Fyrst vitlaus og svo ógild talning

[Þessi færsla birtist fyrst á bloggsíðu minni á Stundinni að kvöldi laugardagsins 2. október 2021. Hér er orðalag aðeins lagfært, en engar efnislegar breytingar gerðar. Sjá má upprunalegu útgáfu færslunnar hér:]

           Við talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi átti sér stað uppákoma sem hafði áhrif á niðurstöðu Alþingiskosninga sem fram fóru í landinu fyrir viku síðan, laugardaginn 26. september sl.

Allar kjörnefndir kynntu niðurstöður sínar um kosninganóttina og um morguninn lágu úrslit kosninganna fyrir, líka úrslitin í Norðvesturkjördæmi. Eftir að sú niðurstaða hafði verið kynnt, lá fyrir hverjir höfðu verið kosnir á Alþingi, 63 þingmenn samtals úr öllum kjördæmum. Talningarfólkið í Borgarnesi fór heim til sín og hvíldist, en vanrækti að innsigla kjörgögn og talningarsal. Talningarfólk og kjörnefnd fór svo að tínast á talningarstað undir hádegi á sunnudeginum og formaður kjörnefndar var fyrstur á staðinn, gekk þar inn og var einn á staðnum með kjörgögnunum í  drykklanga stund, tæpan hálftíma. Á meðan hringdi síminn hjá honum, það var formaður landskjörstjórnarinnar sem hringdi til að benda honum á að kannski væri ráð að endurtelja atkvæðin í Norðvesturkjördæmi því að svo litlu munaði. Í framhaldi réðist fólkið í veitingasalnum í Borgarnesi í að telja aftur. En þá kom babb í bátinn. Niðurstöðurnar höfðu breyst. Þessar seinni tölur voru allt aðrar en þær sem höfðu komið um nóttina. Ógildum seðlum hafði fjölgaði, auðum seðlum hafði fækkað. Nú voru líka komnir fleiri atkvæðaseðlar. Bókstaflega allar tölur höfðu tekið breytingum.

            Niðurstaða kjörnefndarinnar var sú, að þessar miklu breytingar stöfuðu af því að þeim hefði mistekist við talninguna í fyrra sinnið. Kjörnefndin kynnti svo hina nýju niðurstöðu sem hina réttu. Um leið breyttust úrslit Alþingiskosninga á landsvísu. Þau breyttust hjá þessum litla hópi fólks sem tók sig til, eftir að hafa kynnt endanlegar niðurstöður sínar um morguninn, og töldu upp á nýtt eftir óformlega ábendingu í símtali að sunnan. Þrátt fyrir breytingarnar hélt mikill meirihluti þingmanna sætum sínum, enda er Norðvesturkjördæmi aðeins eitt kjördæmi af mörgum í landinu. 58 þingmenn sem áður höfðu talist kosnir, héldu kosningu sinni. En það sama átti ekki við um fimm óheppin þingmannsefni sem stóðu utan þings eftir að talningarfólkið í veitingasalnum í Borgarnesi taldi atkvæðaseðlana upp á nýtt.

            Nú segir í lögum um kosningar: „Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellunum, enda séu þær verulegar.“

            Hér virðist blasa við að þegar talningarfólkið réðist í fyrri talninguna, hafi engar ytri ástæður valdið því að talningin yrði annað en góð og gild. Hefði ekkert hefði farið úrskeiðis við þá talningu þá hefði niðurstaðan úr talningunni verið marktæk. En það fór eitthvað úrskeiðis á talningastað. Ef til vill gerðist það þegar fyrri talningin stóð yfir, en ef til vill eftir að fyrri talningin var kynnt alþjóð snemma á sunnudagsmorgninum. Það liggur ekki alveg fyrir hvað og jafnvel hvort eitthvað gerðist þar á tímabilinu frá því að talningarfólkið yfirgaf veitingasalinn og þar til það fór að safnast saman þangað aftur. En það er skýrari mynd af því sem gerðist í veitingastaðnum eftir að talningafólkið kom þangað og frá því er sagt í fundargerð kjörnefndarinnar. Ákveðið var að telja aftur. Mikilvægasta einkenni kjörgagna af þessu tagi eru heildartölur fyrir hvert framboð og heildartölur auðra og ógildra seðla. Og þegar endurtalningin var afstaðin var ljóst að kjörgögnin höfðu tekið breytingum að þessu leyti frá fyrri talningunni til hinnar síðari. Seinni talningin leiddi til annarrar niðurstöðu en hin fyrri. Það má hugsa sér nokkrar skýringar á því að þessar tvær talningar gáfu ekki sömu niðurstöður: 1) Vera má að fyrri talningin hafi verið vitlaus. Þá hefur talningarfólkið beinlínis talið vitlaust í fyrra sinnið. 2) Hugsanlega var rétt talið í bæði skiptin, en að kjörgögnin, sjálfir atkvæðaseðlarnir, hafi tekið breytingum eftir að fyrri talningin fór fram. 3) Hugsanlega var rétt talið í fyrra sinnið, en vitlaust talið í seinna skiptið. 4) Loks má auðvitað ekki útiloka þann möguleika að báðar talningarnar hafi verið vitlausar, gefið ranga niðurstöðu, og að hin rétta niðurstaða hafi aldrei komið fram.

            Ef tryggilega hefði verið gengið frá kjörgögnum og öll umgengni um þau verið í samræmi við lög allan tímann mætti vitaskuld hugsa sér að öðru og færara talningarfólki væri falið að endurtelja og meta atkvæðin. En úr því sem komið er er alveg sama hve oft þessi gögn verða talin, það yrði alltaf gert í skugga þeirrar staðreyndar að kjörgögnin voru ekki varðveitt með fullnægjandi hætti og þeim kunni að hafa verið spillt.

            Þessir atburðir hafa þá afleiðingu, að það er ekki unnt að taka mark á fyrri talningunni, því að vel getur verið að talningin hafi þá verið röng, enda var það niðurstaða kjörnefndarinnar í Borgarnesi. En það er ekki heldur hægt að taka mark á seinni talningunni, því að sú talning virðist ógild. Því að hin breytta niðurstaða í þeirri talningu kann að stafa af því að átt hafi verið við kjörgögnin og þeim breytt. Og hvað sem því líður var meðferð kjörgagnanna ekki í samræmi við lög.

            Ef þessir atburðir eru túlkaðir á mildilegasta hátt virðist fyrri talningin hafa verið vitlaus, en síðari talningin vera ógild, hvort sem hún er rétt eða röng. Ómild túlkun á atburðum væri hins vegar sú að fyrri talningin kunni að hafa verið rétt og seinni talningin líka, en átt hafi verið við gögnin á milli þess sem þau voru talin.

            Ljóst er að kosningin í Norðvesturkjördæmi var gölluð. Gallarnir voru svo veigamiklir að þeir höfðu áhrif á úrslit kosninganna, og þá er sama hvort valdar eru fyrri tölur eða hinar síðari. Þar með verður ekki betur séð en að Alþingi neyðist til að dæma kosninguna í Norðvesturkjördæmi ógilda og efna til uppkosningar þar.

                                                ~         ~         ~