[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni þann 14. október 2020. Hún birtist þar svona.]
Fyrir okkur Íslendinga er erfitt að ofmeta mikilvægi miðbæjarins í Reykjavík. En það er auðvelt að rökstyðja að miðbærinn sé að vissu leyti einn merkilegasti staður sem fyrirfinnst í landinu. Nefna má að miðbærinn í Reykjavík er eina eiginlega borgarumhverfið sem til er á Íslandi. Allir aðrir staðir eru ýmist úthverfi eða misstórir kaupstaðir, kauptún og þorp, eða sveitabæir og loks óbyggðir af ýmsum gerðum.
Og þegar við hugsum út í það, þá er ekki hægt að finna aðra íslenska borg í veröldinni, nema ef við vildum vera svo djörf að líta til Danmerkur, nefnilega til sjálfrar Kaupmannahafnar. En þó að Kaupmannahöfn hafi verið höfuðborg Íslendinga um aldir, er sú góða borg auðvitað dönsk en ekki íslensk.
Einhver kynni að vilja spyrja: hvað er svona merkilegt við borgir? Er ekki sveitin alveg jafn merkileg? Hvaða snobb er þetta? Þessu mætti kannski svara eitthvað á þá lund, að í dreifbýlu landi sem er að mestu eyðimörk, sé eina borgin út af fyrir sig merkilegt fyrirbæri, rétt eins og í mjög þéttbýlu landi kynni mannlaus þjóðgarður að vera sérstaklega merkilegur.
Þá mætti einnig benda á að fólk sé í sjálfu sér merkilegt, og þannig ólíkt til dæmis urð og grjóti sem finna megi í eyðimörkum. Grjót sé einmitt ekki merkilegt í sjálfu sér. Í borgarumhverfi geti þrifist margbreytilegt mannlíf, eða með öðrum orðum, margbreytilegt fólk. Í fásinninu eigi margbreytileikinn hins vegar oft erfitt uppdráttar.
* * *
Þegar við hugsum til miðbæjarins í Reykjavík blasir við að hann er einskonar miðstöð eða miðja lífsins í landinu. Miðbærinn er mikilvægasti vettvangur nútímasögu landsins. Það er í miðbænum sem drjúgur hluti þeirrar sögu á sér stað sem fréttir eru sagðar af í fjölmiðlum á hverjum degi. Það þýðir að stór hluti þeirrar sögu sem við fylgjumst daglega með í fréttatímum á sér stað í miðbænum. Miðborgin í Reykjavík er auk þess vettvangur stórs hluta þeirrar Íslandssögu sem við lærðum um í skóla eða leiðbeinum börnum okkar eða barnabörnum um þegar þau læra heima.
Miðbærinn er vettvangur hins opinbera lífs sem lifað er í landinu. Alþingi, hæstiréttur, borgarstjórn og ráðuneyti, allt eru þetta stofnanir sem eiga heima í miðbænum. Bestu bókabúðir landsins eru í miðborginni. Og þar má finna tónlistarhúsið okkar stóra og fína, Hörpuna. Þar er Bíó Paradís, besta bíó landsins. Þar er líka Austurvöllur og Ingólfstorg og Austurstræti og Lækjartorg. Arnarhóll og Lækjargata, Bankastræti og Laugavegur og Skólavörðustígur. Og þar er Tjörnin og Hallgrímskirkja og Reykjavíkurhöfn.
Samt hafa margir áhyggjur af því að miðbærinn sé að eyðileggjast. Þá er ekki síst nefnt hversu verslun sé orðin fábreyttari í miðbænum en áður var, og líka hitt, að miðbærinn hafi breyst í einskonar rautt hverfi í túristafárinu sem gekk yfir landið eftir síðasta hrun, það er að segja frá árinu 2008. Einnig er oft nefnt að Íslendingar búi ekki lengur í miðbænum, þeir hafi neyðst til að flytja í úthverfin, einmitt af sömu ástæðu, vegna hamfaratúrismans. Miðbærinn sé þannig orðin partíhverfi og jafnvel einskonar sumardvalarstaður ferðamanna, rautt hverfi með fábreyttri verslun. Undir slík orð vil ég helst ekki taka.
* * *
Einn eftirlætisstaður minn í miðbæ Reykjavíkur hefur lengi verið Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18. Þetta hús hefur gjarna verið kallað Rúblan, enda hefur það orð legið á að húsið hafi verið byggt að einhverju leyti fyrir fé frá Sovétríkjunum. Ég hef haft mætur á þessu húsi og starfseminni í því frá því ég fór að kaupa mér bækur á unglingsárum, en tengsl hússins við Sovétríkin urðu mér ekki ljós fyrr en á fullorðinsaldri.
Það var framfaraskref þegar kaffihús var opnað inni í bókabúðinni því þá þurfti maður ekki að ætla að kaupa bækur eða ritföng til að eiga erindi á þennan góða stað, heldur gat látið sér nægja að fara þangað til þess að fá sér kaffi og vínarbrauð og skoða bækur í leiðinni.
Bókabúðin var auðvitað mikilvægur hluti af starfsemi hins þekkta bókmenntafélags Máls og menningar, sem einnig starfrækti bókaforlag í húsinu. Ég þýddi tvær bækur fyrir það bókaforlag fyrir um 30 árum og átti þá stundum erindi á aðra staði í þessu fallega og sérhannaða bókmenntahúsi, heldur en í bókabúðina, nefnilega á þriðju hæðina, þar sem bókaútgáfan hafði aðsetur. Samskiptin við starfsfólk bókaútgáfunnar voru ánægjuleg og lærdómsrík.
Og fyrir um ári síðan brá aftur svo við að ég átti annað erindi í þetta hús en að kaupa bækur og ritföng eða fá mér kaffi og kleinu. Þá kom fyrsta skáldsagan mín út og hún var auðvitað sett í sölu í bókaverslun Máls og menningar. Það gladdi nýbakaðan skáldsagnahöfund að bókinni var þar gert hátt undir höfði og stillt upp á góðum stað í versluninni. Ekki nóg með það, heldur var hún auglýst í blaðaauglýsingum verslunarinnar. Og eitt sinn þegar ég gekk eftir Laugaveginum skömmu eftir þetta varð mér litið í búðarglugga verslunarinnar. Þá blasti bókin mín við vegfarendum í aðalbúðarglugganum. Hún var þar með öðrum góðum bókum og var auglýst á hagstæðu verði. Ég varð furðu kátur þegar ég sá þetta.
* * *
En ég hef ekki bara verið ánægður með viðskiptin sem ég hef átt í húsi Máls og menningar. Ég hef nefnilega líka verið mjög hrifinn af sjálfu húsinu þar sem bókakaup mín og önnur viðskipti áttu sér stað, húsinu á Laugavegi 18.
Einn fremsti arkitekt landsins um árabil, Sigvaldi Thordarson (1911-1964) teiknaði þetta hús sem var sérhannað fyrir bóksölu og bókaútgáfu. Hann teiknaði líka innréttingarnar í bókabúðina. Húsið var fullbyggt árið 1961. En Sigvaldi Thordarson dó fyrir aldur fram örfáum árum síðar. Þegar nauðsynlegt varð að gera breytingar á innréttingunum í bókabúðinni eftir að arkitekt hússins var fallinn frá var aftur leitað til eins þekktasta arkitekts landsins og Hannes Kr. Davíðsson (1916-1995) fenginn til verksins. Innréttingar í bókabúð Máls og menningar hafa líka ævinlega verið til mikillar fyrirmyndar.
Ef til vill er Rúblan, húsnæði bókmenntafélags Máls og menningar á Laugaveginum, ekki aðeins eina sérhannaða bókmenntahúsið í landinu, heldur einnig framúrskarandi dæmi um fallega hönnun á verslunarhúsi í þessu litla og fámenna landi okkar. Og auðvitað mikilvægur hluti af höfundarverki Sigvalda Thordarsonar og Hannesar Kr. Davíðssonar.
Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg var mikilvægur hluti af menningarlandslagi borgarinnar, sem svo má kalla. Og okkur á ekki að vera sama um það hvað verður um þetta hús og bókabúðina sem húsið var byggt utan um, rétt eins og okkur á ekki að vera sama um það hvað verður um miðbæinn okkar.
Nú er búið að loka bókabúð Máls og menningar. Það eru nokkrir mánuðir síðan versluninni var lokað til bráðabirgða. Til stóð að opna verslunina aftur nú í haust. Frá því hefur nú verið horfið. Mér varð þetta ljóst fyrir helgina, þegar ég fékk tölvupóst frá Arndísi Sigurgeirsdóttur bóksala, sem rekið hefur verslunina þarna um árabil. Erindið var að benda mér á að rekstri verslunarinnar væri endanlega lokið, og að ég gæti sótt óseld eintök af bókinni minni í búðina á næstu dögum. Ég brást fljótt við og var kominn í verslunarhúsnæðið daginn eftir, og hitti þar Arndísi bóksala. Hún sagði mér undan og ofan af málsatvikum. Arndísi tókst ekki að semja við eiganda hússins um framlengdan leigusamning.
Mér fannst þetta ákaflega dapurlegur endir á langri og farsælli sögu bókaverslunar í þessu húsi. Sú spurning vaknaði í huga mínum, hvort engin leið væri til þess að Laugavegur 18 gæti áfram verið bókmenntahús og menningarhús í Reykjavík, og hvort ekki sé hægt að tryggja rekstur bókaverslunar í þessu frábærlega fallega rými sem er sérstaklega hannað fyrir bækur og bókmenntir.
* * *
Athugasemd: Myndirnar sem fylgja greininni voru teknar í októbermánuði 2020. Fyrri myndin var tekin sunnudaginn 11. október og sýnir verslunina lokaða á venjulegum opnunartíma. Síðari myndin var tekin föstudaginn 9. október og er af Arndísi Sigurgeirsdóttur bóksala fyrir framan hálftómar bókahillur bókabúðarinnar. Greinarhöfundur tók myndirnar og birtir með leyfi Arndísar.