Tillaga um að leggja borgarskjalasafn niður, 2.

[Hér er annar póstur minn um tillögu borgarstjóra á 5696 fundi hennar þann 16. febrúar um að leggja borgarskjalasafn niður og fela verkefni hennar í hendur Þjóðskjalasafns. Rökstuðningur fyrir tillögunni er að svo stöddu trúnaðarmál, sbr. fundargerð borgarráðs: https://reykjavik.is/fundargerdir/borgarrad-fundur-nr-5696 ]

Í fréttum í gær kom fram að borgarstjóri hefur fundið leið til að spara í rekstri borgarinnar. Leiðin er sú að leggja niður Borgarskjalasafn og senda gögnin sem Borgarskjalasafn varðveitir beinustu leið upp í Þjóðskjalasafn. Væntanlega muni borgin svo greiða svolítið framlag til Þjóðskjalasafns á hverju ári í framtíðinni.

Lesa meira

Tillaga um að leggja borgarskjalasafn niður, 1

[Í fréttum RÚV 17. febrúar 2023 kom fram að borgarstjóri hefði lagt fyrir borgarráð tillögu um að leggja borgarskjalasafn niður. Ég skrifaði þá eftirfarandi færslu á facebook. Tillaga borgarstjórans var merkt sem trúnaðarmál í fundargerð borgarráðs, sjá: https://reykjavik.is/fundargerdir/borgarrad-fundur-nr-5696 ]

Ég tjáði mig eitthvað aðeins um borgarstjórn hér í gær, og kunni ekki við að vera of neikvæður. Svo ég skrifaði í lok færslunnar: “Margt er samt vel gert í Reykjavík, þó að skipulagsslysin stingi í augu.” En kannski er færra vel gert en maður vill halda. Það voru fréttir af því í gær að borgarstjóri vildi nú leggja niður skjalasafn borgarinnar og fela gögnin í umsjón ríkisskjalasafnsins okkar, Þjóðskjalasafns. Síðan komu fréttir sem berast aðeins af tiltækjum allra aulalegustu stjórnenda: Borgarskjalavörður hafði aldrei heyrt af þessum áformum! Þvílík borgarstjórn! Þvílíkir stjórnendur! Ég man að borgarstjóri hafði oft skemmtilegt orðatiltæki á vörunum, sem hann gæti verið sjálfur höfundur að, um að að sjálfsögðu væru allir verkferlar “faglegir, nútímalegir og lýðræðislegir”. Ég hef ekki heyrt hann taka svona til orða lengi, en ég hlusta svo sem ekki mikið eftir ræðuhöldum úr borgarstjórn. En á hinn bóginn hef ég tiltölulega nýlega lært að meta góð skjalasöfn, einkum Þjóðskjalasafnið. Allar hugmyndir um að flytja svona söfn eru mjög háskalegar. Það er gríðarlega dýrt að flytja skjalasöfn og fjármögnun til slíkra verka verður að vera alveg klár fyrirfram. Það er hreint ábyrgðarleysi af borgarstjórn að ætla að fleygja borgarskjalasafninu í fangið á Þjóðskjalasafni, sem á nóg með sitt.

~ ~ ~

Minnkandi traust til stofnana samfélagsins.

[Birt á facebook síðdegis 16. febrúar 2023. Tilefnið var frétt af könnun Þjóðarpúlss Gallups á trausti til stofnana samfélagsins, en niðurstöður þeirrar könnunar má sjá hér: https://www.gallup.is/nidurstodur/thjodarpuls/traust-til-stofnana/ ]

Fréttir í hádeginu voru athyglisverðar. Traust almennings til stofnana samfélagsins mun hafa minnkað. Mest hefur traust almennings minnkað til heilbrigðiskerfisins, Alþingis, lögreglunnar, Seðlabanka, og borgarstjórnar. Borgarstjórn Reykjavíkur mælist með minnst traust þeirra stofnana sem könnunin tók til. Í fréttinni var samt lögð áhersla á að traust til Þjóðkirkjunnar hefði aldrei verið minna en nú. Ég leit á tölurnar frá Þjóðarpúlsi Gallup. Þá kemur í ljós að traust til lögreglunnar og heilbrigðiskerfisins virðist nú vera allnokkuð: 78% og 71%. Traust til Seðlabanka 52%. En traust til Alþingis 36%, Þjóðkirkjunnar 29% og borgarstjórnar 21%. Ég veit ekki hvað skal segja um Þjóðkirkjuna í þessu sambandi. Eitt er þó augljóst: það eru alls ekki allir í þjóðkirkjunni. Ef aðeins þeir sem eru í þjóðkirkjunni væru spurðir, hugsa ég að traust til hennar mældist miklu meira. En allir landsmenn þurfa að reiða sig á Alþingi. Ef ég væri stjórnmálamaður hefði ég áhyggjur af trausti til Alþingis og ef ég væri borgarfulltrúi, hefði ég miklar áhyggjur af litlu trausti til borgarstjórnarinnar. Því miður skil ég hins vegar ósköp vel að almenningur treysti Alþingi og sveitarstjórnum illa, ég geri það sumpart líka, að fenginni reynslu. Margt er samt vel gert í Reykjavík, þó að skipulagsslysin stingi í augu.

Auður Þorbergsdóttir, 1933 – 2023

[Þessi grein var birt í Morgunblaðinu í tilefni af útför Auðar þann 9. febrúar 2023 og einnig birt svolítið breytt hér.]

            Mig langar að minnast hér frænku minnar Auðar Þorbergsdóttur með nokkrum orðum.

Auður Þorbergsdóttir. Hún er fyrir miðju. Myndin er tekin í október 2022 og hana tók Elvar Örn Egilsson, ljósmyndari.
Lesa meira

Þór Þorbergsson, 1936 – 2022

[Þegar pabbi minn dó þurfti ég að taka saman stutt æviágrip til að láta fylgja með minningargreinum í Morgunblaðinu. Ég þurfti svo að stytta æviágripið mjög. Mér datt í hug að birta æviágripið hér óstytt. Þegar ég fór að ganga frá því hér til birtingar stóðst ég ekki mátið að bæta svolitlu efni við hér og þar.]

            Þór Þorbergsson fæddist þann 1. desember 1936. Foreldrar hans voru þau Þorbergur Friðriksson (1899–1941) stýrimaður og Guðrún Símonardóttir Bech (1904–1991) húsfreyja. Þorbergur var ættaður úr Mýrdalnum en Guðrún Bech úr Kjósinni og af Snæfellsnesi.

Lesa meira