Bólusetningardagurinn

[Þessi grein birtist áður á bloggsíðu minni á fréttamiðlinum Stundinni þann 20. apríl 2021. Hún birtist þar svona.]

Símamynd: Þorbergur Þórsson

Í dag rann upp sá langþráði dagur að ég fékk bólusetningu. Ég fékk boðun nú fyrir helgi, með strikamerki, tímasetningu og leiðbeiningum. Ég átti að mæta kl. hálf fjögur í dag og koma um inngang A í Laugardalshöllinni og fá þar bóluefni frá Pfizer lyfjafyrirtækinu.

Ég var mættur tímanlega því að ég bjóst við að geta lent í vandræðum með að finna bílastæði. Það var mikil umferð bíla og gangandi fólks við Höllina. Ég sá þarna kunningjakonu mína gangandi í átt að íþróttahúsinu, flautaði, skrúfaði niður bílrúðuna og hún kallaði til mín glöð og kát að hún ætti að fara í bólusetningu fyrir aldurs sakir. Þá áttaði ég mig á því sem ég vissi ekki áður, að þessi kunningjakona mín væri líklega aðeins eldri en ég, því það var ekki komið að mér aldursins vegna heldur vegna heilsu minnar. En við töluðum ekki meira saman enda biðu bílar á eftir mér á þröngri götunni. Ég fann stæði fljótt og lagði og var skömmu seinna kominn að inngangi A. Allt gekk fljótt og vel fyrir sig. Eftir að ég hafði verið skráður inn í bólusetninguna var mér boðið sæti, þarna voru á að giska fimm sætaraðir, og svo voru kannski sex til átta hjúkrunarfræðingar, allt konur, sem sé kvenhjúkrunarfræðingar, sem sprautuðu heila sætaröð í einu, og færðu sig svo yfir á næstu röð líkt og hermenn á einhvers konar æfingu. Stólunum var stillt upp í samræmi við tveggja metra regluna sýndist mér, eða kannski í samræmi við einhverja tæplega tveggja metra reglu, svo að það var nóg pláss fyrir konurnar með hjólavagna sína með bóluefninu og sprautunum, að keyra vagnana gegnum eina sætaröð og yfir að þeirri næstu. Þetta var eins og í verksmiðju. Þær voru hlýlegar og kátar og sú sem stakk mig var greinilega mjög reynd í faginu, ég fann ekkert fyrir stungunni. Þegar allar hjúkkurnar voru búnar að sprauta í okkar röð færðu þær sig í röðina fyrir aftan okkur, en við vorum látin bíða í smá stund í sætaröðinni. Eftir það var okkur sagt að ganga af stað og við vorum látin ganga innar í anddyri íþróttahússins og við gengum framhjá mörgum stórum básum þar sem fólk sem nýbúið var að bólusetja sat á stólum. Svo vorum við komin að auðum bás, og var boðið sæti. Þetta var aðstaðan til að sitja af sér þær fimmtán mínútur sem það tekur að ganga úr skugga um hvort algengustu aukaverkanir komi fram hjá einhverjum þeirra sem verið var að bólusetja. (Sjá mynd.)

Mér skildist að sjúkrabíll með bráðaliðum biði fyrir utan, ef einhver skyldi nú veikjast. Korterið leið fljótt og ekki bar á neinum veikindum. Svo fengum við öll að standa upp og fara út. Þessi aðgerð var búin. Úti var sumarlegt, glaðasólskin, hiti og logn og mér var undarlega létt að vera nú loksins búinn að fá bólusetningu. Engar aukaverkanir hef ég fundið nú, nokkrum klukkustundum síðar, það eina sem ég finn fyrir er þessi ljúfi léttir, að eiga nú von á að geta lifað eðlilegu lífi. Guð blessi heilbrigðisstarfsfólkið okkar og heilbrigðiskerfið góða sem byggt hefur verið upp hér í landinu.