! Myndin fjallar um ungt fólk í París, tvær sálir sem ná kannski að lokum saman? Þarf maður ekki að elska sjálfan sig, áður en maður getur elskað einhvern annan?“
Myndin gerist í París í samtíma okkar. Þetta er smámynd í þeim skilningi að hún segir litla sögu af ungu og einmana fólki í stórborginni. Myndin er ljómandi falleg, hún er mjög vel tekin og klippt og frásögnin fínleg og næm. Mér datt í hug þegar ég horfði á þessa vel gerðu mynd hve mikilvægt það er að við fáum að sjá samtímasögur í kvikmyndum, sögur úr lífinu eins og því er lifað á okkar dögum. Þó að kannski sé ekkert nýtt undir sólinni, þegar kemur að tilfinningum fólks, breytast tímarnir ört að öðru leyti. Það er gaman að sjá vel gerðar kvikmyndir sem gerast í samtímanum. Snjalltæki og félagsmiðlar gegna miklu hlutverki í þessari kvikmynd og hún sýnir hvaða ráðum einmana fólk beitir nú á dögum til að kynnast öðru fólki, það notar m.a. til þess félagsmiðla á borð við facebook og stefnumótamiðla á borð við Tinder. Öðrum þræði er myndin líka lofsöngur um borgarlífið og kaupmanninn á horninu.
Ég staldraði við í bíóhúsinu eftir að sýningu lauk því að ég hitti þar óvænt nokkra vini og kunningja í anddyrinu sem höfðu farið að sjá aðra mynd en ég. Allir þessir vinir og kunningjar höfðu áhyggjur af því, hvernig Bíó Paradís muni reiða af á næstu vikum, hvort það verði virkilega svo að við sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu munum glata þessu frábæra bíói úr höndunum á okkur. Einhverjir töluðu um að nú þyrfti stuðningsfólk að borga mánaðarlegar greiðslur til styrktar bíóinu, aðrir töluðu um að stjórnvöld styrkja bíóið víst lítið, þó að hér sé um að ræða eina helstu menningarstofnun í landinu á sviði vinsælustu og áhrifaríkustu listgreinar samtímans. Nú ríður á að fulltrúar almennings á þingi og í borgarstjórn og í bæjarstjórnum nágrannasveitarfélaganna, fólk sem þrátt fyrir allt er flest vel meinandi og vel menntað, hugsi sinn gang og fari yfir fjárhagsáætlanir næsta árs, með það fyrir augum að styrkja Bíó Paradís, hið nauðsynlegasta bíó í landinu.