Niðurstöður kosninganna breyttust á talningarstað

[Þessi færsla birtist fyrst á bloggsíðu minni á Stundinni að kvöldi föstudagsins 1. október 2021. Lesa má færsluna í upprunalegri útgáfu hér.]

Framkvæmd talningar breytti niðurstöðu kosninganna sem haldnar voru um síðastliðna helgi. 

Þegar talning hafði farið fram í Norðvesturkjördæmi og vilji kjósenda í kjördæminu var kominn í ljós  – var þessum niðurstöðum breytt. Þetta gerðist þannig að formaður landskjörstjórnar hringdi í formann kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi eftir að niðurstöður talningar höfðu verið kynntar alþjóð og fór „óformlega“ fram á að atkvæðin sem greidd voru í kjördæminu yrðu talin aftur. Þetta var gert, en því miður ekki gert í samræmi við lög. Kjörgögn voru ekki varðveitt með fullnægjandi hætti milli talningarinnar og endurtalningarinnar. Við talningu atkvæða skiptir mjög miklu máli, að þess sé gætt að spilla ekki kjörgögnum. En þessa grundvallaratriðis var ekki gætt í Borgarnesi um helgina. 

Seinni talningin fór því ekki fram í samræmi við lög. En hún breytti hinum endanlegu tölum, svo mjög að heilir fimm þingmenn, jöfnunarþingmenn, sem svo hafði virst að væru komnir með öruggt þingsæti, misstu þingsæti sitt, og aðrir fimm voru þá sagðir komnir með þingsætið í stað þeirra. Allar tölur breyttust við endurtalningu, og m.a. fækkaði auðum atkvæðum um 12 en ógildum atkvæðum fjölgaði um 11. Greiddum atkvæðum fjölgaði einnig um 2.

Í 120. gr. kosningalaga segir m.a.: „Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellunum, enda séu þær verulegar.“

Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu að gallar hafi verið á þeirri kosningu sem fór fram í Norðvesturkjördæmi um síðustu helgi. Þessir gallar komu fram við talninguna. Þessir gallar urðu einnig til þess að breyta niðurstöðu kosninganna. Allar tilraunir til að rannsaka kjörgögnin betur núna yrðu gerðar í skugga þeirrar staðreyndar, að þau voru ekki varðveitt með fullnægjandi hætti. Kjörnefnd í kjördæminu skrifaði ekki undir skýrslu um talningu atkvæða og virðist hafa verið ósátt við framkvæmdina.1)

Valið stendur nú á milli þess að taka mark á fyrri tölum, sem kynntar voru sem endanleg niðurstaða kosninga, eða síðari tölum sem urðu til með vafasömum hætti eftir að talið hafði verið aftur. Ellegar þá að kjósa aftur. Valið er skýrt.

                                     ~                    ~                   ~

1) Fræðast má nánar um þessa atburði í frétt Erlu Hlynsdóttur á DV, 30. sept. 2021. “Kjörgögn meðhöndluð áður en kjörstjórn var öll mætt – Búið að upplýsa lögreglu”.  Sjá hér: https://www.dv.is/eyjan/2021/9/30/kjorgogn-medhondlud-adur-en-kjorstjorn-var-oll-maett-buid-ad-upplysa-logreglu/?fbclid=IwAR0dfXC1ob6JeFXiukv-hYAFo1NLGcWMM68Qr_ogO5Hj79EjMRkbaJxKMIw