Áramótakveðja frá Fort Kochin, Kerala, Indlandi.*

[Þóra Bergný Guðmundsdóttir og síðuhaldari á samkomutorgi í Fort Kochin þann 31. desember 2023. Ljósmyndari var ónafngreindur indverskur maður.]

Gleðilegt nýtt ár og bestu þakkir fyrir allt gamalt og gott, kæru vinir, vandamenn og kunningjar á facebook. Myndin sem hér fylgir með var tekin núna áðan á torgi í Fort Kochin, í Keralafylki, á Indlandi og konan sem er með mér á myndinni er hún Þóra Bergný Guðmundsdóttir frá Seyðisfirði. Þóra er ekki bara frá Seyðisfirði, hún er líka frá Kochinborg á Indlandi, enda býr hún hér í Fort Kochin að jafnaði nokkra mánuði á ári. Hún á hér og rekur frábært hótel, Secret Garden Hotel, og í tengslum við það hefur hún vinnustofu með svefnherbergi, rétt hjá hótelinu. Ég hef verið svo heppinn að fá að nýta mér þessa vinnustofu nú um hríð. Það er merkileg reynsla að dvelja hér í hitabeltinu. Hér er sitthvað sem hefur komið mér á óvart og ég hef til dæmis haft sérlega gaman af að kynnast fuglalífinu. Hér eru ernir og páfuglar og hvers kyns smáfuglar og bráðskemmtilegar krákur. Og þessir fuglar láta sjá sig flesta daga í hótelgarðinum. Hótelið hennar Þóru er einstaklega fallegt og þar starfar mjög gott og elskulegt starfsfólk. Í kvöld og á morgun verða mikil hátíðarhöld hér í borginni, bara rétt hjá hótelinu hennar Þóru, sem er svo vel staðsett að vera við elskulegan miðbæ í elsta borgarhluta Kochin borgar, og vera þó á mjög kyrrlátum stað og alveg rétt við hafið. Myndina af okkur Þóru tók vinsamlegur Indverji núna áðan, en í baksýn er líkan, sem mun vera af jólasveini. Og í kvöld stendur til að verði kveikt í þessu líkani að viðstöddu gríðarlegu margmenni.

[*) Áramótakveðjan var birt á gamlársdag á facebook, en svo hér.]