Nú á dögunum fór ég í bíltúr út á Álftanes. Þau Már Jónsson og mamma hans Helgu Kress höfðu boðið mér að koma með. Helga var bílstjórinn. Tilefnið var að Már átti að flytja fyrirlestur um Grím Thomsen. Fyrirlesturinn var haldinn þann 18. nóvember sl. Hann var fluttur í íþróttasal í íþróttahúsi sem er tengt sundlauginni frægu sem byggð var á Hrunárunum. Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla stóð fyrir þessum atburði. Vilhjálmur Bjarnason fyrrv. þingmaður er formaður þess félags. Í fyrirlestrinum sagði Már frá námsárum Gríms, sem voru mjög kostnaðarsöm fyrir foreldra hans, Þorgrím og Ingibjörgu. Þorgrímur og Ingibjörg áttu heima á Bessastöðum en Þorgrímur var ráðsmaður þar en einnig gullsmiður. Sem betur fór búnaðist þeim hjónum vel.
Ég tók nokkrar myndir við þetta tækifæri. Á myndunum má sjá Má flytja fyrirlesturinn. Fyrirlestrasalurinn er allajafna notaður til íþróttaiðkana og svo að ekki var neinu ræðupúlti fyrir að fara, en með skömmum fyrirvara fannst á því ágæt lausn eins og sjá má. Einnig má sjá Má ásamt móður sinni og Vilhjálmi, og líka mynd af Vilhjálmi þar sem hann sýnir Má fallegt eintak af frumútgáfu Ljóðmæla Gríms, sem komu út í Reykjavík árið 1880. Fyrirlesturinn var bráðskemmtlegur og fróðlegur, eins og vænta mátti, en Már skrifaði grein um sama efni í ritsafnið Feiknstafir, ráðgátan um Grím Thomsen, sem kom út í fyrra í ritstjórn Sveins Yngva Egilssonar og Þóris Óskarssonar. Að fyrirlestri loknum var áheyrendum boðið að spyrja spurninga. Þá komu margar góðar spurningar úr salnum enda voru áheyrendur greinilega furðu vel heima í sögu Gríms og Bessastaða. Vel var mætt á fyrirlesturinn og fjölga þurfti sætum í salnum. Að fyrirlestri og spurningum og svörum loknum var boðið upp á kaffi og vínarbrauð. Vínarbrauðið var ljúffengt og kaffið gott.
Því miður fórst fyrir hjá mér að taka mynd af þeim stóra hópi fólks sem mætti á fyrirlesturinn.
[* Fyrirlesturinn var haldinn laugardaginn 18. nóvember eftir hádegi. Ég skrifaði stutta færslu um atburðinn á facebooksíðu mína og birti þar myndir af þessu tilefni. Þessi færsla er ívið lengri.]