Farsóttin og úthafið

            [Þessi grein var birt á Stundinni þann 23. ágúst 2021. Hún birtist þar svona.]

            Ég lenti á löngu spjalli við gamlan vin í gærkvöldi. Við töluðum saman í síma eins og fólk gerir á þessum kóvid tímum, hann á líka heima úti á landi. Talið barst að farsóttinni og viðbrögðum Íslendinga við henni. Vinur minn sagði að Íslendingar hefðu nú staðið sig vel. Ég tók eitthvað frekar dræmt undir það. Vissulega hefðu Íslendingar staðið sig betur en þær þjóðir þar sem verst hefur gengið. En Íslendingar hefðu hið stóra Atlantshaf sem sóttvarnargirðingu, fæstar þjóðir byggju svo vel.

            Það vildi svo til að ég var nýbúinn að reikna út hvernig Íslendingum hefur gengið í sóttvörnum miðað við umheiminn. Kannski tók ég svona dræmt undir sjónarmið vinar míns vegna þess. Ég held líka að það sé alvarlegt mál að smitast af kóvid 19, eins þótt fólk sleppi „vel“ eins og sagt er. Og það hafa margir smitast á Íslandi.

                                                ~         ~         ~

            Frá því að farsóttin nam hér land í lok febrúarmánuðar 2020, hafa rúmlega 10 þúsund (10.177) manns greinst smitaðir af covid 19 hér á landi. Á miðju árinu 2021 töldust landsmenn vera 371.580 talsins.[1] Það þýðir að 2,74% landsmanna hafa greinst smitaðir af covid 19. Hlutfall sýktra á heimsvísu er mjög áþekkt. Talið er að tæplega 7,9 milljarðar manna séu nú á dögum (7,89 m.a.) og af þeim hafi rúmlega 211 milljónir (rúm 211.373 þúsund manns) smitast af farsóttinni. Þetta þýðir að rétt tæplega 2,7% heimsbyggðarinnar hefur smitast. Með öðrum orðum: á Íslandi hefur sama hlutfall manna smitast af kovid 19 og í heiminum öllum, miðað við fólksfjölda.[2] Íslendingum virðist hafa gengið svona í meðallagi vel, hvorki vel né illa. Þegar hugsað er um árangur Íslendinga að þessu leyti þarf samt að hafa í huga, að óvíða munu sýni hafa verið tekin úr landsmönnum af meiri krafti en hér, þannig að hér er líklega sjaldgæfara en gengur og gerist, að fólk hafi smitast af kóvid 19 án þess að fá greiningu. Telja verður mjög líklegt að heldur færri hafi smitast hér á landi heldur en í heiminum öllum að meðaltali, en nákvæm tala yfir smitaða á heimsvísu, greinda jafnt sem ógreinda, kemur líklega aldrei í ljós. Tölur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar gefa hins vegar ótvírætt þá mynd að árangur Íslendinga við að bægja veirunni frá fólki í landinu sé aðeins í meðallagi.

            Á landinu hafa 427 manns þurft að leggjast á spítala, þar af 69 á gjörgæsludeild vegna veikinnar sem veiran veldur. Nálægt einn af hverjum sex sem hafa lagst á spítala, hefur því þurft að fara á gjörgæslu. 30 manns hafa dáið úr sóttinni hér til þessa, eða um 1 af hverjum 340 sem hafa greinst með veiruna. Í prósentum hafa dáið hér tæplega 0,3% þeirra sem greinst hafa.

            Tölur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segja að á heimsvísu hafi rúmlega 4,4 milljónir manna dáið úr kóvid 19 þegar hér er komið sögu, eða um 2,1% sýktra. Tölurnar á Íslandi eru hvað þetta varðar margfalt betri en tölurnar fyrir heimsbyggðina alla, enda búum við Íslendingar svo vel að reka gott heilbrigðiskerfi í alþjóðlegum samanburði. Ef dánarhlutfallið hér á Íslandi hefði verið jafn hátt og það er úti í heimi, væru 210 – 215 manns dánir hér úr sjúkdóminum, í stað þeirra 30 sem í raun hafa dáið.

                                                ~         ~         ~

            Fyrsta kóvid 19 tilvikið greindist hér á landi þann 28. febrúar í fyrra. Í dag, 23. ágúst 2021, eru 542 dagar liðnir frá því veiran kom hingað. Drjúgan hluta af þessu tímabili hafa heyrst kveinstafir frá heilbrigðiskerfinu. Landspítalinn hefur írekað farið á viðbragðsstig og jafnvel hættustig. Þess á milli hefur gengið vel. Það er kannski ekki fráleitt að hugsa sér að heilbrigðiskerfið hefði vel ráðið við ástandið ef fólk hefði smitast jafnt og þétt allan tímann. Stundum finnst manni stjórnvöld tala eins og að það væri best að fá farsóttina í hæfilegum skammti inn í landið, nákvæmlega jafn mikið á hverjum degi og heilbrigðiskerfið þolir, en ekki meira. (Þó að hvarfli stundum að manni, að það sem ráðamenn segja, merki þetta í raun, getur það eiginlega ekki verið rétt.) En það er reyndar ekki hægt að stilla svona bráðsmitandi farsótt af eins og heita og kalda vatnið í eldhúskrananum.

            Við getum reiknað út hvernig smit og veikindi hefðu dreifst í tíma, ef þau hefðu alltaf verið jöfn, líkt og rennslið í góðum og vel stilltum vatnskrana. Að meðaltali hafa greinst á milli 18 og 19 einstaklingar hér á dag á þessu 542 daga tímabili.

            Vegna þess að 427 einstaklingur hefur þurft að leggjast á spítala vegna kóvid 19 á þessum 542 dögum, hefur einhver verið lagður inn á spítala að meðaltali á um 30 klst. fresti allan tímann. Og vegna þess að það hafa 69 verið lagðir inn á gjörgæslu á tímabilinu, hefur einhver verið lagður á gjörgæslu á um 8 daga fresti að meðaltali. Og vegna þess að það hafa 30 manns dáið hér úr covid 19 á tímabilinu, hefur einhver dáið úr veikinni hér á um 18 daga fresti.

            Ég hef ekki séð neinar tölur um langtímaheilsutjón af völdum farsóttarinnar. Ég þekki hins vegar nokkra einstaklinga sem veiktust mjög illa og hafa í sumum tilvikum líklega orðið fyrir varanlegu heilsutjóni. Talið er að um þriðjungur þeirra sem veikjast, fái hið svokallaða langa kóvid. Sem betur fer virðist langt kóvid í mörgum tilvikum ekki vara mjög lengi. Hver veit hve margir sem smitast hafa muni þurfa að glíma við langvarandi heilsubrest? Kannski 1 af hverjum 10. Það gerir þúsund manns. Kannski verða fleiri en það fyrir varanlegu heilsutjóni, kannski færri. Svo vitum við ekki hvað fyrirhugaðar slakanir í sóttvarnarmálum muni valda mörgum smitum. Þessi farsótt er ný í mannheimum, hefur verið þekkt frá því í fyrstu viku janúarmánuðar 2020, segjum í 600 daga. Það er ekki enn komið að tveggja ára afmæli pestarinnar í tilverunni.          

                                                ~         ~         ~

            Það er athyglisvert, að í upphafi farsóttarinnar talaði sóttvarnarlæknir um að besta sóttvörnin fælist í því, að „loka landinu“, eða með öðrum orðum, koma alveg í veg fyrir að veiran bærist til landsins. Til þessa úrræðis hafa mörg lönd gripið með góðum árangri. En sóttvarnarlæknir lét þess getið, að slíkt myndi fara illa með efnahag landsins og væri því óraunhæft.[3] Ég býst við að einhverjir ráðgjafar úr ríkiskerfinu hafi frætt sóttvarnarlækninn á þessum boðskap, sem er mjög í takt við sjónarmið sér í lagi ráðherra sjálfstæðisflokksins í málinu. En það var líka athyglisvert, að ýmsir þekktustu hagfræðingar landsins voru ekki sammála sóttvarnarlækni, og um leið ýmsum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, um efnahagslegar hliðar þessa máls. Hagfræðingarnir töldu að efnahagslega borgaði sig að hafa landið vel einangrað þannig að veiran kæmist ekki í landið.

            Ríkisstjórnin er skipuð vel meinandi fólki sem fékk tækifæri til langrar skólagöngu. Í henni eru þrír lögfræðingar, tveir íslenskufræðingar, einn stjórnmálafræðingur, einn dýralæknir, einn búfræðingur, einn skipstjóri með bókmenntafræðimenntun, einn líffræðingur með umhverfismenntun og loks einn hagfræðingur, samtals 11 manns. Mér sýnist lögfræðingarnir í hópnum einna státnastir af kunnáttu sinni í sóttvarnarfræðum og hagvísindum, en aðrir láta minna á sér bera í umræðum um þessi efni. Ekki verður komist hjá því að heilbrigðisráðherra ræði um sóttvarnarmál, en íslenskufræðingarnir tveir hafa gegnt því embætti, annar að staðaldri en hinn í afleysingum. Þetta er fólkið sem ræður því hvernig íslenska ríkið framkvæmir lögin í landinu, þar með talin sóttvarnarlög. Og þetta fólk hefur líka haft mjög mikið að segja um lagasetningu á síðasta kjörtímabili, enda hefur ríkisstjórnin haft meirihluta á Alþingi. Til ráðgjafar í sóttvarnarmálum hefur ríkisstjórnin auðvitað haft þríeykið góða, sóttvarnarlækni, landlækni og lögregluþjón. Ríkisstjórninni hefur verið hrósað mikið fyrir að taka talsvert mark á sóttvarnarlækninum. Hún virðist líka hafa hlustað talsvert vel á talsmenn ferðaþjónustunnar, sem eru sérkapítuli út af fyrir sig. En ekki verður séð að ríkisstjórnin hafi tekið mikið mark á hagfræðingunum okkar góðu um efnahagslegar hliðar sóttvarnarráðstafananna, en þeir tjáðu sig í viðtölum og með greinaskrifum.[4] Kannski hafa ráðherrarnir hugsað með sér að hagfræðiprófessorarnir þyrftu að fara í endurmenntun. Ef við látum efnahagslegar hliðar ráðstafananna liggja milli hluta, má velta fyrir sér hvernig sóttvarnarráðstafanirnar gengu, sem sóttvarnarráðstafanir, óháð hinum hagrænu hliðum á þessu erfiða máli.

                                                ~         ~         ~

            Ef við viljum átta okkur á árangri Íslendinga í sóttvarnarmálum er nærtækast að bera landið saman við önnur afskekkt eylönd. Í töflunni hér fyrir neðan er þetta gert, með nýjustu tölum. Í öllum þessum löndum hefur af einhverjum ástæðum gengið mun betur en Íslendingum að glíma við farsóttina. 

 
   
Mannfjöldi. *)Smitaðir **)Látnir
Ástralía     25,852,408   44,028981
Nýja Kaledónía            273,674       1350
Nýja Sjáland   5,127,465  2,69826
 Færeyjar  53,399     9952
Grænland56,653             2980
Ísland371,58010,11530
Mannfjöldi, greindir smitaðir og dánir úr kóvid. Allar kóvid tölur af vef Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Allar mannfjöldatölur frá wikipedia, nýjar.

           

         Ástralir eru tæplega 70 sinnum fleiri en Íslendingar og búa í álíka þéttbýlu landi. Þeir hafa þó aðeins fjórum til fimm sinnum fleiri covid tilvik en við og um 33 sinnum fleiri andlát. Ef marka má tölurnar hefur þeim því gengið miklu betur en okkur. Sama gildir um Nýja Sjáland. Árangurinn er sérlega áberandi í ferðamannalandinu Nýju Kaledóníu, landi sem er fámennara en Ísland en samt í nokkurn veginn sama stærðarflokki. 135 hafa smitast þar samtals frá upphafi farsóttarinnar, það liggur við að það sé dagsskammturinn hér undanfarið. Hver skyldi ástæðan vera, fyrir því að betur hefur gengið á hinum eyjunum en hjá okkur? 

            Augljóst er að með góðum vilja og skynsamlegum aðgerðum er hægt að halda veirunni frá eylöndum. Þessi veira er í sífelldri þróun, og nýjasta afbrigðið er hættulegra en fyrri afbrigðin. Sú stefna að halda landinu eins opnu og mögulegt er, með hliðsjón af afkastagetu heilbrigðiskerfisins, gæti því því þegar upp verður staðið reynst enn skaðlegri en hún hefur verið til þessa. Bólusetningar hjálpa til við að draga úr skaða af sýkingum, en börnin í landinu eru flest óbólusett og skólar að byrja.

[Lagfærði textann þar sem orð hafði fallið úr textanum og annað komið í staðinn og þar rétt hjá þar sem tvö orð höfðu fallið niður á einum stað, þann 24. ágúst.]


[1] Sjá á vef Hagstofunnar, hagstofa.is . Nánar til tekið hér: https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__mannfjoldi__1_yfirlit__arsfjordungstolur/MAN10001.px .

[2] Smittölur fengnar af síðu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, who.int og af síðu íslenskra stjórnvalda, covid.is. Tölurnar voru sóttar þann 23. ágúst 2021.

[3] Ég hef ekki tilvísun á reiðum höndum, heldur vitna hér til orða sóttvarnarlæknis eftir minni.

[4] Vísa má til greinar eftir Þórólf Matthíasson prófessor í hagfræði. 21. mars 2021. Skammgóður vermir endurtekinn? Opna til að loka, aftur? Grein í Kjarnanum. Sjá: https://kjarninn.is/skodun/skammgodur-vermir-endurtekinn-opna-til-ad-loka-aftur/ . Einnig til tveggja greina eftir Gylfa Zöega, prófessor í hagfræði um þetta: Um hagfræðilega hugsun á covid tímum. Vísbending. 44 tbl. 2020. Covid-19 um víða veröld. Vísbending 40. tbl. 30. október 2020. Enn fremur til viðtals við Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur, prófessor í hagfræði. Viðtal í Rúv. 10. ágúst 2020. „Opin landamæri mikil fórn fyrir lítinn ábata.“ Sjá: https://www.ruv.is/frett/2020/08/10/opin-landamaeri-mikil-forn-fyrir-litinn-abata . Auk þess komu hagfræðingar fram í útvarps- og sjónvarp- og vef-þáttum, ég man eftir einum þar sem Gylfi Zöega kom fram í þætti sem kallaðist Rauða borðið, ef ég man rétt, og var á vegum Gunnars Smára Egilssonar.

*) Mannfjöldatölur eru fengnar frá wikipedia.

**) Smittölur eru fengnar af vef Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, who.int ;  https://covid19.who.int/ https://covid19.who.int/region/euro/country/gl .  Skoðað að kvöldi 23. ágúst 2021.