[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni þann 21. júlí 2021. Hún birtist þar svona. Ég setti hana hér inn þremur dögum síðar, þann 24. júlí.]
Nú er hafin fjórða bylgja covid 19 farsóttarinnar miklu, sem fyrst varð vart hér á landi þann 28. febrúar í fyrra. Sagt er að nýtt afbrigði veirunnar, sem bólusetningar virka ekki mjög vel gegn, svonefnt Delta afbrigði, sé það afbrigði sem smitar tugi manns daglega þessa dagana. Veiran berst um landamærin, en greinist nú úti um allt land í fjölmörgu og sífellt fleira bólusettu, en smituðu fólki sem að vísu virðist ekki allt veikjast jafn mikið og áður var.
Með vissum rétti má segja að allt sé þetta í boði ferðaþjónustunnar. Það kann að virðast harkalega til orða tekið, en þá má hafa í huga það sem Jóhannes Skúlason, talsmaður ferðaþjónustunnar, sagði berum orðum í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins þann 16. júlí sl. um hugsanlega herðingu á sóttvarnarráðstöfunum stjórnvalda. Þegar orð hans eru lesin hér, þarf að muna, að hingað til hafa allar sóttvarnarráðstafanir stjórnvalda verið kynntar með fyrirvara um að þeim verði breytt ef nauðsyn krefur. En í fréttatímanum komst Jóhannes svona að orði þrátt fyrir þetta:
„Það hins vegar gengur bara ekki upp, að svo þegar að við erum búin að setja af stað markaðsherferð, sem stjórnvöld eru að greiða fyrir, á grundvelli þess sem búið er að leggja upp af stjórnvöldum sjálfum, að þau gangi síðan á bak orða sinna með þeim hætti sem að verið er að leggja til, miðað við það sem sóttvarnarlæknir hefur látið frá sér fara núna undanfarna tvo daga. Þetta er einfaldlega ekki í boði af hálfu ferðaþjónustunnar.“[1]
Hér talar fulltrúi ferðaþjónustunnar eins og sá sem valdið hefur. Orðin fela í sér að ferðaþjónustan sé yfir stjórnvöld hafin, og aðgerðir stjórnvalda séu háðar því, hvað sé „í boði af hálfu ferðaþjónustunnar,“ og hvað ekki. Það er kannski ekki skrítið að talsmaðurinn sé svona stór upp á sig í viðtali við fréttamann sjónvarpsins. Því að allir vita að ferðaþjónustan hefur barist með oddi og egg gegn eðlilegum sóttvörnum í landinu allt frá því að farsóttin hófst. Og árangurinn af þessari baráttu ferðaþjónustunnar hefur sannarlega ekki látið á sér standa. Ekki verður betur séð en að ferðaþjónustan hafi hvað eftir annað getað fengið ríkisstjórnina til að slaka á sóttvarnarráðstöfunum, með tilheyrandi afleiðingum fyrir saklausa borgara í landinu. Þessar afleiðingar má taka saman í stuttu máli svona:
Samkvæmt nýjustu tölum hafa 49.228 manns lokið sóttkví hér á landi, 6.897 einstaklingar smitast af covid 19 og 30 manns dáið hér á landi af völdum farsóttarinnar.[2] Með öðrum orðum hefur farsóttin hefur orðið til þess að 49.228 manns hafi verið innilokaðir í sóttkví um lengri eða skemmri tíma á þessu tímabili. Þá hafa 6.897 manns á landinu smitast af veirunni og margir veikst alvarlega og 30 einstaklingar hafa fengið sóttina og dáið af henni. Ekki má svo gleyma því að allt opinbert mannlíf í landinu hefur hvað eftir annað lamast vegna þess að veira hefur sloppið inn í landið í kjölfar háværra krafna frá þeim sem hafa viljað að stjórnvöld drægju úr sóttvarnaraðgerðum.
Þetta eru umtalsverðar afleiðingar og umtalsverður kostnaður af örsmárri og ósýnilegri veiru sem hingað berst aftur og aftur og aftur með fólki sem á leið hingað frá útlöndum. Margir hafa glatað heilsunni og vita ekki hvort eða hvenær þeir muni ná sér. Stöku einstaklingur hefur glatað lífi sínu. Flestir hafa samt sloppið með skrekkinn sem betur fer.
~ ~ ~
Mikið hefur verið gert úr því, að Íslendingum hafi gengið betur en öðrum þjóðum að verjast farsóttinni. En sá árangur virðist vera eitthvað orðum aukinn. Þegar árangur Íslendinga er borinn saman við árangur annarra þjóða, þarf að bera sambærilega hluti saman. Nærtækast er að bera okkur saman við Norðurlandaþjóðirnar. En það er ekki nægilegt að heilbrigðiskerfi og menning sé sambærileg, það er líka nauðsynlegt að huga að því hvernig landamærum þjóðanna er háttað. Norðurlandaþjóðirnar á meginlandinu, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk eiga það sameiginlegt að vera í þjóðbraut samgangna á meginlandinu eða deila löngum landamærum með nágrannalöndum sínum. Danmörk liggur við Þýskaland og er á milli Þýskalands og Skandinavíuskagans. Noregur liggur við hlið Svíþjóðar og Finnlands. Á milli þessara landa eru löng landamæri með tilheyrandi landamærastöðvum og samgangi.
Öðru máli gegnir hjá eylöndunum Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Þessi lönd búa öll að því að hafa hið risastóra Atlantshaf sem sóttvarnargirðingu. Í þessum löndum eru að vísu hafnir og flugvellir, en öðrum raunhæfum snertipunktum við umheiminn er ekki til að dreifa. Hvernig hefur norrænu löndunum farnast í glímunni við covid 19 farsóttina? Hér er tafla sem ég bjó til úr opinberum gögnum til að varpa ljósi á það.
Eins og sjá má hafa fæst smit hlutfallslega greinst á Grænlandi og þar hefur enginn dáið úr farsóttinni til þessa. Hugsanlega eru aðstæður á Grænlandi of ólíkar aðstæðum á hinum Norðurlöndunum og hér á Íslandi til að samanburður sé fyllilega viðeigandi. En ef litið er til Færeyja, þar sem mikill kraftur var settur í skimanir í upphafi líkt og hér, hafa ívið færri greinst með veiruna þar en hér á Íslandi og í Finnlandi. En í Færeyjum hafa andlát verið hlutfallslega mun færri en hér. Það verður því að líta svo á að talsvert betur hafi gengið í Færeyjum en hér á Íslandi.
Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland eru lönd sem búa hvert um sig í nábýli við önnur lönd og þar hefur gengið verr en í eylöndunum þremur.
Við getum líka borið saman árangur Íslendinga, sem sést á töflunni hér fyrir ofan, og Nýsjálendinga og Taivanbúa. Bæði þessi lönd eru tiltölulega þróuð, og þetta eru eylönd eins og Ísland, svo að samanburður er ekki fráleitur. Þetta eru að vísu mun fjölmennari eyjur en Ísland. Hvað um það, samanburðurinn getur verið fróðlegur fyrir því.
Nýja Sjáland og Taívan eru eyjur eins og Ísland. En þar, líkt og í eyjunum Færeyjum og Grænlandi, hefur bara gengið miklu betur en hér. Getur hugsast að ferðaþjónustan í þeim löndum sé ekki eins hávær, og hafi ekki eins mikil áhrif í þessum löndum og hér á Íslandi?
~ ~ ~
Ferðaþjónusta snýst um að taka á móti gestum. Starfsemin þarf að borga sig eins og annað sem fólk tekur sér fyrir hendur. Allir vita að sumt sem fólk gerir til að hagnast á því kemur niður á öðrum. Þannig getur starfsemi borgað sig fyrir þann sem í henni stendur, þó að hún valdi stórskaða fyrir samfélagið í heild. Það er til hagfræðilegt hugtak yfir þetta sem heitir úthrif. Einfalt dæmi um slíkt er mengandi verksmiðja í þéttbýli, hún blæs frá sér mengandi efnum sem spilla heilsu almennings, en verksmiðjueigandinn borgar engar skaðabætur eða læknisþjónustu til þeirra sem á þurfa að halda. Annað dæmi um slíkt eru ferðaþjónustufyrirtæki og skemmtanahaldarar, sem byggja starfsemi sína á því að taka á móti fólki, sem er sýkt af hættulegri veiru og smitar aðra á ferðum sínum og samkomum gestgjafanna. Þeir sem standa fyrir svona fyrirtækjum hirða tekjurnar, en taka ekki tillit til annars kostnaðar en þeir sjálfir þurfa að standa straum af.
Í útvarpsviðtali við formann útihátíðarnefndar í Vestmannaeyjum, Hörð Orra Grettisson, sem flutt var á rás 2 í ríkisútvarpinu í morgun, að morgni 21. júlí, og að hluta til í fréttatíma útvarpsins kl. 10 síðar sama morgun, var ekki annað að heyra en að Þjóðhátíðarnefndin hugsi svona. Í viðtalinu kom fram að um mjög mikilvæga fjáröflunarleið íþróttafélags væri að ræða. Aðspurður um hvort ekki þurfi að hætta við Þjóðhátíð í Eyjum, vegna þess mikla smits af covid 19 sem komið er upp í landinu og búast megi við á útihátíðinni, sagði formaðurinn þetta:
„Við stefnum ótrauð á að halda þessa þjóðhátíð og hérna munum bara brýna fyrir okkar gestum að hér eftir sem hingað til er þetta bara undir okkur sjálfum komið og við þurfum bara að huga að persónulegum sóttvörnum, spritta vel og vanda okkur í þessu og þannig munum við allavega koma í veg fyrir að við sjálf smitumst.“[3]
Ekki verður betur séð en að formaður útihátíðarnefndarinnar búist við að margir muni smitast á fyrirhugaðri útihátíð í Eyjum. Þá verður honum hugsað til þess að mikilvægast sé auðvitað að smitast ekki sjálfur.
Íþróttafélagið sem heldur Þjóðhátíð í Eyjum mun ekki þurfa að borga það samfélagslega tjón sem kann að falla til vegna þess að þjóðhátíðargestir smitast af covid 19. En íþróttafélagið fær í sinn hlut aðgangseyrinn sem gestirnir borga.
~ ~ ~
Athugið að í færslunni sem upphaflega birtist hafði fallið út hluti einnar setningar sem nú, 24. júlí, hefur verið sett inn á réttan stað. Þetta er mjög smávægileg lagfæring.
[1] Hér má sjá kvöldfréttatíma sjónvarps þann 16. júlí sl: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/95bqb5/segir-stjornvold-ganga-a-bak-orda-sinna Viðtalið við Jóhannes Skúlason er hluti af fyrstu frétt fréttatímans.
[2] Sjá á vefsíðu stjórnvalda, covid.is, skoðað 21. júlí 2021.
[3] Hörður Orri Grettisson, formaður Þjóðhátíðarnefndar í viðtali við Morgunútvarpið, Ríkisútvarpinu, flutt í fréttum kl. 10 að morgni miðvikudagsins 21. júlí 2021. Hlusta má á viðtalið í heild hér: https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunutvarpid/23822/7grr78/hordur-orri-grettisson-thjodhatid-2021 . Ívitnað brot úr viðtalinu má líka heyra hér: https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunutvarpid/23822/7grr78/hordur-orri-grettisson-thjodhatid-2021
[*] Fyrri taflan, með upplýsingum um mannfjölda, smit og látna úr covid 19 á Norðurlöndum, var unnin upp úr mannfjöldaupplýsingum á norræna vefnum norden.org og upplýsingum um covid 19 smit og andlát á vef Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, who.int. Upplýsingar af þeim vef voru sóttar þann 20. júlí 2021.
Síðari taflan, með samsvarandi upplýsingum um Taívan og Nýja Sjáland, var unnin upp úr mannfjöldaupplýsingum og upplýsingum um covid 19 tilfelli á síðunni worldometer.info. Ástæðan fyrir því er sú, að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin birtir ekki sérstakar upplýsingar fyrir Taívan. Upplýsingarnar voru sóttar þann 21. júlí 2021.