Auður Þorbergsdóttir, 1933 – 2023

[Þessi grein var birt í Morgunblaðinu í tilefni af útför Auðar þann 9. febrúar 2023 og einnig birt svolítið breytt hér.]

            Mig langar að minnast hér frænku minnar Auðar Þorbergsdóttur með nokkrum orðum.

Auður Þorbergsdóttir. Hún er fyrir miðju. Myndin er tekin í október 2022 og hana tók Elvar Örn Egilsson, ljósmyndari.

Auður frænka sagði mér stundum frá ævi sinni. Það voru skemmtileg samtöl. Við töluðum síðast saman augliti til auglitis á Landspítalanum nú fyrir jól. Þá sagði hún mér frá því að þegar hún var í menntaskólanum á sínum tíma hefði hún viljað fara í stærðfræðideild. Stærðfræði var hennar besta grein og hún fékk ágætiseinkunn í henni. En svo kom upp úr dúrnum að til að komast í stærðfræðideild þurftu nemendur líka að hafa ágætiseinkunn í eðlisfræði. Auður var prýðilegur námsmaður en samt hafði eitthvað vantað upp á að hún væri með ágætiseinkunn í því fagi. Reglur kváðu á um að þar með færi hún í máladeild. Þetta gerði Auður möglunarlaust. Hún áttaði sig seinna á því að það hefði verið leikur einn að fara upp á skrifstofu skólastjórans og biðja um undanþágu. Það tíðkaðist. En Auði datt slíkt ekki í hug. Þetta hefur haft afdrifaríkar afleiðingar. Auður varð lögfræðingur og svo lögmaður og dómari, en ekki t.d. verkfræðingur. Ég held að frænka mín hafi aldrei verið mikið fyrir að biðja um undanþágur fyrir sig.

Það var ekki sjálfsagt mál að Auður færi í menntaskóla og þaðan af síður að hún færi í háskóla. Mamma hennar varð ekkja 37 ára gömul með fjögur börn þegar Auður, elsta barnið, var 8 ára. En samt gengu þær systur Auður og Guðrún Katrín menntaveginn og bræður þeirra líka. Auður þurfti að vinna mikið með náminu. En laganámið gekk vel þrátt fyrir alla vinnuna.

Mynd tekin við æskuheimilið, Bræðraborgarstíg 52. Auður og systkini hennar á námsárum eða um það leyti. Frá vinstri: Auður, Þorbergur, amma Guðrún, Guðrún Katrín og Þór. Myndin fengin úr fjölskyldualbúmi.

Auður frænka var í uppáhaldi hjá mér alla tíð, en þegar ég var barn tók ég að vísu minna eftir henni vegna þess hve skrautlegur og skemmtilegur Hannes maður hennar var. Hann gat staðið á höndum og haus og synt í sjónum. Hann átti líka flottan jeppa. Og Hannes ávann sér enn meiri virðingu okkar strákanna þegar hann sýndi fjölskyldunni Kjarvalsstaði nokkrum dögum áður en húsið var vígt, en Hannes var húsameistari þess húss. Þegar hann fór með okkur strákana og sýndi okkur klósettið, sáum við að það var auðvitað fullt tillit tekið til okkar í því eins og öllu öðru þar sem þau Hannes og Auður frænka voru annars vegar. Pissuskálarnar stóðu mishátt á veggnum og þar mátti finna skál í réttri hæð fyrir okkur alla. Hannes var 16 árum eldri en Auður og hefði því átt að virka gamall maður í augum okkar barnanna en svo var ekki. Auður frænka sló ekki eins gersamlega í gegn í barnshuga mínum og maður hennar. En fjölskylduboðin hjá þeim voru einstaklega skemmtileg allt frá því ég var barn og fram til þess síðasta og fyrir þeim stóð hin glaðværa frænka mín auðvitað fyrst og fremst.

Það var alltaf gaman að hitta Auði frænku eða tala við hana í síma. Auður var skemmtileg en hún var líka raunsæ og skýr og hún fylgdist alltaf vel með. Hún fylgdist mjög vel með bókmenntum og myndlist. Heimili hennar og manns hennar bar vitni um góðan smekk þeirra hjóna, með góðri myndlist á veggjum og vönduðum húsbúnaði. Auður hafði áhuga á fallegu handverki, til dæmis vel gerðum fatnaði. En hún bar sig svo vel og hafði svo fágaða framkomu að maður tók ekki svo vel eftir fallegum klæðnaðinum. Við Auður áttum það sameiginlegt að hafa gaman af góðu handverki af öðru tagi, nefnilega góðu bókbandi. Sá áhugi kom frá ömmu Guðrúnu. Auður átti til að gefa mér bækur og einu sinni gaf hún mér bók sem mamma hennar hafði bundið inn, ljóðmæli Hjálmars í Bólu.

Mér flaug í hug nú um daginn, að á vissan hátt vann Auður við að hafa rétt fyrir sér. Og það einkum um flókin og mikilvæg mál. Þessi flóknu mál voru annars vegar ýmis atvik í mannlífinu og hins vegar lög og réttur. Starf dómarans felst í því að máta atvikin við lögin, ef svo má segja. Það er mikið ábyrgðarstarf. Þegar mér datt í hug að Auður hefði unnið við að hafa rétt fyrir sér um flókin mál af því tagi og komast að hinni réttu og endanlegu niðurstöðu, varð mér líka hugsað til þess að lífsreynsla hennar var mikil og djúp, kannski meðal annars vegna dómarastarfanna. Þetta gerði það að verkum að það var mjög gott að leita til Auðar og ræða við hana um erfið úrlausnarefni og gaman að ræða við hana um málefni líðandi stundar.

~ ~ ~