Heimasíðan mín. Eða á maður að kalla þetta vefsetur?

Undanfarið hef ég notið aðstoðar Kolbrúnar Karlsdóttur vefhönnuðar við að koma mér upp eigin vefsetri. Tilgangurinn er að koma á einn stað ýmislegu sem ég hef skrifað um ævina og birt eða kynnt með öðrum hætti. En líka til að hafa vettvang til að birta ýmislegt efni sem kannski á ekki erindi á víðlesna fréttamiðla eins og dagblöðin eða fréttamiðilinn Stundina, en getur þó átt eitthvert erindi til ýmissa lesenda sem vilja lesa það sem ég skrifa.

Kolbrún Kristín Karlsdóttir, vefhönnuður.

        Ég er með bloggsíðu á Stundinni og hef ekkert haft nema ánægju af því að birta efni þar undanfarin sex ár. Ég ætla að skrifa áfram á Stundina. Mér sýnist að ég hafi skrifað að meðaltali um eina grein inn á þá síðu á um tveggja mánuða fresti. Þó að skrifin séu svona strjál eru greinarnar talsvert lesnar. Þetta get ég séð á sérstakri síðu sem Stundin leggur þeim til sem skrifa blogg þar.

            Maður skrifar fyrst og fremst fyrir sjálfan sig. Þetta á ekki bara við um dagbækur sem maður skrifar augljóslega fyrir sjálfan sig, heldur getur það líka átt við um skáldsögur og fræðiskrif. Og um greinar sem eru skrifaðar í blöðin. Maður skrifar til að komast í einhverjum skilningi sjálfur áfram, komast úr sporunum.

            Ég þekki marga myndlistarmenn. Vinkona mín sem er myndlistarkona sagði mér að það hefðu verið gerðar mælingar á því hve lengi gestir á listsýningum virtu fyrir sér málverkin sem þar væru sýnd. Niðurstaðan var að skoðunartíminn mælist í fáeinum sekúndum að meðaltali. En málverk geta verið lengi í vinnslu, árum, jafnvel áratugum saman. Þær eru svona lengi í vinnslu vegna þess að það er eitthvað sem klárast ekki alveg. Það er eitthvað við þær sem veldur því að listamaðurinn segir stopp, þetta læt ég ekki frá mér strax. Svo eru þær settar í málverkarekkann og fá að bíða þar. Þangað til næst. Og næst. Og næst. En ef allt gengur vel klárast verkið samt á endanum.

            Það tekur lengri tíma að lesa blaðagrein eða tímaritsgrein en fáeinar sekúndur, en er þó eigi að síður oft furðu fljótlegt. Það getur tekið skamma stund að skrifa stutta grein í blöð eða á vef, en stundum tekur það langan tíma. Sá sem skrifar, ekki síður en sá sem teiknar og málar, eyðir stundum löngum tíma með verki sínu meðan hann mótar það og gengur frá handa framtíðinni. En stundum gerist þetta á augnabliki. Og sumt á að flakka eins og það er sagt í hita og þunga dagsins.

            Einn tilgangur með þessari vefsíðu er bara sá að hafa það sem ég skrifa svona lauslegt, eins og þessar greinar, á einum stað. Þá er einfalt að vísa kunningjum á efnið. Svo er annar tilgangur að komast með efni sitt burt af samfélagsmiðlum, eða hafa það að minnsta kosti líka á stað sem maður ræður sjálfur. Og sá þriðji kannski sá að færa tölvupóstinn sinn úr umsjá erlendra auðhringa og heim í hús. Nú hef ég sem sagt komið mér upp netfangi á þessu vefsetri. Netfangið mitt er thorbergur@thorbergur.com .

            Ég á eftir að bæta gömlu efni inn á þessa síðu, bæði úr dagblöðum og af Stundinni og etv. líka frá öðrum stöðum. Ég á líka vonandi eftir að skrifa heilmikið efni sem fyrst og fremst verður birt hér, samhliða öðru sem ég birti annarsstaðar en held til haga hér líka. Allt kemur þetta í ljós.

                                                ~         ~         ~

Það var gott að fá aðstoð hennar Kolbrúnar Kristínar Karlsdóttur vefhönnuðar við að koma þessu á laggirnar. Hún býr núna á Siglufirði. Það gekk ljómandi vel að fá tölvuaðstoð frá henni með hjálp facetime, tölvupósta og síma. Vefsetur hennar er á slóðinni shush.is.