[Þessi grein birtist í Morgunblaðinu þann 13. júní 2009. Hún birtist þar svona og svona. Greinin lýsir aðferð fyrir almenning til að fjármagna hugðarefni sín og til að stofna fyrirtæki. Nokkrum árum áður kynnti ég þessa hugmynd fyrir Landsbanka og KB banka, einkavæddum bönkum. Ekki varð úr að bankarnir kæmu í lið með mér við að stofna svona almannafjármögnunarfyrirtæki. Í kjölfar hrunsins kynnti ég hugmyndina svo opinberlega, til að auðvelda nýsköpun í efnahagslífinu. Um svipað leyti virðist hafa komið fram áþekkt fyrirtæki erlendis og svo nokkrum árum síðar hér á Íslandi, nefnilega Karolina Fund.]
ÞAÐ hefur alltaf verið mikilvægt að fara vel með fé. Það er jafnvel enn mikilvægara nú en venjulega, þegar margir missa vinnuna og þurfa að lifa spart.
Í mörgum tilvikum hefur fólk misst vinnuna vegna þess að fyrirtækin, sem fólk hefur haft vinnu hjá, eru farin í þrot. Til þess að fólk fái vinnu aftur þarf að stofna ný fyrirtæki, sem starfa á öðrum sviðum en mörg þeirra sem nú eru horfin, einnig þarf að breyta rekstri margra gamalla fyrirtækja. Þá eiga ýmis fyrirtæki sér engan grundvöll í landinu nú eftir hrunið.
Það væri því gagnlegt að auðvelda stofnun nýrra fyrirtækja sem starfa á öðrum sviðum en mörg þau fyrirtæki sem nú eru horfin, til dæmis í ýmsum útflutningsgreinum. Ef unnt væri að auðvelda almenningi í landinu að safna saman fé til sameiginlegra verkefna mætti ætla að hin nauðsynlegu fyrirtæki, sem landsmenn þurfa nú á að halda, gætu orðið til fyrr en ella og atvinnuleysi þannig orðið skammvinnara. Aðferð sem auðveldar almenningi að safna fé til sameiginlegra verkefna gæti einnig nýst vel vegna nauðsynlegra góðgerðar- og menningarmála, þar sem þörfin er mikil.
Flestir þeirra sem einhvern tíma hafa verið beðnir að láta fé af hendi rakna til góðra verkefna hljóta að kannast við að hafa vegið og metið hvort hugsanlegt fjárframlag þeirra muni á endanum skila árangri. Fjársafnanir hafa gjarna þann galla, að menn geta ekki alveg vitað hvað verður um það fé sem þeir leggja fram. Þótt menn vilji styrkja málefnið er ekki víst að þeir vilji gefa peninga í eitthvað sem ekkert verður úr. Og auðvitað er erfitt að standa í framkvæmdum ef ekkert fé fæst til þeirra, eða óvíst er hvort slíkt fé fáist. Þannig má segja að óvissan sé dragbítur á fjársafnanir til góðra verka og hún hamli um leið stofnun nýrra og nauðsynlegra fyrirtækja.
Vel má draga úr þessari óvissu með ákveðnu verklagi sem er í stuttu máli svona: Þeir sem vilja stofna lítil fyrirtæki eða koma góðum málum til leiðar skilgreini sem best áfanga í verkefnum sínum. Í framhaldi sé fólki boðið að styrkja verkefnin þegar áföngunum hefur verið náð. Til þess þarf að búa til samninga þess efnis að þeir sem styrkja málefnið, til dæmis stofnun nýs fyrirtækis, leggi fé inn á reikning hjá fjármálastofnun, en fjármálastofnunin greiði framkvæmdaaðilum jafnóðum og hinir vel skilgreindu verkáfangar hafa náðst. Þeir sem féð lögðu fram eignast þá tiltekinn hlut í hinu nýja fyrirtæki, sé þannig um hnútana búið í upphafi. En hafi verið um góðgerðarverkefni að ræða rennur féð einfaldlega til hinna góðu verka, til dæmis þannig að gefenda sé getið að góðu og þeim þökkuð hjálpin.
Samningurinn kveður einnig á um að tilteknir aðilar sem eru traustsins verðir í hverju tilviki fyrir sig dæmi um hvort fullnægjandi árangur hafi náðst. Þessum aðilum, sem kynna þarf um leið og fjársöfnun hefst, beri að tilkynna fjármálastofnuninni um lyktir málsins á tilteknum degi. Þann dag bregðist fjármálastofnunin, sem treyst var fyrir söfnunarfénu, við: Hafi fullnægjandi árangur náðst fær frumkvöðullinn umsamið fé og sá sem það lagði fram eignast hlut í fyrirtækinu, sé um slíkt að ræða. Hafi fullnægjandi árangur ekki náðst er féð endurgreitt til þeirra sem það lögðu fram. Að kvöldi þessa fyrirfram ákveðna dags hefur annað tveggja gerst: frumkvöðullinn hefur fengið fé til að borga fyrir það sem hann ætlaði að gera og tilteknir einstaklingar eignast hlut í fyrirtækinu, eða að þeir sem lögðu féð fram hafa fengið það endurgreitt á reikninga sína, vegna þess að það fór því miður svo að frumkvöðlinum mistókst ætlunarverk sitt.
Þessi aðferð hefur í för með sér, að þeir sem leggja út í framkvæmdir geta verið vissir um að takist þeim ætlunarverkið muni reikningar verða greiddir á tilteknum degi. Þeir vita einnig að takist þeim ekki að vinna ætlunarverk sitt verða reikningarnir ekki greiddir. Þeir hafa því tvöfalda hvatningu til að ná árangri, gulrót og vönd eins og stundum er sagt. Því má segja að þessi aðferð tryggi á vissan hátt árangur af fjárframlögum, eða í öllu falli tryggir aðferðin að féð sem lagt er fram rennur til þess sem til var ætlast og ekki til annars.
Þá felur aðferðin í sér að óvissa minnkar mjög og hún ætti þannig að auðvelda fjársafnanir, fjármögnun framkvæmda og stofnun fyrirtækja. Þess má geta að þessi aðferð – eða verklag – er margfalt auðveldari í framkvæmd nú en hún kann að hafa verið áður fyrr vegna hinna miklu framfara sem hafa átt sér stað í samskiptatækni og tölvutækni.
Þess má geta að undirritaður kynnti þetta verklag fyrir fjármálastofnunum fyrir nokkrum árum og kallaði ýmist „almannafjármögnun“ eða „árangurstryggða fjármögnun“. Undirtektir voru að mörgu leyti góðar en að vísu var aðgangur að fjármagni þá auðveldur. Nú eru aðstæður aðrar. Vonandi getur þessi hugmynd komið fólki að gagni í efnahagskreppunni sem nú ríkir.
Höfundur er hagfræðingur.