Bernska Ívans eftir Andrei Tarkovskí

[Stöðufærsla á facebook, mánudaginn 11. september 2017.]

Ég fór í gærkvöldi að sjá kvikmyndina Bernska Ívans eftir Tarkovskí. Hún var sýnd í Bíó Paradís. Kvikmyndin segir frá barni eða unglingspilti, Ívan, sem er áhugasamur um að taka þátt í stríðinu með Rauða hernum gegn þýska hernum í seinni heimsstyrjöldinni.

Þýski herinn hafði drepið móður hans og systur og ef til vill föður hans. Ívan hefur mátt þola mikið, en hann á góða vini í Rauða hernum og stundar einhvers konar njósnir fyrir hann og reynir að verða að liði. En hermennirnir vinir hans, sem eru yfirmenn í hernum, reyna að koma honum í umhverfi sem betur hæfir börnum, í skóla eða herskóla. Þær tilraunir hinna barngóðu hermanna mega sín lítils, því Ívan hefur misst allt sitt og vill verða að gagni. Í myndinni er notast við endurlit, þar sem litið er til baka til þess tíma þegar Ívan átti móður sína og systur á lífi og lék með jafnöldrum sínum. Það gerist margt í þessari kvikmynd og margt er sagt með örfáum klippum. Þannig er svolítil saga sögð af Möshu, ungri herhjúkrunarkonu, sem hermennirnir hrífast af, og þessi litla aukasaga verður alveg ljóslifandi í huga áhorfandans af örfáum smáatriðum sem lýst er af mikilli nákvæmni. Einnig er notast við óhugguleg brot úr heimildarmyndum frá stríðsárunum og þau klippt inn í myndina.

 Rauði herinn kemur vel út úr þessari mynd og hinir barngóðu hermenn sýna hugdjarfa unglingnum mikla umhyggju. Í myndinni segir einhver eitthvað á þá lund, að þetta stríð hljóti að verða síðasta stríðið á jörðinni. Það reyndist svo sannarlega ekki rétt. Kvikmyndastjórinn sýnir okkur undir lok myndarinnar inn í aftökusali þýska hersins, þar sem þeir framkvæmdu fjöldamorð sín. Ekki er ólíklegt að herveldi heimsins muni oft standa fyrir skipulegum fjöldamorðum í framtíðinni líkt og þau gerðu á tuttugustu öld.

 Mér skildist á kunningja mínum í bíósalnum að það stæði til að sýna flestar kvikmyndir Tarkovskís í vetur á Svörtum sunnudögum. Það er mikið fagnaðarefni.

[Andrei Tarkovskí (1932-1986) var rússneskur kvikmyndagerðarmaður. Margar og ef til vill allar kvikmyndir hans hafa verið sýndar hér á landi. Um hann má fræðast á vef IMDB, sjá hér: https://www.imdb.com/name/nm0001789/ ]