[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni miðvikudaginn 3. apríl 2019. Hún birtist þar svona.]
Ég kveikti á útvarpinu áðan og þar var kona að lýsa hugðarefnum sínum. Og þegar hún lýsti þeim, talaði hún um að nú á dögum ættu sér stað svo miklar breytingar, og að við ættum ekki orð yfir svo margt sem væri að gerast, og þyrftum að undirbúa unga fólkið fyrir allt öðru vísi veröld en þá sem við lifum í núna. Vegna þessara breytinga sagði hún að það væri svo nauðsynlegt að vera „agjæl“, eins og það héti „í fræðunum“.
En orðið sem hún notaði þarna er enskt (komið þangað úr latínu). Það er stafsett „agile“ á því tungumáli. Það gæti merkt að vera snör í snúningum, snögg og fljót að átta sig og aðlagast.
Fyrr í morgun hafði ég stillt á aðra rás og þar voru tveir kampakátir karlar sem slettu ensku í um það bil öðru hverju orði og flissuðu þess á milli. Þessir menn voru að vinna vinnuna sína. Útvarpsmenn. Ég hef sjaldan hlustað á þessa stöð og slökkti fljótlega.
En þegar ég hafði heyrt útvarpsmennina sletta stanslaust á einhverri rásinni fyrr í morgun og svo þessa að því er virtist skynsömu konu nota orðið „agjæl“ á rás 1 varð mér hugsað til þess hve mörgum finnst gaman að segja, „svo ég segi þetta nú bara á góðri íslensku,“ og segja svo enskt orð í samtali sem að öðru leyti fer fram á íslensku.
Ég held ég hafi bara einu sinni svarað manneskju sem sagði, „svo ég segi þetta nú bara á góðri íslensku,“ og sletti svo. Ég sagði þá rólega en ákveðið, „þetta er ekki góð íslenska“. Fyrir þetta uppskar ég hneykslun viðstaddra. Ég sá ekki betur en að fólkið vildi segja við mig með hneykslunarsvip sínum: „er þetta ekki góð íslenska eða hvað? Hvað þykistu eiginlega vera?“