[Birt á facebook síðdegis 16. febrúar 2023. Tilefnið var frétt af könnun Þjóðarpúlss Gallups á trausti til stofnana samfélagsins, en niðurstöður þeirrar könnunar má sjá hér: https://www.gallup.is/nidurstodur/thjodarpuls/traust-til-stofnana/ ]
Fréttir í hádeginu voru athyglisverðar. Traust almennings til stofnana samfélagsins mun hafa minnkað. Mest hefur traust almennings minnkað til heilbrigðiskerfisins, Alþingis, lögreglunnar, Seðlabanka, og borgarstjórnar. Borgarstjórn Reykjavíkur mælist með minnst traust þeirra stofnana sem könnunin tók til. Í fréttinni var samt lögð áhersla á að traust til Þjóðkirkjunnar hefði aldrei verið minna en nú. Ég leit á tölurnar frá Þjóðarpúlsi Gallup. Þá kemur í ljós að traust til lögreglunnar og heilbrigðiskerfisins virðist nú vera allnokkuð: 78% og 71%. Traust til Seðlabanka 52%. En traust til Alþingis 36%, Þjóðkirkjunnar 29% og borgarstjórnar 21%. Ég veit ekki hvað skal segja um Þjóðkirkjuna í þessu sambandi. Eitt er þó augljóst: það eru alls ekki allir í þjóðkirkjunni. Ef aðeins þeir sem eru í þjóðkirkjunni væru spurðir, hugsa ég að traust til hennar mældist miklu meira. En allir landsmenn þurfa að reiða sig á Alþingi. Ef ég væri stjórnmálamaður hefði ég áhyggjur af trausti til Alþingis og ef ég væri borgarfulltrúi, hefði ég miklar áhyggjur af litlu trausti til borgarstjórnarinnar. Því miður skil ég hins vegar ósköp vel að almenningur treysti Alþingi og sveitarstjórnum illa, ég geri það sumpart líka, að fenginni reynslu. Margt er samt vel gert í Reykjavík, þó að skipulagsslysin stingi í augu.