Bernska Ívans eftir Andrei Tarkovskí

[Stöðufærsla á facebook, mánudaginn 11. september 2017.]

Ég fór í gærkvöldi að sjá kvikmyndina Bernska Ívans eftir Tarkovskí. Hún var sýnd í Bíó Paradís. Kvikmyndin segir frá barni eða unglingspilti, Ívan, sem er áhugasamur um að taka þátt í stríðinu með Rauða hernum gegn þýska hernum í seinni heimsstyrjöldinni.

Lesa meira

Nordlyd quartet í Norræna húsinu

[Færsla á facebook að kvöldi 1. júní 2017.]

Í kvöld fór ég á tónleika strengjakvartettsins Nordlyd quartet í Norræna húsinu. Tónleikarnir voru í tilefni af hundrað ára afmæli sjálfstæðs Finnlands. Í kvartettinum eru fjórir ungir og flinkir hljóðfæraleikarar, og þau léku verk eftir þrjú finnsk tónskáld. Jean Sibelius, Kajia Saariaho og Armas Jarnefelt (aukalag, Vögguvísa). Saariaho er eina tónskáldið af þessum þremur sem nú er á lífi, hún fæddist 1952 segir í dagskránni. Þetta voru skemmtilegir tónleikar. Hljóðfæraleikararnir kynntu verkin áður en þau voru spiluð – og kynntu þau á ensku. Eftir að fyrstu kynningunni lauk, tók einn tónleikagesturinn heldur hvasslega til máls og kvartaði yfir því að kynningin hefði farið fram á ensku. Hljóðfæraleikarinn afsakaði sig og sagði að þeim hefði verið bent á að tala ensku á tónleikum sínum hér. Tónleikagesturinn hvassi stóð þá upp og gekk snúðugur út úr tónleikasalnum. Ég gat alveg skilið hann, þó að mér fyndist framkoma hans sannarlega ekki kurteisleg. Ég hef miklar mætur á ensku máli en enskan á samt lítið erindi á samkomur norðurlandabúa í Norræna húsinu. Tónleikagesturinn hvassi, sem fór út af tónleikunum áður en þeir hófust, missti því miður af góðum tónleikum. Verk Sibeliusar, Voces Intimae fyrir strengjakvartett ópus 56, var viðamesta tónverkið ef miðað er við lengd. Það er í fimm þáttum. Hljóðfæraleikararnir sögðu þessi kvartett væri eiginlega eina kammerverkið sem Sibelius hefði samið sem fullorðinn maður. Verk Saariaho var styttra. Tónleikunum lauk svo á aukalagi, sem mér fannst elskulegt, enda hét það Vögguvísa. Ég hafði aldrei áður heyrt þessi verk, en vildi nú gjarna heyra þau öll aftur. Framúrskarandi fín kvöldskemmtun. Hafi hljóðfæraleikararnir og Voksenasen tónlistarskólinn sem stóð fyrir tónleikunum bestu þakkir fyrir.

~ ~ ~

Konur Mari þjóðarinnar

[Þessa færslu birti ég á facebook laugardaginn 12. september 2015.]

Ég má til með að segja frá merkilegri kvikmynd sem ég sá í gærkvöldi. Hún er sýnd á rússneskri kvikmyndahátið, og segir frá fólki af Mari-þjóðinni. Mari þjóðin er um það bil tvöfalt fjölmennari en Íslendingar og talar fallegt tungumál sem talað er í kvikmyndinni. Tungumálið heitir líka Mari.

Lesa meira