Í dag á pabbi, Þór Þorbergsson, áttatíu og fimm ára afmæli. Mamma, Arnfríður Margrét Hallvarðsdóttir, og pabbi giftust fyrir rúmum sextíu árum. Á þeim langa tíma hafa þau auðvitað ratað saman í ýmis ævintýri. Eitt af þessum ævintýrum voru árin á Skriðuklaustri. Þar var pabbi bústjóri tilraunabús í landbúnaði í meira en áratug.
Á Skriðuklaustri var rekið tilraunabú á vegum ríkisins frá árinu 1949. Pabbi var bústjóri þar frá árinu 1971 og fram til ársins 1984 en síðustu árin var hann samhliða bústjórastarfinu einnig landbúnaðarráðgjafi á Grænlandi (en þangað var hann „lánaður“ sem embættismaður frá íslenska ríkinu til hins danska og þaðan til Grænlands). Mamma starfaði líka hjá tilraunabúinu og var þar lengi ráðskona og síðustu tvö sumrin var hún þar bústjóri í fjarveru pabba.
Fyrir nokkru var Hjörleifur Guttormsson, fv. ráðherra og alþingismaður Austfirðinga, svo vænn að senda mér þrjár ljósmyndir sem hann tók á Skriðuklaustri árið 1975. Myndunum fylgdi leyfi Hjörleifs fyrir því að ég birti þær. Ein þessara mynda sýnir pabba ásamt tveimur öðrum mönnum standa við Gunnarshús. Í tilefni afmælisins datt mér í hug að birta myndir Hjörleifs hér og segja nánar frá því sem sést á þeim.
Fljótlega eftir að við fluttum á Skriðuklaustur ákvað pabbi að ljúka við byggingu Gunnarshúss. Í makaskiptasamningi milli ríkisins og Gunnars Gunnarssonar var ákvæði sem efnislega fjallaði um að húsið væri ekki fullbyggt og ljúka þyrfti byggingu þess. Þrátt fyrir skýrt ákvæði um þetta efni hafði það dregist í meira en tuttugu ár að ríkið efndi sinn hluta samningsins. Þegar Gunnar fór frá Skriðuklaustri átti eftir að byggja svalir við húsið og einnig að ganga frá norðvesturgafli þess. Þetta voru hin óloknu verk. Strax fyrsta sumarið eftir að við fluttum á Skriðuklaustur var sendur hleðslumaður að sunnan til að ganga frá ókláraða gaflinum á húsinu, en pabbi stjórnaði þeirri framkvæmd ekki. En í framhaldi af þessu lagði pabbi á ráðin um að byggja svalirnar. Sú svalabygging var ekki eins einfalt mál viðureignar og halda mætti. Þegar Gunnarshús var reist var í einu veigamiklu atriði vikið frá teikningu Fritz Högers (1877-1949) arkitekts en það hafði þá afleiðingu að ekki var hægt að byggja svalirnar beint eftir teikningu hans.
Stóri munurinn á teikningu Högers og þeirri byggingu sem Gunnar byggði í Fljótsdal var sá að Höger hafði teiknað einlyft hús með kjallara og risi. En húsið sem Gunnar byggði var heldur reisulegra, og mætti lýsa ásýnd þess, að minnsta kosti frá einni eða tveimur hliðum séð, þannig að á húsinu sé jarðhæð, hæð og ris. Þetta olli því að ef byggja átti svalir við húsið þurfti að taka ákvörðun um hvort húsið væri með kjallara í samræmi við upphaflega teikningu Högers eða með jarðhæð eins og Gunnar byggði það. Væri fyrri kosturinn valinn þurfti að moka mold upp að húsinu til að búa til kjallara úr jarðhæðinni, en væri sá síðari valinn þurfti að byggja svalir með hærri súlum en Höger hafði teiknað. Þetta erfiða úrlausnarefni kann að skýra að nokkru þá miklu töf sem varð á því að íslenska ríkið uppfyllti sína hlið í samningi sínum og Gunnars Gunnarssonar og byggði svalirnar. Einhverjar hugmyndir munu samt hafa verið uppi hjá Húsameistara ríkisins um að við húsið yrðu hlaðnar svalir úr tilhöggnu grjóti með líku sniði og hinir hlöðnu veggir Alþingishússins, en það voru ráðagerðir um dýrar framkvæmdir sem allt var óvíst um og pabba mínum leist ekkert á þær.
Þegar Gunnar Gunnarsson flutti til Reykjavíkur var byggt yfir hann glæsilegt hús á Dyngjuvegi 8, hús sem nú hýsir Rithöfundasamband Íslands. Arkitektinn sem teiknaði hið nýja Gunnarshús í Reykjavík var Hannes Kr. Davíðsson (1916-1995), en Hannes var kvæntur Auði Þorbergsdóttur, systur pabba. Þeir voru því mágar. Pabbi gat leitað til Hannesar um ráð varðandi smíði og hönnun svalanna. Reynsla pabba af samskiptum við stjórnvöld varð til þess að hann ákvað að byggja svalirnar einfaldlega án samráðs við þau og fyrir sjálfsaflafé ríkisbúsins til að vera óháður þeim, en rekstur tilraunabúsins gekk ákaflega vel og skilaði afgangi. Það þótti rétt að súlurnar undir svölunum væru háar. Með því móti héldi húsið hinu reisulega yfirbragði sem það hafði alltaf haft. Pabbi réði þekktan hleðslumann, Svein Einarsson frá Hrjót til að hlaða svalirnar. Þegar til átti að taka var Sveinn ekki ánægður með svalabogana á teikningu Högers. Sveini fannst bogar Högers of lágir eða flatir. Honum leist ekki á að svalirnar yrðu nægilega traustar með svo flötum bogum. Sveinn hafði sitt í gegn og að endingu voru bogarnir hafðir ívið hærri eða brattari en til hafði staðið. Pabbi smíðaði sjálfur stór skapalón úr tré, sem notuð voru við hleðslu á þessum bogum og notaði skarexi við það verk.
Þegar Hjörleifur Guttormsson kom í Skriðuklaustur mánudaginn 21. júlí 1975 og tók þessar ljósmyndir var pabbi í blóma lífsins, rúmlega 38 ára gamall. Hinir tveir sem eru á myndinni voru talsvert eldri. Verkið var komið vel á leið eins og sést á myndunum. Eftir að hleðsluvinnu var lokið þurfti svo að hanna svalagólf og handrið, og þá kom sér vel að bróðir pabba, Þorbergur Þorbergsson (1939-2014), starfaði sem verkfræðingur hjá Reykjavíkurhöfn. Hann gat útvegað tilraunabúinu afgangstimbur frá höfninni á hagstæðu verði. Skriðuklaustur átti reka, eða ítak í reka, á strönd sjávarjarðar í fjórðungnum allt frá kaþólskum sið þegar klaustrið á Skriðuklaustri var starfrækt. Þaðan fékkst mikill rekaviðardrumbur sem notaður var sem uppistaða fyrir svalagólfið þar sem það er sem breiðast. Rekaviðardrumburinn er af lerkitré, sem talið er vera frá Síberíu og hafa náð 300 ára aldri. Gissur Árnason smiður á Hallormsstað smíðaði svalagólfið og handriðin úr þessum og öðrum hráefnum af sinni alkunnu snilld.
~ ~ ~